Vistvænar Vestmannaeyjar

Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrú í Vestmannaeyjum:

Vest­manna­eyj­ar eru eyja­klasi við suður­strönd Íslands þar sem á fimmta þúsund Íslend­inga hef­ur kosið sér bú­setu. Eyj­arn­ar eru þekkt­ar fyr­ir stór­brotna nátt­úru­feg­urð, æv­in­týra­lega byggðasögu, fjöl­breytt dýra­líf og ekki síst elju, sam­stöðu og gleði eyja­skeggja. Það sem færri þekkja þó er að Vest­manna­ey­ing­ar hafa lengi verið í fremstu röð á heimsvísu hvað varðar vist­væna orku­fram­leiðslu.

Hraun­hita­veit­an

Eins ótrú­legt og það hljóm­ar er eng­inn jarðhiti í Vest­manna­eyj­um og upp­haf­lega voru hús hituð með kol­um, olíu en loks raf­magni. Í árs­byrj­un 1974 í kjöl­far Heima­eyj­argoss­ins var sett­ur upp ein­fald­ur varma­skipt­ir á Eld­fells­hrauni sem kalt vatn rann í gegn­um. Vatnið hitnaði í heitu hraun­inu og var leitt inn á hita­kerfi húsa. Um 1978 voru flest hús í Vest­manna­eyj­um tengd hraun­hita­veitu sem hitaði upp hús í Vest­manna­eyj­um í yfir 10 ár eða þar til hraunið fór að kólna. Hraun­hita­veit­an var fyrsta og eina sinn­ar teg­und­ar sem starf­rækt hef­ur verið í heim­in­um svo vitað sé.

Sorp til hús­hit­un­ar

Þegar sorporku­stöð var starf­rækt í Vest­manna­eyj­um á ár­un­um 1993-2013 var það í fyrsta skipti á land­inu sem sorp var notað sem orku­gjafi til hús­hit­un­ar en í kjöl­far hertra um­hverf­is­reglu­gerða var þeirri stöð lokað og tekið að flytja sorp frá Vest­manna­eyj­um með ferju sem sigl­ir á olíu og að sama skapi þurfti á ný að kynda hús­næði Eyja­skeggja með ótryggri raf­orku og olíu.

Landsnet lagði nýj­an sæ­streng til Eyja sem var tek­inn í notk­un árið 2013 og tryggði stór­bætt af­hend­ingarör­yggi ork­unn­ar. Fram­kvæmd­in gekk mjög hratt og vel fyr­ir sig, eða á met­hraða, enda var ekki neinu málþófi fyr­ir að fara hvað þann sæ­streng varðaði.

Sjóvarma­dælu­stöð

Í síðustu viku var vígð ný og glæsi­leg sjóvarma­dælu­stöð HS veitna í Vest­manna­eyj­um og sú næst­stærsta í heim­in­um, en varma­dælu­stöðin er að mati HS veitna ódýr­asti virkj­un­ar­kost­ur­inn um þess­ar mund­ir. Til­gang­ur­inn með fram­kvæmd­inni var að leita að hag­kvæm­asta úrræði til upp­hit­un­ar hús­næðis í Eyj­um til framtíðar litið og um leið að treysta orku­öfl­un­ina en þar er sjór nýtt­ur sem end­ur­nýj­an­leg­ur orku­gjafi í hús­um í fyrsta skipti á Íslandi.

Nýr Herjólf­ur raf­knú­inn

Ný Vest­manna­eyja­ferja er loks­ins á leið heim frá Póllandi og verður þar með fyrsta raf­knúna farþega­ferj­an á Íslandi. Sam­gönguráðherra ákvað í byrj­un árs 2018 í ljósi áherslna rík­is­stjórn­arsátt­mál­ans í lofts­lags­mál­um að raf­væða ferj­una að fullu þannig að þegar hún sigl­ir á milli Vest­manna­eyja og Land­eyja­hafn­ar get­ur hún siglt á raf­orkunni einni sam­an en hún þarf hins veg­ar að reiða sig á olíu í lengri sigl­ing­um.

Stuðning­ur hins op­in­bera

HS Veit­ur er gott dæmi um það hvernig einka­fyr­ir­tæki á sam­keppn­ismarkaði tek­ur af skarið og leiðir sam­fé­lagið inn á nýj­ar og spenn­andi slóðir, um­hverf­inu og sam­fé­lag­inu til heilla. Hið op­in­bera get­ur veitt ýms­an stuðning við slík já­kvæð verk­efni, með laga­setn­ing­um, í styrkja­formi líkt og í varma­dælu­verk­efn­inu, beinni íhlut­un líkt og í nýrri Vest­manna­eyja­ferju, fræðslu eða í formi skattaí­viln­ana. Sveit­ar­fé­lög­in geta að sama skapi komið til móts við slíka starf­semi í formi sam­vinnu við deili­skipu­lag og fram­kvæmd­ir, stuðnings og hvatn­ing­ar til ný­sköp­un­ar o.fl. líkt og hef­ur verið keppikefli Vest­manna­eyja­bæj­ar á und­an­förn­um árum.

Framtíðin í okk­ar hönd­um

Framtíð Vest­manna­eyja líkt og allr­ar jarðkringl­unn­ar velt­ur fyrst og fremst á mögu­leik­um mann­skyns­ins til að tak­ast á við okk­ar al­var­leg­ustu vanda­mál sem eru m.a. af­leiðing­ar okk­ar eig­in hegðunar. Lausn þess­ara al­var­legu vanda­mála er að miklu leyti fólg­in í þess­ari sömu hegðun og þá ým­ist tregðu okk­ar eða vilja til að breyta henni, ver­öld­inni til vansa eða veg­semd­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júní 2019.