Varðstaðan rofnar aldrei
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Af og til, líkt og til hátíðabrigða, lýsa stjórnlyndir þingmenn yfir áhyggjum af stöðu sjálfstæðra fjölmiðla. Flytja eina og eina ræðu eða skrifa jafnvel stuttan pistil þar sem mikilvægi fjölmiðla í frjálsu samfélagi er undirstrikað. Áhyggjurnar rista yfirleitt ekki djúpt og aldrei rofnar varðstaðan um Ríkisútvarpið. Ég hef lýst þessu þannig að Ríkisútvarpið geti alltaf gengið að því vísu að faðmur stjórnarmálamanna sé mjúkur og hlýr. Fáar stofnanir eru kærari í hugum meirihluta þingmanna en Ríkisútvarpið.

Varðstaðan um Ríkisútvarpið er svo þétt að meirihluti löggjafans lætur sig það litlu varða þótt stofnunin fari ekki að lögum sem um hana gilda. Í 4. gr. laga um Ríkisútvarpið kemur skýrt fram að Ríkisútvarpinu beri að stofna dótturfélög utan um samkeppnisrekstur. Með öðrum orðum: Ríkisútvarpið á aðskilja alfarið á milli almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar, ekki aðeins bókhaldslega heldur formlega með rekstri dótturfélaga. Í liðlega 16 mánuði hefur Ríkisútvarpið virt þessa lagaskyldu að vettugi.

Lögin um Ríkisútvarpið eru frá 2013 og upphaflega átti stofnunin að koma öllum samkeppnisrekstri fyrir í dótturfélögum 1. janúar árið eftir. Alþingi ákvað hins vegar að fresta gildistökunni til 2016. Í desember 2015 var samþykkt að fresta gildistöku 4. gr. laganna enn frekar eða til 1. janúar 2018, til þess „að Ríkisútvarpinu gefist kostur á að undirbúa breytinguna“.

Lögvarin forréttindi duga Ríkisútvarpinu sem sagt ekki. Það er ekki nægjanlegt fyrir ríkismiðilinn að löggjafinn gangi þannig frá málum að enginn, – hvorki einstaklingur né lögaðili – getur sagt upp „viðskiptasambandinu“. Í formi útvarpsgjalds er áskriftin innheimt, með góðu eða illu. Staða einkarekinna fjölmiðla er hins vegar gerð veikari með því að hækka virðisaukaskatt á áskriftum. Og rétt til að tryggja yfirburðastöðu ríkisins í samkeppninni við frjálsa fjölmiðla er á hverju ári samþykkt sérstök fjárveiting til Ríkisútvarpsins, umfram útvarpsgjald, til kaupa á efni af sjálfstæðum framleiðendum. Allt er síðan geirneglt með því að horfa fram hjá lögbrotum ríkisfyrirtækis sem er í harðri samkeppni við veikburða einkaaðila með sölu auglýsinga og útleigu á myndveri og tækjum.

Ég hef haldið því fram að afleiðingin af þessu öllu sé sú að fáar ef nokkur stofnun samfélagsins búi við minna aðhald en Ríkisútvarpið.

Tilraun til aðhalds

Árið 2016 var undirritaður þjónustusamningur milli menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins og þar var meðal annars ákvæði um kaup ríkismiðilsins á dagskrárefni af sjálfstæðum framleiðendum. Samkvæmt samningnum átti Ríkisútvarpið að verja að lágmarki 8% af heildartekjum sínum til að kaupa (eða gerast meðframleiðandi) sjónvarpsþætti, heimildaþætti og kvikmyndir af sjálfstæðum framleiðendum. Árið 2017 átti hlutfallið að vera að lágmarki 9%, 10% á síðasta ári og 11% á þessu ári. Þjónustusamningurinn rennur út í lok þessa árs. Þessi lágmörk eru fyrir utan þau sérstöku framlög sem Ríkisútvarpið fær úr ríkissjóði til kaupa á dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum.

