EES, orka og allskonar

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Ísland er lítið eyland í miðju Atlantshafi. Í því felast bæði ógnanir og tækifæri. Utanríkisviðskipti eru minni löndum mikilvægari en þeim stóru og þannig byggja lífsgæði okkar að stórum hluta á utanríkisviðskiptum. Alþjóðaviðskipti hafa aukið framleiðslumöguleika á Íslandi og sú aukna framleiðsla og verðmætasköpun eykur kaupmátt þeirra sem landið byggja.

Á síðustu 25 árum hefur verg landsframleiðsla á mann u.þ.b. tvöfaldast. Á síðustu 25 árum hefur kaupmáttur heimilanna nærri því tvöfaldast. Á síðustu 25 árum hefur verðmæti útflutnings á mann þrefaldast á föstu verðlagi. Það er óhætt að fullyrða að hagvöxtur og velsæld hafa aukist til muna á síðustu 25 árum. En af hverju nota ég viðmiðið 25 ár? Jú, það er vegna þess að Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu fyrir 25 árum síðan. Þrátt fyrir að ég trúi því að við hefðum vel lifað af án þess að vera aðili að EES trúi ég því líka að velsæld okkar litla eyríkis sé fyrst og fremst því að þakka að við stundum frjáls og óháð viðskipti við önnur lönd.

Aðild okkar að EES gerir fyrirtækjum okkar kleift að hafa 500 milljóna markað sem heimamarkað. Fulltrúar atvinnulífsins ræða um EES samninginn sem líflínu íslensk atvinnulífs og ég er þeim sammála.

Fjórfrelsið og einsleitni markaðar

EES gengur auðvitað út á meira en viðskipti. Frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns, svokallað fjórfrelsi sem samningurinn grundvallast á. Við getum þannig án mikilla vandkvæða ferðast og flutt búferlum milli landa innan EES og sömuleiðis sækir fólk hingað. Fólksflutningar til og frá landinu jafna sveiflur sem hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þannig fluttu margir burt þegar atvinnuleysi jókst hér en á sama tíma sækir fólk hingað þegar næga vinnu er að fá.

Á 25 ára afmæli EES-samningsins er full ástæða til að ræða um samninginn og mikilvægi hans fyrir Ísland. Samningurinn hefur mikla kosti, án efa líka einhverja galla. Mikilvægt er að vinna með gallana og gæta að hagsmunum Íslands á öllum stigum. Þá er sérstaklega mikilvægt að öflug hagsmunagæsla eigi sér stað á fyrstu stigum lagasetningar með öflugri viðveru sérfræðinga í Brussel og öflugu og góðu samráði við þingið.

Hluti af fjórfrelsinu og aðgangur okkar að EES-markaðnum skapast vegna samræmdra reglna með vöru og þjónustu á markaðnum. Stundum er það þannig að reglur sem skipta miklu máli á meginlandinu hafa minna eða ekkert vægi hér. Það á við um þriðja orkupakkann. Bara hluti af því sem hann hefur fram að færa snertir eyjuna okkar. Orkan okkar er ein af okkar helstu auðlindum og því er nauðsynlegt að vanda vel til verka. Það var gert og fjöldi sérfræðinga fengnir að því að leita lausna til að tryggja allar helstu áhyggjur sem við höfðum. Þannig stendur nú til að innleiða 3. orkupakkann með lagalegum fyrirvara sem ítrekar að Ísland er ekki tengt orkumarkaði Evrópu og að ákvörðun um slíkt getur aldrei orðið nema með samþykki Alþingis. Þannig tryggjum við til hlítar hagsmuni okkar og höldum óhikað áfram inn í framtíðina, því að þar eru tækifærin.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 15. apríl 2019.