Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík leggja í dag fram tillögur á fundi borgarráðs þar sem þau leggja til að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að taka saman upplýsingar um kolefnislosun af starfsemi borgarinnar og í kjölfarið á því verði sviðinu falið að útbúa tillögur til aðgerða til kolefnisjöfnunar, til dæmis með gróðursetningu trjáa og endurheimt votlendis.
„Við þurfum að ná þessum markmiðum árið 2040 og það er gott ef að borgin byrjar á sjálfri sér og sýnir þannig gott fordæmi,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Fréttablaðið í dag.
Hún segir að samhliða því að borgin setji sér markmið um að vega á móti losun með því að gróðursetja trjám og endurheimta votlendi þá þurfi borgin að marka sér stefnu varðandi forvirkar aðgerðir og nefnir sem dæmi flugferðir.
„Það er hægt að nýta framúrskarandi fjarskiptabúnað til að taka þátt í fundum. Ég er mjög hlynnt alþjóðasamstarfi og skil að mannleg samskipti og persónulegir fundir skipta máli en ég held líka að það sé gott að rýna í það hvernig við forgangsröðum í þessu,“ segir Hildur.
Í greinargerð tillögunnar segir að baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum sé eitt stærsta viðfangsefni samtímans og bent á að í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum sé unnið eftir markmiðum Parísarsamningsins og stefnt að kolefnishlutleysi á Íslandi árið 2040. Þar skipti höfuðmáli orkuskipti í samgöngum og átak í kolefnisbindingu. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna telur að stór hluti þeirra aðgerða, eða allt að 70 til 90 prósent, sem verði að grípa til séu á sveitarstjórnarstiginu.
Hildur taldi að tillagan myndi næst fara til nefndar í umræðu en fannst líklegt að hún yrði samþykkt.
„Ég er bjartsýn og mér finnst loftslagsmálin vera algerlega þverpólitísk. Þannig upplifi ég það,“ segir Hildur að lokum.
Tillögurnar verða einnig lagðar fram í bæjarráði Garðabæjar og hafa þegar verið innleiddar í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Fréttin birtist á frettabladis.is 16. maí 2019.