Eðlilegt að óska eftir endurskoðun á fordæmalausum dómi

Þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins tóku þátt í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Sögðu þau mikilvægt að nálgast næstu skref af yfirvegun og með hagsmuni íslenska dómskerfisins að leiðarljósi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem tók tímabundið við dómsmálaráðuneytinu af Sigríði Á. Andersen í síðustu viku, sagði stjórnvöld ætla að fara yfir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og eftir atvikum grípa til almennra eða sértækra aðgerða. Að mati Þórdísar Kolbrúnar varða mikilvægustu álitaefnin virkni Landsréttar, endurupptöku þegar dæmdra mála og endurskoðun hjá yfirdeild Mannréttindadómstólsins.

„Í öllum þessum álitaefnum eru uppi ýmis sjónarmið. Ég hef þegar sagt að ég telji eðlilegt að óska eftir endurskoðun á fordæmalausum dómi með minnihlutaáliti hjá yfirdeild dómsins til að fá skýra afstöðu til álitaefnisins um lögmæti skipan dómara við Landsrétt. Ég heyri þó vel þau sjónarmið um mögulega neikvæð áhrif þess biðtíma sem endurskoðunin felur óhjákvæmilega í sér. Í mínum huga er ekki um að ræða annað hvort eða. Hér þarf því að eiga sér stað yfirvegað hagsmunamat með heildarhagsmuni íslenskrar stjórnskipunar og réttarkerfisins í huga,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Í ræðunni fór Þórdís yfir aðdragandann að stofnun Landsréttar. Löggjafinn ákvað að við skipan dómara í fyrsta skipti yrði ráðherra skylt að bera tillögur sínar að skipan dómara undir Alþingi sem annað hvort samþykkti tillögurnar eða hafnaði. Þannig yrði byggt undir traust dómstólsins og réttarkerfisins með aðkomu tveggja af þremur greinum ríkisvaldsins. Þriðja og síðasta greinin, dómstólar, kom síðar að skipuninni með því að dæma hana lögmæta þrátt fyrir annmarka.

Þórdís sagði það strax hafa komið í ljós í því ferli sem löggjafinn hafði við skipan dómara við Landsrétt að verkefnið yrði ekki auðvelt úrlausnar þegar hæfnisnefndin skilaði ráðherra niðurstöðu sinni og aðeins fimm konur voru á lista yfir fimmtán hæfustu umsækjendurna.

„Ráðherra leitaði því eftir viðhorfi Alþingis til lista dómnefndarinnar og fékk þau skilaboð frá forystumönnum flokkanna að listinn yrði ekki samþykktur óbreyttur. Þau sjónarmið byggðu aðallega á skertum hlut kvenna á lista dómnefndarinnar,“ sagði Þórdís. „Þáverandi ráðherra skoðaði málið áfram, jók vægi dómarareynslu og lagði tillögur sínar fyrir Alþingi sem samþykktar voru hér í þessum sal. Forseti Íslands, sem framkvæmdi rannsókn á málinu umfram skyldu, staðfesti svo niðurstöðu Alþingis með því að skrifa undir skipunarbréf til þeirra fimmtán einstaklinga sem Alþingi samþykkti.“

Mikilvægast að fyrirbyggja réttaróvissu í landinu

Auk Þórdísar tóku þátt í umræðunum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, og Birgir Ármannsson þingflokksformaður. Þau tóku í sama streng og Þórdís um að láta reyna á endurskoðun á dómi Mannréttindadómstólnum hjá yfirdeild dómsins.

„Málið er ekki einfalt en ekki þess eðlis að við það verði ekki ráðið. Við eigum ekki að búa til örvæntingu eða skapa ringulreið. Málið er að sama skapi stærra en það að hægt sé að setja það í flokkspólitískan búning,“ sagði Áslaug Arna í ræðustól. „Við þurfum að geta borið gæfu til þess að ræða málið af yfirvegun og komast að niðurstöðu um hvernig við viljum og teljum rétt að standa að skipun dómara til framtíðar. Aðeins þannig treystum við undirstöður dómstóla sem frjálst samfélag þarf að treysta.“

Áslaug vísaði til greinar Davíðs Þórs Björginssonar, fyrrverandi dómara Mannréttindadómstólsins, sem hann skrifaði um Landsréttarmálið sumarið 2018, en þar rakti hann að allir dómarar við Landsrétt hefðu fullnægt skilyrðum laga um að hljóta skipun í embætti, m.a. í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar, að mati Hæstaréttar.

Þá sagði Áslaug ljóst að niðurstaða meirihlutans í dómi Mannréttindadómstólsins væri frekar óskýr og draga mætti þá ályktun af umræðu síðustu viku að enn sé talsvert óskýrt hver niðurstaðan sé. „Margir lögfræðingar hafa líka varað við að ekki megi oftúlka niðurstöðuna. Í þessum orðum felst engin gagnrýni á Mannréttindadómstólinn sem stofnun, heldur er eðlilegt að öllum steinum sé velt við í svo veigamiklu máli, máli sem mögulega kann að teygja sig til annarra ríkja Evrópu.“

Áslaug sagði enn fremur að á meðan beðið sé eftir niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstólsins verði áfram leitað lausna og eftir atvikum brugðist við þeim álitaefnum sem blasa við. „Það mikilvægasta er að Landsréttur geti starfað og að ekki sé uppi nein réttaróvissa í landinu. Hér reynir enn og aftur á ábyrgð Alþingis og okkar sem hér sitjum að stíga næstu skref af yfirvegun,“ sagði Áslaug. „Við þingið berum ábyrgð á þessari stjórnarframkvæmd, við verðum að nýta tækifærið til að skoða hvernig best sé staðið að skipun dómara svo það sé hafið yfir alla gagnrýni, orki ekki tvímælis og valdi ekki deilum,“ sagði hún.

Óeðlilegt að láta ekki reyna á endurmat yfirdeildar

Birgir sagði Alþingi þurfa að velta fyrir sér stöðu dómstóla eftir dóm Mannréttindadómstólsins þrátt fyrir að staðan sé að forminu séð skýr að því leyti að niðurstöður Mannréttindadómstólsins hafa ekki bein réttaráhrif. „Staða Landsréttar og dómara við hann er sú sama eftir dóminn og hún var fyrir hann. Það er býsna skýrt og hlýtur að hafa áhrif á hvernig við meðhöndlum málið,“ sagði Birgir en bætti við að þar með væri ekki sagt að niðurstaða Mannréttindadómstólsins hefði ekki áhrif.

Sagði hann það ekki þjóna tilgangi að gera meira úr málinu en efni standa til, t.d. hvað varðar málafjölda sem safnist upp hjá Landsrétti. „En vissulega stendur á okkur að finna lausnir að því leyti hvernig fyrirkomulagi Landsréttar verður háttað, það þarf að skoða að hvaða leyti við þurfum að bregðast við,“ sagði Birgir.

„Það er fyrir hendi réttur til að óska eftir mati yfirdeildarinnar. Ég tel eðlilegt að skoðað verði af fullri alvöru að skjóta málinu þangað. Það er ákvörðun yfirdeildarinnar hvort hún taki mál til meðferðar, við vitum ekki fyrirfram hver úrslit verða í því eða hver efnisleg niðurstaða yrði. En mín fyrstu viðbrögð eru þau að það væri óeðlilegt að láta ekki á það reyna hvort deildin vilji taka málið til endurmats,“ sagði Birgir en bætti við að hann tæki undir sjónarmið um að framkvæma mat á öllum hliðum málsins áður en ákvörðun verður tekin um að skjóta málinu til yfirdeildarinnar.