Réttur allra sjúkratryggðra

Óli Björn Kárason alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Regl­an er í sjálfu sér ein­föld:

Við erum öll sjúkra­tryggð og eig­um að njóta nauðsyn­legr­ar heil­brigðisþjón­ustu, óháð efna­hag eða bú­setu.

Hug­sjón­in að baki ís­lenska heil­brigðis­kerf­inu bygg­ist á sátt­mála um sam­eig­in­lega fjár­mögn­un nauðsyn­legr­ar þjón­ustu, þar sem öll­um er tryggt jafnt aðgengi. Rétt­ur hinna sjúkra­tryggðu – okk­ar allra – er í for­grunni. Upp­bygg­ing og skipu­lag heil­brigðisþjón­ust­unn­ar verður því að taka mið af rétt­ind­um og þörf­um ein­stak­ling­anna en ekki kerf­is­ins.

Útgjöld rík­is­sjóðs vegna heil­brigðisþjón­ustu á síðasta ári námu um 220 millj­örðum króna sam­kvæmt fjár­lög­um. Í fjár­mála­áætl­un er reiknað með að út­gjöld­in verði yfir 257 millj­arðar árið 2024 á verðlagi þessa árs. Þetta er raun­hækk­un um rúm­lega 37 millj­arða króna eða 17%. Það er sam­hengi á milli þess hvernig tekst að nýta fjár­mun­ina og þeirr­ar heil­brigðisþjón­ustu sem tekst að veita.

Sam­eig­in­leg­ar sjúkra­trygg­ing­ar

Í ein­fald­leika sín­um má halda því fram að út­gjöld rík­is­ins vegna heil­brigðismála séu fjár­mögnuð með iðgjöld­um okk­ar allra – skött­um og gjöld­um. Við höf­um keypt sjúkra­trygg­ing­ar sam­eig­in­lega til að standa und­ir nauðsyn­legri þjón­ustu. Grunn­ur sam­eig­in­legra sjúkra­trygg­inga er jafn­ræði.

Þegar sjúk­ling­ur sem þarf á þjón­ustu að halda verður að bíða mánuðum sam­an til að fá bót meina sinna er í raun verið að svipta hann sjúkra­trygg­ingu. Grunn­ur sam­eig­in­legra sjúkra­trygg­inga moln­ar. Hug­sjón­in um aðgengi allra að góðri og nauðsyn­legri þjón­ustu er merk­ing­ar­laus þegar beðið er á biðlist­um rík­is­ins.

Á sama tíma og rík­is­rekn­ar heil­brigðis­stofn­an­ir geta ekki veitt nauðsyn­lega þjón­ustu, fólk þarf að bíða mánuðum sam­an eft­ir aðgerðum og jafn­vel bíða eft­ir viðtöl­um við sér­fræðinga (biðlist­ar eft­ir að kom­ast á biðlista), vilja ís­lensk heil­brigðis­yf­ir­völd ekki nýta sér úrræði sem einkaaðilar bjóða upp á.

Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands gera ekki samn­ing við Klíník­ina um liðskiptaaðgerðir. Svo djúp­stæð virðist andúðin á einka­rekstri að frem­ur skal senda sjúk­linga til annarra landa í aðgerðir en að semja við ís­lenskt einka­fyr­ir­tæki. Engu skipt­ir þótt kostnaður­inn sem miklu hærri. (Það er tragikó­mískt að yf­ir­völd skuli reiðubú­in að eiga viðskipti við einkaaðila í öðrum lönd­um en ekki hér á landi.) Á sama tíma bíða hundruð ein­stak­linga eft­ir aðgerðum.

Tvö­falt heil­brigðis­kerfi

Einka­rekst­ur í heil­brigðisþjón­ustu hef­ur verið mik­il­væg og nauðsyn­leg for­senda þess að hægt sé standa við fyr­ir­heit um að all­ir sjúkra­tryggðir eigi jafn­an og greiðan aðgang að þjón­ustu óháð efna­hag. Enn hef­ur ekki verið gengið frá samn­ing­um við sér­fræðilækna. Ég ótt­ast að stefnt sé að því að stofn­ana­væða sem mest af heil­brigðisþjón­ustu – færa hana leynt og ljóst und­ir hatt rík­is­rekstr­ar. Af­leiðing­in verður verri þjón­usta við okk­ur sem erum sjúkra­tryggð, lengri biðlist­ar, dýr­ari þjón­usta, skert val­frelsi og aðhalds­leysi í op­in­ber­um rekstri.