Undir lok september eða fyrir tæpum átta mánuðum, lagði ég fram skriflega fyrirspurn á þingi um hvernig Ríkisútvarpið hefði uppfyllt þjónustusamninginn að því er varðar kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Óskað var eftir sundurliðun fjárhæða eftir árum, dagskrárefni, framleiðendum og dagskrárgerðarmönnum. Einnig óskaði ég eftir upplýsingum um hvort kaup Ríkisútvarpsins á dagskrárefni hefði í einhverjum tilfellum verið fjármögnuð með því að láta í té aðstöðu eða önnur efnisleg verðmæti. Þá spurði ég einnig hvort Ríkisútvarpið hefði gert samninga um að fá hlutdeild í væntanlegum hagnaði vegna sölu til þriðja aðila á sjónvarpsþáttum, kvikmyndum og heimildarmyndum, hversu miklar tekjurnar hefðu verið og hvernig þeim hefði verið ráðstafað.

Fyrirspurninni hefur ekki enn verið svarað. Ekki frekar en annarri fyrirspurn, sem þó er „ekki nema“ þriggja mánaða gömul, um þróun tekna Ríkisútvarpsins frá 2014 á föstu verðlagi, sundurgreint eftir árum og eðli tekna; útvarpsgjald, auglýsingar, kostun, og aðrar reglulegar og óreglulegar tekjur.

Nauðvörn

Tilraunir til að veita Ríkisútvarpinu aðhald með því að fylgjast með framkvæmd gildandi þjónustusamnings, eru þannig vanmáttugar. Ríkismiðilinn heldur hins vegar áfram að ganga að „áskriftatekjum“ sínum vísum. Samkvæmt fjárlögum renna yfir 4.600 milljónir króna til ríkismiðilsins á þessu ári að meðtöldu sérstöku 175 milljóna kr. framlagi til að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Samkvæmt samþykktri fjármálaáætlun verða framlögin nær 4.830 milljónir á næsta ári og 5.000 milljónir árið 2021.

Það er eitthvað öfugsnúið við að fjárhagur ríkisfyrirtækis í samkeppnisrekstri vænkist með hverju árinu sem líður á sama tíma og margir, jafnvel flestir, sjálfstæðir fjölmiðlar berjast í bökkum. Leikreglurnar eru skakkar – það er vitlaust gefið.

Það eru litlar eða engar líkur á því að leikreglunum verði breytt á komandi árum. Öllum má vera það ljóst að yfirgnæfandi meirihluti þingmanna stendur dyggilega vörð um Ríkisútvarpið. Þess vegna, og eins vegna þess hve mikilvægir frjálsir fjölmiðlar eru, hef ég talið koma til greina að styrkja sjálfstæða fjölmiðlun með öðrum hætti – gera tilraun til að gera leikinn örlítið jafnari. Skilvirkasta leiðin til að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla er lækkun skatta og opinberra gjalda. Innleiða samræmdar og gagnsæjar skattaívilnanir fyrir einkarekna fjölmiðla. Hugmyndin er langt í frá gallalaus en er lítið annað en nauðvörn – viðleitni til að rétta hlut einkarekinna fjölmiðla í ósanngjarnri samkeppni við ríkisfyrirtæki.

Menntamálaráðherra hefur kynnt stjórnarflokkunum frumvarp um stuðning við sjálfstæða fjölmiðla. Efnisatriði þess koma fram þegar ráðherra mælir fyrir frumvarpinu. Þegar og ef frumvarpið kemur til efnislegrar meðferðar á Alþingi, verður ekki hjá því komist að skoða stöðu Ríkisútvarpsins. Kannski er von til þess að hægt sé að setja einhver bönd á samkeppnisrekstur ríkisins og draga þannig úr þörfinni fyrir sértækar aðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir að sjálfstæð fjölmiðlun á Íslandi komist í þrot. Af þeirri ástæðu einni getur verið skynsamlegt að lofa þinginu að fást við verkefni sem menntamálaráðherra hefur mótað í formi frumvarps.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2019.