Kjarabarátta nýrra tíma
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Um tíma var ástæða til að ótt­ast hörð átök á vinnu­markaði, með til­heyr­andi verk­föll­um. Átök sem all­ir hefðu skaðast á, jafnt al­menn­ing­ur sem at­vinnu­rek­end­ur. Ekki síst þess vegna var gleðilegt þegar for­ystu­menn launa­fólks og at­vinnu­rek­enda á al­menn­um vinnu­markaði náðu sam­an. Lífs­kjara­samn­ing­arn­ir gefa góðir von­ir um að traust­ur grunn­ur til bættra lífs­kjara hafi verið lagður. Hið op­in­bera ætl­ar að leggja sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar.

Fyr­ir þann sem þetta skrif­ar er sér­stak­lega ánægju­legt hve mik­il áhersla var lögð á lækk­un skatta og þá fyrst og fremst á lægstu laun­in. Þótt út­færsla á lækk­un tekju­skatts ein­stak­linga sé ekki sú sem ég hef bar­ist fyr­ir er hún með þeim hætti að all­ir njóta góðs af, ekki síst fólk með lægstu tekj­urn­ar.

Ástæða er til að ætla að lífs­kjara­samn­ing­arn­ir geti markað þátta­skil í kjara­bar­átt­unni. Með svo­kölluðum hag­vaxt­ar­auka er komið á beinni teng­ingu milli svig­rúms at­vinnu­lífs­ins til launa­breyt­inga og hækk­un­ar launa. Ákvæði um launa­auka vegna auk­inn­ar fram­leiðni trygg­ir launa­fólki hlut­deild í ávinn­ingi þegar lands­fram­leiðsla á hvern íbúa eykst. Með öðrum orðum: Það er verið að tryggja hlut­deild launa­fólks í hag­vexti í kom­andi framtíð. Þannig er samþætt­ing hags­muna at­vinnu­rekstr­ar og starfs­manna auk­in.

Samn­ing­arn­ir leggja grunn að því að vext­ir haldi áfram að lækka og þar með aukast ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila og fyr­ir­tæki fá betra svig­rúm til að standa und­ir launa­hækk­un­um. Rík­is­stjórn­in hef­ur heitið því að grípa til víðtækra aðgerða í hús­næðismál­um, ekki aðeins að styrkja fé­lags­leg­ar íbúðir held­ur ekki síður að gera fólki bet­ur kleift að eign­ast eigið hús­næði. Þannig verður fólki heim­ilt að nýta sér sér­eign (3,5%) skatt­frjálst til íbúðakaupa auk al­menns sér­eigna­sparnaðar.

Fyr­ir þá með lægstu laun­in

Í öll­um mál­flutn­ingi, jafnt í aðdrag­anda og eft­ir að kjara­samn­ing­ar voru und­ir­ritaðir, lögðu for­svars­menn at­vinnu­rek­enda og launa­fólks áherslu á kjara­bæt­ur til tekju­lágs fólks. Breið samstaða væri á vinnu­markaði um að „launa­fólk með lág­ar tekj­ur hækki hlut­falls­lega meira í laun­um en þeir sem hærri laun hafa“.

Mik­il­vægt er að þeir kjara­samn­ing­ar sem eft­ir er að ganga frá og þá ekki síst á op­in­ber­um vinnu­markaði rjúfi ekki þá sam­stöðu sem hef­ur náðst um bætt kjör þeirra sem lak­ast standa. Vít­in eru til að var­ast þau. Geir Hall­gríms­son, þá ut­an­rík­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, vék að stöðu þeirra sem lægstu laun­in hafa í umræðum um stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra í októ­ber 1983:

„All­ir stjórn­mála­flokk­ar hafa á orði í umræðum sem þess­um, að þeir vilji bæta hag hinna lægst­launuðu. Ég er sam­mála því, að það á að bæta hag hinna lægst­launuðu, en ég leyfi mér að segja að eng­in rök­semd í kjara­mál­um hef­ur verið jafn mikið mis­notuð og ein­mitt þessi. Sann­leik­ur­inn er sá, hvort sem okk­ur lík­ar bet­ur eða verr, að þeir sem hærri laun­in hafa og hinir með meðallaun vilja gjarn­an skríða upp eft­ir bak­inu á hinum lægst­launuðu og bera þá fyr­ir sig til þess að ná fram betri kjör­um fyr­ir sjálfa sig. Það hef­ur yf­ir­leitt mistek­ist að bæta kjör hinna lægst­launuðu um­fram aðra, vegna þess að hinir hafa aldrei sætt sig við það. Og staðreynd er, að þeir sem hafa lægstu laun­in sýna oft meiri þol­in­mæði og skiln­ing á nauðsyn þess, að at­vinnu­fyr­ir­tæk­in fái tæki­færi til að rétta við, en hinir sem við betri kjör búa.“

Geir var sann­færður um að „hinir lægst­launuðu hafi fengið nóg af lýðskrumi, þegar menn hafa á orði nauðsyn þess að bæta kjör þeirra en at­hafn­ir fylgja ekki orðum“. Von­andi höf­um við öll lært á þeim 36 árum sem liðin eru frá því að Geir Hall­gríms­son taldi nauðsyn­legt að setja fram harða gagn­rýni á lýðskrum á vinnu­markaði og stjórn­mál­um.

Mein­semd á vinnu­markaði

Hags­mun­ir launa­fólks fel­ast ekki aðeins í að tryggja hækk­un launa, held­ur ekki síður kaup­mátt þeirra og miklu frem­ur kaup­mátt ráðstöf­un­ar­tekna. En laun­in eru ekki allt. Heil­brigði vinnu­markaðar­ins er mik­il­væg­ur þátt­ur í bætt­um lífs­kjör­um.

