Páll Magnússon alþingismaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis:
Ég var í hópi þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem höfðu mestar efasemdir um innleiðingu á 3. orkupakkanum – og í haust lýsti ég því yfir opinberlega að væri hann að koma til kasta Alþingis eins og málið leit út þá myndi ég greiða atkvæði gegn innleiðingunni.
Fyrir þessari andstöðu minni voru einkum þrjár ástæður:
Í fyrsta lagi voru uppi vel rökstuddar efasemdir um að það valdaframsal sem fælist í innleiðingunni stæðist íslensku stjórnarskrána. Um þetta voru deildar meiningar meðal fræðimanna en ég kaus að halla mér að þeim sem lengst gengu til varnar stjórnarskránni; þeim sem viðkvæmastir voru fyrir því að hugsanlega væri verið að ganga gegn henni. Þar fór Stefán Már Stefánsson fremstur í flokki.
Í öðru lagi komu fram áhyggjur af því að íslensk stjórnvöld hefðu ekki endanlegt ákvörðunarvald um það hvort sæstrengur til raforkuflutnings yrði lagður milli Íslands og Evrópu. Það kynni að ráðast af markaðsaðstæðum og ef einkaaðilar t.d. kynnu að sjá sér hag í því að leggja slíkan streng þá væri þeim það frjálst.
Í þriðja lagi virtist ekki ljóst hvort Ísland yrði með einhverjum hætti undirselt sameiginlegri raforkupólitík Evrópu, t.d. varðandi verðlagningu til notenda, jafnvel þótt enginn væri strengurinn.
Og nú er ég spurður af hverju ég hafi skipt um skoðun á 3. orkupakkanum og sé ekki lengur andvígur innleiðingu hans. Svarið er: Ég hef ekki skipt um skoðun. Forsendur fyrir innleiðingu orkupakkans á Íslandi hafa breyst; þær eru ekki lengur hinar sömu og ég var andvígur.
Í fyrsta lagi er nú búið þannig um hnútana aðstjórnarskrárvandinn er ekki lengur til staðar – að mati sömu varfærnu fræðimannanna og ég fylgdi að málum þegar þeir sögðu að hann væri fyrir hendi.
Í öðru lagi er nú hafið yfir allan vafa að það verður enginn sæstrengur lagður til raforkuflutnings án þess að Alþingi taki um það sérstaka ákvörðun.
Í þriðja lagi er nú alveg á hreinu að á meðan enginn er sæstrengurinn hefur raforkupólitík í Evrópu, á borð við þá sem snýr t.d. að verðlagningu, ekkert gildi og enga þýðingu á Íslandi. Með öðrum orðum: innleiðing 3. orkupakkans leiðir ekki af sér hærra raforkuverð til notenda á Íslandi.
Og nú spyr ég sjálfan mig: skipti ég um skoðun? Svarið er aftur nei. Öllum efasemdum mínum var mætt. Og ég er spurður: stangast þetta ekki á við ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um þessi mál? Enn er svarið nei. Sú ályktun var svohljóðandi: „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins“. Ekkert af þeim þingmálum sem nú liggja fyrir um 3. orkupakkann felur í sér að gengið sé gegn þessari ályktun. Af samtölum mínum við Sjálfstæðisfólk á fyrrnefndum landsfundi réð ég að flestir höfðu áhyggjur af 3. orkupakkanum af sömu eða svipuðum ástæðum og ég rakti hér að framan. Þær áhyggjur eru óþarfar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. apríl 2019.