Vilhjálmur Árnason alþingismaður:
Staðsetning flugvallarins í Reykjavík hefur valdið fjaðrafoki og hörðum deilum um langt árabil. Skiptar skoðanir hafa verið um hvað skuli gera í þeim efnum en sumir standa fast á því að völlurinn eigi að vera óhreyfður í Vatnsmýrinni á meðan aðrir vilja færa hann til Keflavíkur. Og svo eru það enn aðrir sem telja að færa eigi völlinn annað innan höfuðborgarsvæðisins.
Undanfarin misseri hefur hins vegar kveðið við annan tón þegar kemur að umræðunni um Reykjavíkurflugvöll. Sá tónn gefur manni von um að flestir séu nú orðnir sammála um afdrif vallarins, það er að segja að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni þangað til annar jafn góður eða betri kostur verði tilbúinn til notkunar fyrir innanlandsflugið. Þessu til stuðnings er rétt að nefna að í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri Grænna og Pírata í Reykjavík segir orðrétt:
„Rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verður tryggt meðan unnið er að undirbúningi nýs flugvallar í nágrenni borgarinnar. Aðalskipulagi Vatnsmýrar verði breytt og lokun flugvallarins seinkað þegar samningar hafa náðst við ríkið um Borgarlínu sem styður við nauðsynlega uppbyggingu á Ártúnshöfða, í Elliðaárvogi, á Keldum og í Keldnaholti.“
Skynsemi og sátt á Alþingi
Í byrjun febrúar samþykkti Alþingi svo Samgönguáætlun þar sem ályktað var um Reykjavíkurflugvöll en í henni segir orðrétt:
„Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki við mest allt sjúkraflug, sem miðstöð innanlandsflugs og sem varaflugvöllur í millilandaflugi. Fram kom fyrir nefndinni að 15–20 ár tæki að byggja upp nýjan flugvöll á öðrum stað, eins og lagt er til m.a. í skýrslum um málefnið. Meirihlutinn leggur því áherslu á að Reykjavíkurflugvelli verði vel við haldið og hann byggður upp að því marki að hann sinni því hlutverki sem hann skipar á öruggan og viðunandi hátt, þar til sambærileg, fullbúin lausn finnst, flytjist flugvöllurinn úr Vatnsmýri.“
Umræðan um völlinn hélt áfram nú á dögunum þegar mælt var fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi ályktaði að efnt skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að spyrja:
„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?“
Þeir sem tóku þátt í þeirri umræðu, bæði þeir sem eru með og á móti þingsályktunartillögunni, lögðu áherslu á að málið snerist um að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni þangað til að annar jafn góður eða betri kostur yrði tilbúinn til notkunar. Og samkvæmt því yrði unnið. Það er fagnaðarefni að umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur færst úr skotgröfunum yfir í lausnarmiða skynsama umræðu.
Með hliðsjón af framangreindu má segja að meiri sátt ríki um tilvist vallarins nú en áður.
Skorað á samgöngu- og sveitastjórnarráðherra að leita sátta
Hingað til hafa miklar deilir um staðsetningu vallarins hamlað vexti og viðgangi starfseminnar á Reykjavíkurflugvelli um árabil. Í þessu sambandi er rétt að nefna að Landhelgisgæslan hefur þurft að búa við að nota bráðabirgðahúsnæði frá árinu 1980 og því ekki getað byggt viðunandi aðstöðu fyrir flugstarfsemi sína. Þá hefur ekki tekist að byggja upp sómasamlega flugstöð fyrir innanlandsflugið. Að auki má nefna að flugkennsla hefur verið hornreka á vellinum þar sem engar fyrirætlanir hafa legið fyrir um uppbyggingu á svæðinu fyrir þá starfsemi. Síðast en ekki síst má ekki gleyma því mikilvæga hlutverki að Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur í millilandaflugi en komið hefur fyrir að t.d. vélar Icelandair hafa þurft að lenda í Reykjavík vegna óhagstæðra vindátta í Keflavík.
Í ljósa þeirrar almennu sáttar sem nú ríkir um málefni Reykjavíkurflugvallar skora ég á samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, og Reykjavíkurborg að sammælast um yfirlýsingu þess efnis að heimila uppbyggingu á flugtengdri starfsemi á Reykjavíkurflugvelli til næstu 20 ára. Samhliða því að flugbrautunum yrði viðhaldið og bættar á meðan annar jafngóður eða betri kostur verði fundinn og kominn í gagnið. Slík yfirlýsing yrði þýðingarmikil fyrir þá starfsemi sem nú þegar er vellinum.
Það tekur 20 ár að byggja annan flugvöll. Fjárfestingar þurfa oft um 20 ára afskriftartíma sem er sá tími sem tekur að koma öðrum flugvelli í gagnið. Þannig ættu engin rök að mæla gegn því að heimila uppbyggingu fyrir flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli á meðan hugað er að öðrum kostum og hafin er uppbygging á öðrum flugvelli.
Með sátt af þessu tagi gætum við fækkað þeim málum sem stofna til deilna á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Þannig gætum við hafið uppbyggingu mikilvægra og fjölbreyttra þjónustuþátta sem gerir bæði borg og bæi öflugri.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 14. mars 2019.