Óli Björn Kárason alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Um tíma var ástæða til að óttast hörð átök á vinnumarkaði, með tilheyrandi verkföllum. Átök sem allir hefðu skaðast á, jafnt almenningur sem atvinnurekendur. Ekki síst þess vegna var gleðilegt þegar forystumenn launafólks og atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði náðu saman. Lífskjarasamningarnir gefa góðir vonir um að traustur grunnur til bættra lífskjara hafi verið lagður. Hið opinbera ætlar að leggja sín lóð á vogarskálarnar.
Fyrir þann sem þetta skrifar er sérstaklega ánægjulegt hve mikil áhersla var lögð á lækkun skatta og þá fyrst og fremst á lægstu launin. Þótt útfærsla á lækkun tekjuskatts einstaklinga sé ekki sú sem ég hef barist fyrir er hún með þeim hætti að allir njóta góðs af, ekki síst fólk með lægstu tekjurnar.
Ástæða er til að ætla að lífskjarasamningarnir geti markað þáttaskil í kjarabaráttunni. Með svokölluðum hagvaxtarauka er komið á beinni tengingu milli svigrúms atvinnulífsins til launabreytinga og hækkunar launa. Ákvæði um launaauka vegna aukinnar framleiðni tryggir launafólki hlutdeild í ávinningi þegar landsframleiðsla á hvern íbúa eykst. Með öðrum orðum: Það er verið að tryggja hlutdeild launafólks í hagvexti í komandi framtíð. Þannig er samþætting hagsmuna atvinnurekstrar og starfsmanna aukin.
Samningarnir leggja grunn að því að vextir haldi áfram að lækka og þar með aukast ráðstöfunartekjur heimila og fyrirtæki fá betra svigrúm til að standa undir launahækkunum. Ríkisstjórnin hefur heitið því að grípa til víðtækra aðgerða í húsnæðismálum, ekki aðeins að styrkja félagslegar íbúðir heldur ekki síður að gera fólki betur kleift að eignast eigið húsnæði. Þannig verður fólki heimilt að nýta sér séreign (3,5%) skattfrjálst til íbúðakaupa auk almenns séreignasparnaðar.
Fyrir þá með lægstu launin
Í öllum málflutningi, jafnt í aðdraganda og eftir að kjarasamningar voru undirritaðir, lögðu forsvarsmenn atvinnurekenda og launafólks áherslu á kjarabætur til tekjulágs fólks. Breið samstaða væri á vinnumarkaði um að „launafólk með lágar tekjur hækki hlutfallslega meira í launum en þeir sem hærri laun hafa“.
Mikilvægt er að þeir kjarasamningar sem eftir er að ganga frá og þá ekki síst á opinberum vinnumarkaði rjúfi ekki þá samstöðu sem hefur náðst um bætt kjör þeirra sem lakast standa. Vítin eru til að varast þau. Geir Hallgrímsson, þá utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vék að stöðu þeirra sem lægstu launin hafa í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í október 1983:
„Allir stjórnmálaflokkar hafa á orði í umræðum sem þessum, að þeir vilji bæta hag hinna lægstlaunuðu. Ég er sammála því, að það á að bæta hag hinna lægstlaunuðu, en ég leyfi mér að segja að engin röksemd í kjaramálum hefur verið jafn mikið misnotuð og einmitt þessi. Sannleikurinn er sá, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þeir sem hærri launin hafa og hinir með meðallaun vilja gjarnan skríða upp eftir bakinu á hinum lægstlaunuðu og bera þá fyrir sig til þess að ná fram betri kjörum fyrir sjálfa sig. Það hefur yfirleitt mistekist að bæta kjör hinna lægstlaunuðu umfram aðra, vegna þess að hinir hafa aldrei sætt sig við það. Og staðreynd er, að þeir sem hafa lægstu launin sýna oft meiri þolinmæði og skilning á nauðsyn þess, að atvinnufyrirtækin fái tækifæri til að rétta við, en hinir sem við betri kjör búa.“
Geir var sannfærður um að „hinir lægstlaunuðu hafi fengið nóg af lýðskrumi, þegar menn hafa á orði nauðsyn þess að bæta kjör þeirra en athafnir fylgja ekki orðum“. Vonandi höfum við öll lært á þeim 36 árum sem liðin eru frá því að Geir Hallgrímsson taldi nauðsynlegt að setja fram harða gagnrýni á lýðskrum á vinnumarkaði og stjórnmálum.
Meinsemd á vinnumarkaði
Hagsmunir launafólks felast ekki aðeins í að tryggja hækkun launa, heldur ekki síður kaupmátt þeirra og miklu fremur kaupmátt ráðstöfunartekna. En launin eru ekki allt. Heilbrigði vinnumarkaðarins er mikilvægur þáttur í bættum lífskjörum.
