Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Á innan við sjö mánuðum höfum við Íslendingar fagnað þremur merkum áföngum í baráttunni fyrir fullu frelsi. Í desember síðastliðnum voru 100 ár frá því að Ísland varð fullvalda ríki, í febrúar voru 115 ár liðin frá því að við fengum heimastjórn og síðastliðinn mánudag var haldið upp á 75 ára afmæli lýðveldisins.
Þessir áfangar skipa mismunandi sess í hugum okkar. Þjóðhátíðardagurinn 17. júní er haldinn hátíðlegur. Við erum hins vegar að mestu hætt að halda upp á 1. desember þótt efnt hafi verið til hátíðarhalda á liðnu ári til að minnast aldarafmælis fullveldisins. Sama er að segja um 1. febrúar. Við leiðum yfirleitt aldrei hugann að því hversu mikilvægt skref í átt að fullveldi það var að höfuðstöðvar framkvæmdavaldsins fluttust heim til Íslands frá Kaupmannahöfn. Með því styrktist staða Alþingis og þingræðið var fest í sessi, eins og Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, benti á í hátíðarræðu þegar þess var minnst 1. febrúar 2004 að öld var frá því Hannes Hafstein varð ráðherra Íslands með aðsetur í Reykjavík. Og Davíð bætti við:
„Menn geta horft til helstu kaflanna í þjóðfrelsisbaráttunni, endurreisnar alþingis, þjóðfundar, stöðulaganna, stjórnarskrár, heimastjórnar, fullveldis og loks lýðveldis og spurt sig, hver þessara atburða stóð upp úr. Að forminu til má segja að fullveldið 1918 hafi verið stærsti atburðurinn. En að öllu öðru leyti var heimastjórnin 1. febrúar 1904 mikilvægasti atburður sjálfstæðisbaráttunnar og reyndar var farsæl framkvæmd á heimastjórninni forsenda fullveldisins. Þá tókst tvennt í senn. Umheiminum, og þá einkum Dönum, var sýnt fram á að Íslendingar væru fullfærir um að fara með eigin mál, þrátt fyrir fámenni, fátækt og harðbýlt lítt numið land. Og Íslendingum sjálfum óx ásmegin. Ísland, þessi hjari í norðurhöfum, var orðið land tækifæranna. Mjög snögglega dró úr vesturförum Íslendinga um þessar mundir, meðan straumurinn til Ameríku annars staðar frá jókst. Það undirstrikar vel hið breytta hugarfar. Væntingar og bjartsýni höfðu bægt burtu vonleysi og uppgjöf. Heimastjórnin 1. febrúar 1904 var því happafengur fyrir íslenska þjóð á þeim degi og ætíð síðar.“
Tækifærin nýtt
Pólitískt fullveldi og fjárhagslegt sjálfstæði eru mismunandi hliðar á sama teningi. „Fullveldi er ágætt, en því aðeins er það algert, að fjárhagslegt sjálfstæði fylgi,“ sagði með réttu á forsíðu Morgunblaðsins í desember 1918 þegar fullveldinu var fagnað.
Baráttan fyrir bættum lífskjörum hefur ekki aðeins snúist um að nýta auðlindir lands og sjávar heldur ekki síður að tryggja greiðan aðgang að erlendum mörkuðum fyrir íslenskar vörur. Baráttumenn fyrir sjálfstæði þjóðarinnar skildu öðrum betur hversu mikilvægt verslunarfrelsi er fyrir fámenna þjóð. Líkt og í sjálfstæðisbaráttunni, heimastjórn, fullveldi og lýðveldi, höfum við tekið hvert skrefið á fætur öðru frá lokum síðari heimstyrjaldar til að treysta böndin við vinaþjóðir og tryggja friðsamleg samskipti við allar þjóðir. Í samskiptum við aðrar þjóðir höfum við nýtt fullveldisrétt okkar til að byggja undir efnahagslega velmegun og pólitískt sjálfstæði.
Engir þeirra sem lögðu grunninn að fullu sjálfstæði lands og þjóðar árin 1904, 1918 eða 1944 gátu látið sig dreyma um þann ótrúlegan árangur sem náðst hefur. Það gerðist ekki af sjálfu sér að eitt fátækasta ríki Evrópu varð að einu mesta velmegunarríki heims og raunar sögunnar. Til þess þurfti framsýni og fyrirhyggju.
Við höfum nýtt auðlindir okkar af meiri skynsemi en flestar aðrar þjóðir. Gert sjávarútveg að arðbærri atvinnugrein, ólíkt flestum öðrum þjóðum, nýtt vatnsorkuna til raforkuframleiðslu, beislað heita vatnið og flutt tækiþekkingu til annarra landa.
