Sýklalyfjaónæmi: Heildstæð nálgun nauðsynleg

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra:

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálstofnuninni, Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnuninni, Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Matvælastofnun Evrópusambandsins er útbreiðsla sýklalyfjaónæmis ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum. Þrátt fyrir að sýklalyfjaónæmi á Íslandi hafi verið umtalsvert minna vandamál en í nálægum löndum er mikilvægt að stemma stigu við frekari útbreiðslu. Því kynnti ríkisstjórnin í þessari viku þá stefnumörkun að Ísland ætlar að vera í farabroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Jafnframt kynnti ríkisstjórnin aðgerðir sem miða að því að þessu markmiði verði náð en þær byggja á öflugri vinnu okkar helstu sérfræðinga á undanförnum árum.

Opinber stefna stjórnvalda

Árið 2017 skilaði starfshópur um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi tillögum sínum. Í hópnum áttu sæti yfirdýralæknir, sóttvarnalæknir og deildarstjóri á Keldum. Í febrúar sl. undirrituðum við yfirlýsingu um átak til að draga úr útbreiðslu slíkra baktería. Jafnframt lýstum við því yfir að tillögur starfshópsins marki opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Stýrihópur beggja ráðuneyta fékk það hlutverk að framfylgja þeirri stefnu og jafnframt að móta tillögur að aðgerðum.

Gripið til aðgerða

Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt tillögu okkar beggja að umræddum aðgerðum sem eru fjármagnaðar bæði á þessu ári og til framtíðar. Á meðal aðgerða er að myndað verður teymi fimm sérfræðinga þvert á stofnanir sem helgar sig vörnum gegn sýklalyfjaónæmi. Þá verður settur á fót Sýklalyfjaónæmissjóður sem mun hafa það hlutverk að greiða fyrir skimun og vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, matvælum, umhverfi og fóðri. Jafnframt að greiða fyrir frekari rannsóknir á sýklalyfjaónæmi og annan ófyrirséðan kostnað. Einnig má nefna að sett verður af stað vinna við að útbúa viðbragðsáætlanir ef ónæmi greinist.

Heildstæð nálgun

Það er grundvallaratriði í þeirri stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að tekið verði með heildstæðum hætti á þeirri ógn sem sýklalyfjaónæmi ber með sér. Í því felst að horft verður til þess að taka á öllum þeim þáttum sem geta stuðlað að útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Umræðan undanfarna mánuði hefur verið með þeim hætti að ætla mætti að matvæli, og þá sérstaklega kjöt, séu þar stærsti áhættuþátturinn. Þetta er rangt. Í því samhengi má vísa til þess sem kemur fram í skýrslu starfshópsins frá 2017 að almennt sé talið „að lítil hætta sé á að ónæmar bakteríur berist í fólk með neyslu búfjárafurða þar sem þær eru að jafnaði hitameðhöndlaðar (soðnar/steiktar) fyrir neyslu og bakteríurnar þannig drepnar. Annað gildir um grænmeti sem borðað er hrátt. Því má færa fyrir því rök að líkur á smiti frá grænmeti geti verið meiri en frá kjöti.“

Þrátt fyrir þetta ber að taka alvarlega og af fullum þunga útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með matvælum. Því ætla stjórnvöld, innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða, að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í kunna að greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur.

Öflug samstaða

Við vonumst til þess að um það skapist öflug samstaða að Ísland verði í fremstu röð þegar að kemur að vörnum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Þær tillögur sem nú munu koma til framkvæmda eru mikilvægur liður í því að svo megi verða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2019.