Félagsleg undirboð á vinnumarkaði eru meinsemd sem atvinnulífið – atvinnurekendur og launafólk – verður að takast á við í samstarfi við stjórnvöld. Hér fara saman hagsmunir launafólks og hagsmunir atvinnurekenda, að minnsta kosti þeirra sem stunda sín viðskipti með heiðarlegum hætti. Fórnarlömb félagslegra undirboða á vinnumarkaði eru mörg. Launamaðurinn sem svikinn er um rétt kjör, ríkissjóður sem með vélabrögðum verður af tekjum og atvinnurekandinn er stundar heiðarleg viðskipti en verður undir í samkeppninni vegna óheiðarleika annarra.
Heilbrigður vinnumarkaður er ein forsenda góðs samfélags. Þegar hafa verið stigin ákveðin skref í að takast á við meinsemd á vinnumarkaði en í tengslum við lífskjarasamningana hefur ríkisstjórnin heitið því að gripið verði til margvíslegra aðgerða gegn brotastarfsemi í atvinnulífinu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, hefur þegar mælt fyrir frumvarpi þar sem tekið verður á sviksamlegu kennitöluflakki í atvinnurekstri. Frumvarpið verður vonandi að lögum nú í vor.
Ójöfnuður og misrétti
Lífskjör ráðast ekki aðeins af því hversu margar krónur eru í launaumslaginu eftir að skattar og gjöld hafa verið greidd. Lífskjörin ráðast ekki síður af því hvernig til tekst við alla stjórnsýslu hins opinbera, – hversu hagkvæm og góð þjónustan er. Með þetta í huga er erfitt að skilja hvers vegna forysta verkalýðshreyfingarinnar beinir ekki sjónum sínum í auknum mæli að því hvernig hið opinbera stendur að verki við að veita landsmönnum þjónustu, sem við höfum ákveðið að veitt skuli og greitt að miklu leyti úr sameiginlegum sjóðum. Þetta á ekki síst við um heilbrigðisþjónustu.
Allir landsmenn eru sjúkratryggðir og eiga að njóta nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Verulegir og oft alvarlegir brestir í heilbrigðiskerfinu koma í veg fyrir að sjúkratryggðir njóti skilgreindra réttinda. Með stofnanavæðingu heilbrigðisþjónustunnar er sú hætta raunveruleg að til verði tvöfalt heilbrigðiskerfi. Við þessu hefur sá er þetta skrifar varað ítrekað. Því miður hafa helstu talsmenn launafólks ekki tekið undir.
Tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem efnafólk getur nýtt sér þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja án þess að þurfa að bíða mánuðum saman eftir bót meina sinna, verður fleygur í þjóðarsálina – leiðir til aukins ójafnaðar og misréttis. Gerir að engu sáttmála um að sameiginlega tryggjum við hvert öðru nauðsynlega þjónustu. Jafnræði í heilbrigðiskerfinu heyrir þar með sögunni til.
Kerfið stokkað upp
Í síðustu viku gerði ég að umtalsefni það flókna regluverk sem búið hefur verið til hér á landi, ekki síst um atvinnulífið. Við Íslendingar höfum gengið lengra en aðrar þjóðir í að regluvæða samfélagið. Reglubyrðin er þyngri hér á landi en í helstu samkeppnislöndum, kostnaðurinn er hærri og samkeppnishæfnin þar með lakari. Ætla má að árlegur kostnaður fyrirtækja við að framfylgja sífellt flóknari og strangari reglum hlaupi á tugum milljarða króna. Erfitt er að meta óbeinan kostnað vegna minni framleiðni, verri skilvirkni og lakari samkeppnisstöðu. Beinn og óbeinn kostnaður við regluverkið og eftirlitskerfið er ekki aðeins borinn af eigendum fyrirtækja heldur ekki síður af launafólki í formi lægri launa og af neytendum öllum sem þurfa að sætta sig við hærra verð á vöru og þjónustu. Dýrt og flókið kerfið hefur bein áhrif á verðlag, skuldir og tekjur launafólks.
Uppskurður á opinberu eftirlitskerfi – færri og einfaldari reglur – styrkir hag fyrirtækja og eykur möguleika til nýsköpunar. Störfum fjölgar, vöruverð lækkar og skatttekjur ríkisins aukast. Allir hagnast.
Það er sameiginlegt hagsmunamál atvinnurekenda og launafólks að kerfið verði stokkað upp, fitan skorin í burtu og leikreglurnar einfaldaðar.
Ég óska launafólki um allt land til hamingju með daginn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí 2019.