Upp úr skotgröfunum – stækkum kökuna

Jón Gunnarsson alþingismaður:

Mikil harka er hlaupin í baráttu launþega fyrir bættum kjörum. Fyrir okkur sem munum tímana tvenna minnir staðan óþægilega á það ástand sem alloft skapaðist fyrr á árum þegar samfélagið lamaðist í langan tíma vegna verkfalla. Ekkert bensín fékkst afgreitt, mjólk var hellt niður í sveitum, nauðsynjavörur voru ekki til í verslunum og svo má lengi telja. Lífskjör í dag verða þó ekki borin saman við lífskjör þess tíma. Það er eðlilegt að tekist sé á um skiptingu þjóðarkökunnar sem við þegnarnir bökum saman með framlagi hvers og eins til samfélagsins. Það er staðreynd að þjóðarkakan hefur stækkað svo mikið á undanförnum árum, að því má líkja við að allsnægtarborð blasi við öllum sem taka vilja þátt í veislunni, sé borið saman við fyrri tíma. Enda er veislan mikil og til marks um það er hve góð lífskjör þjóðarinnar eru í samanburði við aðra.

Nú kalla sumir eftir réttlátari skiptingu þjóðarkökunnar. Skipting hennar er þó jöfnust hér sé litið til samanburðarlanda okkar. Aðrir kalla eftir því  að menntun sé í auknum mæli metin til hærri launa, enn aðrir kalla eftir styttingu vinnutíma en vilja halda sinni sneið óskertri á sama tíma og svo má lengi áfram telja. Flestum finnst að þeir fái of litla sneið af kökunni og í einhverjum tilfellum liggur það í augum uppi að bæta þarf úr. Sjómenn og útgerðarmenn hafa kannski ratað bestu leiðina með hlutaskiptakerfinu.

Viðbrögð í pólitíkinni eru oft fyrirsjáanleg við þessar aðstæður. Þeir sem með ábyrgðina fara hvetja til að spilað sé í samræmi við varúðarnálgun á meðan aðrir tala um að gera allt fyrir alla, nema þá hópa sem virkastir eru í að baka og stækka kökuna. Hærri skatta skulu þeir greiða.

Undirrituðum finnst allt of lítið fara fyrir því í þessari umræðu hvernig við getum stuðlað að enn betri lífsgæðum fyrir alla með því að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Raunverulega verðmætasköpun í sátt við umhverfið. Viðræður aðila vinnumarkaðarins snúast um að skipta kökunni í stað þess að umræða sé tekin um hvernig við ætlum að stækka hana þannig að allir fái stærri sneið.   Á undanförum árum hafa lífskjör batnað mikið vegna þess að þjóðarkakan hefur verið að stækka og meira er til skiptanna. Særsti áhrifaþátturinn er ótrúlegur vöxtur ferðaþjónustunnar. Aðrar stoðir samfélagsins hafa skilað sínu en vagninn hefur verið dreginn af uppsveiflu í ferðaþjónustu. Nú, þegar fyrirséð er að hægir á vexti hennar og óvissa er um framlag sjávarútvegs á næstu árum, eins og loðnubresturinn er til vitnis um, ætti það að vera áminning um mikilvægi þess að fjölga stoðunum, fjölga þeim sem bökurum sem leggja sitt af mörkum við stækkun þjóðarkökunnar. Ég vildi sjá aðila vinnumarkaðarins koma að þessu verkefni og í raun er nauðsynlegt að þeir geri það vegna þeirra byltingakenndu breytinga sem eiga eftir að verða á vinnumarkaði á næstu árum.

Þær deilur sem við blasa á vinnumarkaði þessa dagana eru úr öllum takti við þróun lífsgæða í okkar samfélagi. Með þeim orðum er ég ekki að gera lítið úr því að nauðsynlegt sé að bæta kjör ákveðinna hópa og auðvitað er það eðlileg krafa að fólk geti framfleytt sér sómasamlega af launum fyrir fullan vinnudag. En það er sama hvaða leið við förum. Tekjulægsta tíundin verður alltaf til, bæði hér á landi og í öllum öðrum löndum.

