Mannauður kennara

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Menntamálaráðherra leggur til að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum í stað þriggja samkvæmt núgildandi lögum. Þetta myndi opna á möguleika fyrir kennara að kenna með full réttindi á fleiri skólastigum en núverandi kerfi heimilar. Verði frumvarpið að lögum gætu falist í því fjölmörg tækifæri fyrir Reykjavíkurborg.

Með bindingu leyfisbréfa við tiltekið skólastig er æskilegt flæði kennara milli skólastiga hindrað. Með breytingunni eykst sveigjanleiki í starfi kennara verulega. Líklegt er að frumvarpið verði til þess að auka á svigrúm í skólastarfi, bæði hvað varðar starfsþróun kennara og þróun á fagstarfi. Skólastjórnendur munu hafa úr stærri potti að velja þegar kemur að ráðningum og meiri möguleika á að fá inn kennara með þá sérhæfingu sem vantar. Breytingin skapar tækifæri fyrir skólastjórnendur í Reykjavík til að ráða inn kennara með reynslu á ólíkum stigum.

Aukin réttindi og tækifæri til starfsþróunar ættu að styrkja stéttina og gera kennarastarfið meira aðlaðandi. Einnig mun starfsöryggi kennara aukast, en þeir sem ráða sig til kennslu milli skólastiga eru núna ráðnir inn sem leiðbeinendur og störf þeirra auglýst árlega. Þannig má með frumvarpinu vonast eftir aukinni aðsókn í kennaranám og að lærðir kennarar sem ekki starfa við kennslu snúi sér að kennslu. Í ljósi skorts á fagmenntuðum kennurum í leik- og grunnskólum ber að fagna hugmyndum sem kunna að fjölga í stéttinni.

Á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar, þegar ný störf verða til, munu skólabörn dagsins í dag þurfa að tileinka sér annars konar færni en fyrri kynslóðir. Þannig munu samskipti, samstarf, tilfinningagreind, sköpun og lausnamiðuð hugsun fá aukið vægi. Einnig er mikilvægt að leggja áherslu á lestur, stærðfræði, tækni og vísindi. Það er því ljóst að þeir sem græða mest á því að kennarar séu með ólíkan bakgrunn og þekkingu eru nemendur. Með frumvarpinu fá kennarar fjölbreyttari tækifæri til að þróa sig í starfi og gæði skólastarfsins munu aukast. Þegar öllu er á botninn hvolft er fyrst og fremst um hagsmunamál nemenda að ræða.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. maí 2019.