Gert er ráð fyrir að ábati íslenskra neytenda af rýmri innflutningi á búfjárafurðum sé tæplega einn milljarður á ári. Þetta kemur fram í álitsgerð sem Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Fyrstu umræðu um frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um innflutning búfjárafurða lauk í gærkvöldi, en frumvarpið felur m.a. í sér afnám ólögmætra innflutningshindrana á ófrystu kjöti innan EES. Kristján Þór benti á það í ræðu sinni á Alþingi í gær að afnám frystiskyldunnar leiði til aukins valfrelsis íslenskra neytenda. Kristján Þór sagði þó brýnt að draga fram kosti innlendrar matvælaframleiðslu umfram það sem innflutt er, og stuðla þannig að því að íslenskar vörur verði fyrsti kostur neytenda.
Benti hann á að þegar innflutningstakmörkunum var aflétt með niðurfellingu tolla á tómata, gúrkur og paprikur árið 2002 hafi markaðshlutdeild innlendra framleiðenda dregist saman til skamms tíma, en að áratug liðnum hefði framleiðsla þessara tegunda á Íslandi vaxið um 60 prósent. Á sama tíma hefði vöxtur annarra grænmetistegunda aðeins verið fimm prósent.
Vísaði Kristján til athugunar Daða Más í þessu sambandi, en Daði Már benti á að umtalsverð sértæk eftirspurn sé meðal íslenskra neytenda eftir þeim eiginleika vöru að hún sé framleidd hér á landi. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að samanburður á greiðsluvilja íslenskra neytenda eftir því hvort kjöt sé innlent eða innflutt bendi til þess að neytendur séu reiðubúnir að greiða 275 krónur á kíló aukalega fyrir íslenskt nautahakk, og 585 krónur aukalega á kíló fyrir íslenskar nautalundir. „Það undirstrikar að verðmunur og mismunandi eiginleikar vöru eru meginatriði þegar leggja á mat á áhrif aukins frelsis í viðskiptum með ferskar dýraafurðir,“ segir í greinargerðinni.
Með breytingu á lögum um innflutning búfjárafurða er íslenska ríkið að standa við skuldbindingar sínar en íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um það árið 2007, til að tryggja stöðu Íslands á innri markaði EES, að innflutningur á ófrystu kjöti yrði heimilaður. Þá skuldbindingu staðfesti Alþingi árið 2009, en þrátt fyrir það er leyfisveitingakerfið enn í gildi og lögum ekki verið breytt til samræmis við þá skuldbindingu.
Samhliða rýmri heimildum til innflutnings á hráu kjöti verður gripið til mótvægisaðgerða til að minnka áhættu á dýrasjúkdómum. Að mati yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis eru áhrifin af afnámi frystiskyldu talin hafa lítil sem engin á veiru- og bakteríusjúkdóma í dýrum. Þá er í frumvarpi Kristjáns Þórs að finna heimild fyrir skjótari innleiðingu reglugerða ESB þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara og heimild til álagningar stjórnvaldssekta á matvælafyrirtæki sem flytja inn alifuglakjöt án sönnunar fyrir því að það sé ekki mengað af kampýlóbakter.