Tækifærin liggja víða

Það eru mörg tækifæri sem blasa við í samfélaginu. En stefna okkar er óljós og um þær leiðir sem við erum að feta okkur eftir, eru allt of oft deilur sem valda okkur erfiðleikum með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði. Nægir þar að nefna ágreining um hvert stefna eigi í sjávarútvegi, fiskeldi, ferðaþjónustu, landbúnaði og orkutengdum iðnaði. Hvernig ætlum við að efla byggðir landsins til aukinnar verðmætasköpunar og fjölbreytni í atvinnulífi, öðru vísi en að gera þeim kleift að skapa ný tækifæri? Uppbygging gagnavers á Blönduósi er skýrasta dæmið um bæjarfélag sem eflist mjög þessa dagana á nýsköpun sem byggir á einni af grunnstoðum okkar, raforku. Gjörbreyting hefur orðið á stöðu bæjarfélagsins á stuttum tíma og nú er þar mikill sóknarhugur eftir langvinna varnarbaráttu. En af hverju varð Blönduós fyrir valinu við uppbyggingu á þessu gagnaveri en ekki Skagafjörður, Eyjafjörður, Vesturland, Vestfirðir eða Austurland? Jú, þetta var eini staðurinn sem aðilar gátu fengið raforku, raforku sem legið hefur ónýtt í Blöndulóni af því að ekki var hægt að flytja hana burtu.

Engum blöðum er um það að fletta að mikil tækifæri liggja í því að gera gagnversiðnað að næstu grænu stóriðju okkar og um leið að skapa tækifæri fyrir þær byggðir sem harðast hafa orðið úti vegna fækkunar starfa vegna tæknibreytinga. Bættar fjarskiptatengingar Íslands við önnur lönd munu skapa tækifæri sem áður hafa verið óþekkt á þessu sviði. Gagnaflutningar milli landa skapa nú þegar meiri verðmæti en margar hefðbundnar leiðir vöruviðskipta. Eins og aðrir áhrifaþættir framleiðslu, svo sem náttúrulegar auðlindir og mannauður er það staðreynd að stór hluti nútíma efnahagsþróunar, nýsköpunar og vaxtar mun ekki eiga sér stað án gagnaflutninga. Talið er að nú þegar eigi 12% af alþjóðlegum vöruviðskiptum  sér stað með rafrænum hætti og allt að 50% af þjónustuviðskiptum. Vöxtur í þessum geira er í raun með ólíkindum.  Margt er óljóst um hvernig vinnumarkaður muni þróast á tímum svo örrar tækniþróunar.

Hvernig sem málum vindur fram mun öflug menntastefna og aðgangur að ákveðnum grunnþáttum veita ómetanlegt samkeppnisforskot. Við erum svo lánsöm að eiga þar mörg tækifæri umfram aðrar þjóðir. Grunnkerfi menntunar er öflugt og mjög mikilvægt er að við horfum til þess að efla það enn frekar. Nauðsynlegt er að taka upp markvisst samstarf við aðila vinnumarkaðarins á því sviði. Þar er þekking, reynsla og fjármagn til staðar sem nauðsynlegt er að virkjað verði í þágu menntunar. Ekkert kemur framar mannauði þegar horft er til framtíðar. Aðrir þættir sem augljóslega eiga eftir að skapa enn fleiri tækifæri til sóknar í verðmætasköpun um allt land, eru aðgangur að einstakri náttúru, endurnýjanlegum orkugjöfum, hreint og ómengað vatn og staðsetning landsins á norðlægum slóðum svo eitthvað sé nefnt.

Við þurfum að komast upp úr þeim skotgröfum sem einkenna samfélagið í of miklum mæli. Aðilar vinnumarkaðarins eiga að sameinast með stjórnvöldum um leiðir til þess að stækka þjóðarkökuna þannig að allir fái stærri sneið og þar með betri lífskjör. Við erum í einstökum tækifærum ef okkur auðnast að taka höndum saman.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2019.