Spurningar og svör um þriðja orkupakka

Í tilefni af framlagningu þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann svokallaða hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, uppfært spurningar og svör sem lúta að þriðja orkupakkanum.

Á fundi ríkisstjórnar Íslands þann 22. mars sl. samþykkti ríkisstjórnin  tillögu utanríkisráðherra um að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (orka) við EES-samninginn.

Með þingsályktunartillögunni heimilar Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku svonefnds þriðja orkupakkans í EES-samninginn.

Tillagan inniheldur fyrirvara um að áður en grunnvirki verði reist sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar Evrópusambandsins verði lagagrundvöllur gerðanna endurskoðaður og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.

Hér má nálgast spurningar og svör um þriðja orkupakkann á vef Stjórnarráðsins.