Fé­lags­leg und­ir­boð á vinnu­markaði eru mein­semd sem at­vinnu­lífið – at­vinnu­rek­end­ur og launa­fólk – verður að tak­ast á við í sam­starfi við stjórn­völd. Hér fara sam­an hags­mun­ir launa­fólks og hags­mun­ir at­vinnu­rek­enda, að minnsta kosti þeirra sem stunda sín viðskipti með heiðarleg­um hætti. Fórn­ar­lömb fé­lags­legra und­ir­boða á vinnu­markaði eru mörg. Launamaður­inn sem svik­inn er um rétt kjör, rík­is­sjóður sem með véla­brögðum verður af tekj­um og at­vinnu­rek­and­inn er stund­ar heiðarleg viðskipti en verður und­ir í sam­keppn­inni vegna óheiðarleika annarra.

Heil­brigður vinnu­markaður er ein for­senda góðs sam­fé­lags. Þegar hafa verið stig­in ákveðin skref í að tak­ast á við mein­semd á vinnu­markaði en í tengsl­um við lífs­kjara­samn­ing­ana hef­ur rík­is­stjórn­in heitið því að gripið verði til marg­vís­legra aðgerða gegn brot­a­starf­semi í at­vinnu­líf­inu. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og ný­sköp­un­ar, hef­ur þegar mælt fyr­ir frum­varpi þar sem tekið verður á svik­sam­legu kenni­töluflakki í at­vinnu­rekstri. Frum­varpið verður von­andi að lög­um nú í vor.

Ójöfnuður og mis­rétti

Lífs­kjör ráðast ekki aðeins af því hversu marg­ar krón­ur eru í launaum­slag­inu eft­ir að skatt­ar og gjöld hafa verið greidd. Lífs­kjör­in ráðast ekki síður af því hvernig til tekst við alla stjórn­sýslu hins op­in­bera, – hversu hag­kvæm og góð þjón­ust­an er. Með þetta í huga er erfitt að skilja hvers vegna for­ysta verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar bein­ir ekki sjón­um sín­um í aukn­um mæli að því hvernig hið op­in­bera stend­ur að verki við að veita lands­mönn­um þjón­ustu, sem við höf­um ákveðið að veitt skuli og greitt að miklu leyti úr sam­eig­in­leg­um sjóðum. Þetta á ekki síst við um heil­brigðisþjón­ustu.

All­ir lands­menn eru sjúkra­tryggðir og eiga að njóta nauðsyn­legr­ar heil­brigðisþjón­ustu, óháð efna­hag og bú­setu. Veru­leg­ir og oft al­var­leg­ir brest­ir í heil­brigðis­kerf­inu koma í veg fyr­ir að sjúkra­tryggðir njóti skil­greindra rétt­inda. Með stofn­ana­væðingu heil­brigðisþjón­ust­unn­ar er sú hætta raun­veru­leg að til verði tvö­falt heil­brigðis­kerfi. Við þessu hef­ur sá er þetta skrif­ar varað ít­rekað. Því miður hafa helstu tals­menn launa­fólks ekki tekið und­ir.

Tvö­falt heil­brigðis­kerfi, þar sem efna­fólk get­ur nýtt sér þjón­ustu sjálf­stætt starf­andi sér­fræðilækna og einka­rek­inna heil­brigðis­fyr­ir­tækja án þess að þurfa að bíða mánuðum sam­an eft­ir bót meina sinna, verður fleyg­ur í þjóðarsál­ina – leiðir til auk­ins ójafnaðar og mis­rétt­is. Ger­ir að engu sátt­mála um að sam­eig­in­lega tryggj­um við hvert öðru nauðsyn­lega þjón­ustu. Jafn­ræði í heil­brigðis­kerf­inu heyr­ir þar með sög­unni til.

Kerfið stokkað upp

Í síðustu viku gerði ég að um­tals­efni það flókna reglu­verk sem búið hef­ur verið til hér á landi, ekki síst um at­vinnu­lífið. Við Íslend­ing­ar höf­um gengið lengra en aðrar þjóðir í að reglu­væða sam­fé­lagið. Reglu­byrðin er þyngri hér á landi en í helstu sam­keppn­islönd­um, kostnaður­inn er hærri og sam­keppn­is­hæfn­in þar með lak­ari. Ætla má að ár­leg­ur kostnaður fyr­ir­tækja við að fram­fylgja sí­fellt flókn­ari og strang­ari regl­um hlaupi á tug­um millj­arða króna. Erfitt er að meta óbein­an kostnað vegna minni fram­leiðni, verri skil­virkni og lak­ari sam­keppn­is­stöðu. Beinn og óbeinn kostnaður við reglu­verkið og eft­ir­lit­s­kerfið er ekki aðeins bor­inn af eig­end­um fyr­ir­tækja held­ur ekki síður af launa­fólki í formi lægri launa og af neyt­end­um öll­um sem þurfa að sætta sig við hærra verð á vöru og þjón­ustu. Dýrt og flókið kerfið hef­ur bein áhrif á verðlag, skuld­ir og tekj­ur launa­fólks.

Upp­skurður á op­in­beru eft­ir­lit­s­kerfi – færri og ein­fald­ari regl­ur – styrk­ir hag fyr­ir­tækja og eyk­ur mögu­leika til ný­sköp­un­ar. Störf­um fjölg­ar, vöru­verð lækk­ar og skatt­tekj­ur rík­is­ins aukast. All­ir hagn­ast.

Það er sam­eig­in­legt hags­muna­mál at­vinnu­rek­enda og launa­fólks að kerfið verði stokkað upp, fit­an skor­in í burtu og leik­regl­urn­ar ein­faldaðar.

Ég óska launa­fólki um allt land til ham­ingju með dag­inn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí 2019.