Hreyknir af landi og þjóð
Ég er sannfærður um að Hannes Hafstein, Jón Þorláksson, Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson væru hreyknir af landi og þjóð. Stoltir af því hvernig til hefur tekist, þótt oft hafi gefið á bátinn og ýmis verkefni séu óunninn. Ólafur og Bjarni væru örugglega stoltir af því hvernig við höfum nýtt fullveldisrétt okkar í samskiptum við aðrar þjóðir enda lögðu þeir flesta hornsteina utanríkisstefnu okkar. EES-samningurinn byggir á þessum hornsteinum.
Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum 1946, var eðlilegt framhald af lýðveldisstofnuninni og vilja landsmanna að eiga friðsamleg og opin samskipti við aðrar þjóðir. Með sama hætti var nauðsynlegt að tryggja pólitískt sjálfstæði þjóðarinnar með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu. Í apríl síðastliðnum voru 70 ár frá því að ákveðið var að nýta fullveldið til að taka höndum saman við aðrar lýðræðisþjóðir. Sú ákvörðun hefur reynt okkur Íslendingum og öðrum þjóðum farsæl.
Þannig hefur hvert skrefið verið tekið. GATT, EFTA og loks EES fyrir 25 árum. Við höfum gert fjölda fríverslunarsamninga, bæði beint og í gegnum EFTA og eigum aðild að alþjóðlegum stofnunum þar sem við höfum undirgengist ákveðnar skyldur. Í hverju einasta skrefi hafa forystumenn þjóðarinnar haft í huga að efnahagsleg velsæld og fjárhagslegt sjálfstæði Íslendinga, verður ekki tryggt nema með greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum og opnum og frjálsum samskiptum við aðrar þjóðir.
Fullveldi, EES og orka
Í samskiptum við aðrar þjóðir fáum við ekki allt fyrir ekkert. Þetta á við um EES-samninginn eins og aðra alþjóðlega samninga. Um það verður ekki deilt (þótt einhverjir reyni) að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur reynt okkur Íslendingum hagstæður – með öllum sínum kostum og göllum. Auðvitað höfum við þurft að gefa ýmislegt eftir með sama hætti og samstarfsþjóðir okkar. Það er eðli alþjóðlegra samskipta. Mestu skiptir fyrir okkur Íslendinga að byggt sé á þeirri forsendu að íslenska ríkið hafi jafna stöðu á við önnur ríki í alþjóðlegu samstarfi. Á stundum hefur reynt á „þanþol“ stjórnarskrárinnar en þá skiptir miklu að takmarkað framsal valds hlýtur „eðli málsins samkvæmt að vera afturkræft frá sjónarhóli íslenskrar stjórnskipunar, enda væri önnur niðurstaða ósamrýmanleg fullveldi ríkisins,“ eins og sagði í áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar 2013-2016, undir forystu Sigurðar Líndals, lagaprófessors emeritus.
Þær hörðu deilur sem sprottið hafa upp vegna þriðja orkupakkans, svokallaða, eru á margan hátt skiljanlegar. Sem betur fer höfum við Íslendingar borið gæfu til þess að standa vörð um óskorað forræði á auðlindum lands og sjávar. Hafi einstaka þingmenn eða almenningur áhyggjur af því að með einum eða öðrum hætti sé verið að stefna forræði yfir orkuauðlindunum í hættu, er eðlilegt að brugðist sé hart við. Samþykkt þriðja orkupakkans felur hins vegar ekkert slíkt í sér.
Við erum ekki afsala okkur yfirráðum yfir orkuauðlindum. Við erum ekki að undirgangast skyldur um það hvernig, hverjir og hvenær skuli nýta orkuauðlindina. Við munum hér eftir sem hingað til stjórna og taka ákvörðun sjálf með hvaða hætti við nýtum auðlindina – óháð öllu og öllum, á okkar eigin forsendum og út frá okkar hagsmunum. Við erum ekki að undirgangast skyldur eða gefa loforð um lagningu sæstrengs. Hvort og þá hvenær sæstrengur verður lagður er ákvörðun sem við tökum á okkar forsendum. Við erum ekki að skuldbinda okkur til að breyta eignarhaldi á helstu og mikilvægustu orkufyrirtækjum landsins. Við erum ekki að færa umráðarétt eða eignarrétt á orkuauðlindunum eða orkufyrirtækjunum með þriðja orkupakkanum. Það er innbyggt og óaðskiljanlegur hluti af EES-samningnum að skipulag eignarréttarins og þar með nýting hans er og verður á forræði hvers aðildarríkis.
Deilan um þriðja orkupakkann hefur hins vegar leitt til þess að þingmenn og almenningur verður hér eftir meira vakandi gagnvart hagsmunum okkar innan EES. Það veit á gott og er okkur lífsnauðsynlegt. Ekkert mannanna verk er hafið yfir gagnrýni og endurskoðun. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ítrekað lýst því yfir að tímabært sé að Alþingi taki til skoðunar stöðu EFTA-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins.
Það reyndist mikið gæfuspor að taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða með innleiðingu EES-samningsins. En vegurinn milli samstarfs og varðstöðu um fullveldið verður alltaf vandrataður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. júní 2019.