Ég hef áður varað við því að hægt og bít­andi geti orðið til tvö­falt heil­brigðis­kerfi. Þeir sem ekki hafa efni á öðru verða að sætta sig við að vera á rík­is­rekn­um biðlist­um. Efna­fólk nýt­ir sér þjón­ustu sjálf­stætt starf­andi sér­fræðilækna og einka­rek­inna heil­brigðis­fyr­ir­tækja. Til verður tvö­falt sjúkra­trygg­inga­kerfi – rík­is­rekið og á veg­um einkaaðila.

Stjórn Lækna­fé­lags Íslands hef­ur varað sér­stak­lega við þess­ari þróun en án samn­inga við sjálf­stætt starf­andi sér­fræðinga sé „hætta á að á Íslandi þró­ist tvö­falt heil­brigðis­kerfi, þekk­ing og þjón­ustu­stig dali og upp komi viðvar­andi lækna­skort­ur á mik­il­væg­um sviðum nú­tíma lækn­is­fræði“.

Jafn­ræði í heil­brigðis­kerf­inu, sem Íslend­ing­ar hafa verið stolt­ir af, mun heyra sög­unni til ef rík­i­s­væðing­in fær að halda áfram. Andúðin á einka­rekstri í heil­brigðisþjón­ustu vinn­ur gegn því að jafn­ræði ríki meðal allra sjúkra­tryggðra og leiðir til ójöfnuðar og mis­rétt­is.

Reynsla sög­unn­ar

Í liðinni viku var til­kynnt að ákveðið hefði verið að ráðstafa 850 millj­ón­um, sem ætlað er til að stytta biðlista, til Land­spít­ala, Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri og Heil­brigðis­stofn­un­ar Vest­ur­lands. Þess­um stofn­un­um er ætlað að fram­kvæma m.a. 570 liðskiptaaðgerðir og 1.300 auga­steinsaðgerðir um­fram þann fjölda sem ann­ars væri. Þá munu sjúkra­hús­in einnig fjölga völd­um aðgerðum á grind­ar­botns­líf­fær­um kvenna og brennsluaðgerðum vegna gáttatifs.

Vert er að gleðjast yfir því að ráðist sé enn og aft­ur í átak við að stytta biðlista. En það er sér­kenni­legt að Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands skuli ekki hafa óskað eft­ir til­boðum í verk­in.

Það er ekki merki um að farið sé vel með fjár­muni með því að leita ekki eft­ir til­boðum í þær aðgerðir sem einkaaðilar geta og hafa gert. Það eru hags­mun­ir al­menn­ings að tryggt sé að verð sé hag­stætt um leið og gæði og ör­yggi þjón­ust­unn­ar er tryggt. Með því að fara vel með sam­eig­in­lega fjár­muni (iðgjöld­in) er hægt að veita fleir­um nauðsyn­lega þjón­ustu.

Heil­brigðis­stefna sem nær ekki að byggja und­ir rekst­ur einkaaðila, styrkja sam­vinnu milli op­in­bers rekstr­ar og einka­rekstr­ar, er á villi­göt­um. Heil­brigðisþjón­usta bygg­ist á þekk­ingu og hæfi­leik­um þeirra sem við hana starfa. Á kom­andi árum og ára­tug­um verður mik­il­væg­ara en áður að ýta und­ir ný­sköp­un í heil­brigðisþjón­ustu, ann­ars veg­ar til að nýta fjár­muni bet­ur og hins veg­ar til að auka og efla þjón­ust­una við alla sjúkra­tryggða. Þeir sem telja að frjór jarðveg­ur verði til inn­an veggja rík­is­rekstr­ar virða reynslu sög­unn­ar lít­ils og skilja ekki rétt okk­ar sjúkra­tryggðu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. apríl 2019.