Eiga neytendur að borga fyrir svindlarana?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, dóms-,ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Kennslubækur í siðfræði innihalda þann einfalda sannleik að til þess að viðskipti gangi upp verður að ríkja traust milli aðila á því að hlutirnir séu líkt og lofað er. Einstakir aðilar geta vissulega hagnast á því að hafa óhreint mjöl í pokahorninu en hlutirnir lenda strax í handaskolum ef allt mjöl er óhreint, steypan ótraust og bílarnir rétt skrölta út af bílasölunni. Traust verður að vera til staðar svo hægt sé að byggja nokkurn skapaðan hlut upp og þess vegna fæst mestur ávinningur ef allir koma hreint fram í sínum viðskiptum.

Það þarf ekki að taka það fram að lögbrotum verður að mæta með viðurlögum. Viðskiptaumhverfi okkar byggist meðal annars á trausti á að allir séu jafnir gagnvart kröfum og skyldum. Það myndi fljótt grafa undan sanngjörnu samkeppnisumhverfi ef sumir þyrftu ekki að lúta ekki sömu reglum og aðrir eða það væri látið óátalið þegar upp kemst um þá sem spila ekki eftir reglunum.

Refsiábyrgð lögaðila þarf að vera skýr. En ég vil sjá að viðurlög bíti þá sem meðvitað brjóta af sér áður en við grípum stöðugt til aukins eftirlits á alla þá sem vinna sína vinnu og reka sín fyrirtæki eftir lögum og reglum. Mín skoðun er sú að við eigum jafnframt að íhuga hvort við séum of gjörn á að bregðast alltaf við lögbrotum einstakra fyrirtækja með kröfum um aukið eftirlit hins opinbera. Slíkt allsherjareftirlit eykur alltaf kostnað, sem þarf þá að fjármagna hjá fyrirtækjunum sem aftur skilar sér út í verðlag. Við hljótum að vera sammála um að það er rétt að staldra við ef það er orðið hafið yfir gagnrýni að neytendur séu farnir að borga brúsa svindlaranna. Opinbert eftirlit þarf þvert á móti að vera skilvirkt, einfalt, skynsamlegt og þar með ekki of kostnaðarsamt.

Þegar þess er krafist að eftirlit sé aukið er ólíklegt að þar sé tekið inn í myndina að við erum nú þegar með allt of viðamikið og dýrt eftirlit í íslensku atvinnulífi. Þetta hefur OECD þegar bent á í viðamikilli vinnu hér á landi í svokölluðu samkeppnismati á gildandi regluverki fyrir ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi sem ég setti af stað í ráðuneyti mínu fyrir skömmu.

Við hugsum oft um samkeppnismál sem mál sem eru til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirliti. Þá er jafnan í umræðunni vísað til þess að eftirlitið hafi tiltekinn samruna fyrirtækja til skoðunar eða möguleg brot á samkeppnislögum. Samkeppnismál eru hins vegar mun víðtækari málaflokkur en svo. Til grundvallar samkeppnislögum liggur sú margsannaða staðreynd að í markaðshagkerfi er samkeppni nauðsynleg. Samkeppni eykur vöruúrval og leiðir til lægra verðs á vörum og þjónustu, samkeppni knýr fyrirtæki til að hagræða í rekstri og dregur þannig úr sóun og eykur framleiðni, eflir nýsköpun og styrkir stöðu íslensks atvinnulífs. Samfélagslegur ábati af virkri samkeppni er því afar mikill.

Regluverk til varnar samkeppni má ekki hamla samkeppni 

Það virðist stundum gleymast að það er ekki síður mikilvægt fyrir virka samkeppni að regluverkið sem atvinnulífið starfar eftir sé ekki samkeppnishamlandi. Það er því mikilvægur þáttur samkeppnismatsins að búa til starfsumhverfi sem hvetur til samkeppni og bætir þannig samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og hag landsmanna allra. Regluverkið verður að einfalda eins og kostur er enda skapar óþarfa reglubyrði kostnað og óhagræði fyrir fyrirtækin í landinu og dregur þannig úr virkri samkeppni.

Óli Björn Kárason þingmaður kemur inn á mikilvægan punkt í nýlegri grein sem ber heitið „Ekki fyrir kerfið heldur almenning og atvinnulífið“ þar sem hann segir: „Regluverk og umgjörð um íslenskt atvinnulíf er spurning um samkeppnishæfni gagnvart helstu samkeppnislöndum og þar með spurning um lífskjör. Þess vegna er það ein frumskylda stjórnvalda að verja samkeppnishæfni landsins. Með því að setja íþyngjandi kvaðir og reglur – umfram það sem almennt gerist – er aukin hætta á að íslensk fyrirtæki og launafólk verði undir í harðri og óvæginni alþjóðlegri samkeppni.“

Af sama meiði erum ég og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með sameiginlegt verkefni í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um einföldun regluverks sem miðar sérstaklega að því að einfalda leyfisveitingaferla og móta einfaldari og betri eftirlitsreglur sem skili sér í skilvirkari stjórnsýslu og markvissari eftirlitsreglum. Í þeirri vinnu verður sett í forgang einföldun leyfisveitinga og heildarendurskoðun eftirlitsreglna sem heyra undir ráðuneytið með það að markmiði að stjórnsýslan sé bæði skilvirk og réttlát.

Kostir samkeppnismats og einfaldara regluverks eru miklir og hafa í öðrum löndum leitt til aukins hagvaxtar og betri lífsgæða. Það er mín trú að þessi verkefni muni leiða betri starfsskilyrða fyrir íslenskt atvinnulíf. Það er hagur allra okkar að atvinnulífinu vegni vel og við viljum að þeir sem hafa góðar hugmyndir og drifkraft til að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd hafi tækifæri á að gera það án þess að regluverk hins opinbera hamli því með óþarflega íþyngjandi hætti.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. maí 2019.