Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og dómsmála-, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Í opinberri umræðu er æskilegt að greina á milli staðreynda og skoðana. Það er bæði heilbrigt og eðlilegt að menn séu ósammála og deili um mál með sannfæringu – og staðreyndir að vopni. Fullyrðingar um að raforkuverð hafi hækkað á Íslandi vegna upptöku fyrsta og annars orkupakka ESB, og muni hækka enn frekar við upptöku þriðja orkupakkans, eiga ekki við rök að styðjast. Þaðan af síður er stoð fyrir fullyrðingum í þá veru að óheimilt verði að niðurgreiða húshitunarkostnað eða jafna dreifikostnaði raforku á millidreifbýlis og þéttbýlis. Slíkar ákvarðanir hafa frá 2002 verið í höndum Alþingis og munu verða það áfram.
Pakkar fyrir neytendur
Þó að umræðan um þriðja orkupakkann hafi stundum farið útum víðan völl, þá má hún þó eiga það, að hún hefur beint sjónum að því sem fólst í fyrstu tveimur orkupökkunum. Landsmenn hafa verið minntir á, að hér hefur verið komið á frjálsu markaðsumhverfi í framleiðslu og sölu á rafmagni, með svipuðum hætti og áður var gert á fjarskiptamarkaði, og að þeim er frjálst að kaupa rafmagn af hverjum sem þeir kjósa.
Fyrirtæki hafa nýtt sér þetta í talsverðum mæli, jafnvel farið í útboð á rafmagnsþörf sinni og þannig sparað sér töluvert fé. Einstaklingar hafa síður nýtt sér þetta, sennilega af því að fjárhæðirnar eru ekki stórar fyrir dæmigert heimili. Munurinn á milli seljenda er ekki mjög mikill, eða um 10% nú um stundir.
Það er fagnaðarefni að fleiri og fleiri neytendur geri sér grein fyrir þessu, nýti sér þennan möguleika, og að fleiri aðilar komi inn á markaðinn til að auðvelda þeim það. Við eigum að stefna að því að auka samkeppnina enn frekar.
Raforkuverðið hefur lækkað, ekki hækkað
Það er gagnlegt í þessari umræðu að skoða þróun raforkuverðs og samkeppni á raforkumarkaði frá setningu raforkulaga árið 2003 og innleiðingu fyrsta og annars orkupakka ESB. Fyrr á þessu ári óskaði ég því eftir því að verkfræðistofan EFLA tæki saman skýrslu að nýju um þau mál og hvernig til hafi tekist með þá breytingu sem átti sér stað með setningu raforkulaga árið 2003. Með þeim lögum var raforkuvinnsla og sala raforkugefin frjáls en sérleyfi þarf til að flytja og dreifa raforku.
Í skýrslu EFLU kemur fram að tekist hafi að innleiða samkeppni í vinnslu og sölu raforku og að fyrirtækjum sem keppi á þeim markaði fari fjölgandi. Verð á raforku í smásölu hafi farið lækkandi eftir setningu raforkulaga, hafi síðan hækkað að nýju og sé nú svipað að raunvirði og það var fyrst eftir skipulagsbreytingarnar. Ekki verði annað séð en að samkeppni sé í smásölu raforku en til að auka hana sé mikilvægt að hvetja heimili og fyrirtæki til að skoða möguleika sína hvað varðar raforkukaup. Í samantekt skýrslunnar er bent á nokkur atriði varðandi árangurinn af skipulagsbreytingunum sem innleiddar voru með raforkulögum árið 2003 og má þar nefna:
- Tekist hefur að innleiða samkeppni í raforkusölu sem skilað hefur sér í nokkuð stöðugu raforkuverði á almennum markaði. Raforkuvinnsla var jafnframt gefin frjáls en í eldra kerfi voru miklar takmarkanir sem m.a. ollu verulegu ósætti um það kerfi.
- Samkeppni í raforkusölu hefur veitt fyrirtækjum í vinnslu og sölu raforku gott aðhald og merki um það er að arðsemi eigin fjár í starfseminni hefur verið að meðaltali minni en í sérleyfisstarfseminni.
- Aðhald með rekstri sérleyfisfyrirtækjanna hefur verið með því að setja þeim tekjumörk sem hafa skilað fjárhagslega jákvæðum rekstri í þessari starfsemi. Tekjumörkin og aðskilnaður á milli þétt- og dreifbýlis hafa skilað því að gegnsæi hefur aukist og skýrt er hve mikið dýrara er að dreifa orku í dreifbýli en þéttbýli. Allir almennir raforkunotendur hafa tekið þátt í að greiða niður þann umframkostnað með jöfnunargjaldi sem er notað til aðfjármagna dreifbýlisframlag.
- Hækkanir á gjaldskrám dreifiveitna eru að mestu tilkomnar vegna aukins fjármagnskostnaðar sem skýrist af miklum fjárfestingum í dreifikerfunum, sérstaklega í dreifbýlinu.
Ákvörðun um sæstreng alfarið í höndum Alþingis
Bæði garðyrkjubændur og bakarameistarar hafa lýst áhyggjum af hækkun raforkuverðs ef þriðja raforkutilskipunin verður innleidd. Þær áhyggjur byggjast á fullyrðingum um að innleiðingin muni án nokkurs vafa leiða til raforkusæstrengs til Evrópu. Slík fullyrðing á ekki við rök að styðjast þar sem ákvörðun um sæstreng verður alfarið í höndum Alþingis og íslenskra stjórnvalda eins og nánar er útlistað í frumvarpi og þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram á Alþingi. Innleiðingin mun, ein og sér, ekki leiða til hærra raforkuverðs á Íslandi, hvorki til garðyrkjubænda, bakara né nokkurra annarra. Markmiðið er einmitt að með aukinni samkeppni á sölu raforku muni verð lækka.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 21. apríl 2019.