Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Stjórnmálaumræða þróast í takt við tímann líkt og allt annað. Áður fyrr fór hún að mestu fram á fundum og á síðum blaðanna, í mörgum tilvikum blaða sem voru í eigu stjórnmálaflokka. Þeir sem ýmist sóttu fundi eða lásu blöðin gátu slegið sér upp á því að að vera með puttann á púlsinum um það sem var gerast í samfélaginu – í það minnsta á vettvangi stjórnmálanna.
Allt er þetta breytingum háð eins og annað. Það þarf varla að útskýra í löngu máli hvernig stjórnmálaumræða nútímans fer fram á samfélagsmiðlum og í ógrynni fjölmiðla að viðbættum fundum. Bein og milliliðalaus samskipti kjörinna fulltrúa og kjósenda fara fram með ýmsum hætti. Sú hringferð sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stendur nú fyrir sýnir vel hversu mikilvægt það er fyrir þingmenn og kjósendur að eiga opið samtal. Hin góða mæting sem verið hefur á þá fjölmörgu fundi sem þingflokkurinn hefur staðið fyrir sýnir líka hversu mikinn áhuga fólk hefur á að ræða við kjörna fulltrúa. Við þetta má bæta að fjölmörg félög innan Sjálfstæðisflokksins standa fyrir reglulegum fundum um ýmis málefni.
Stundum er því haldið fram af þeim sem eldri eru að unga fólkið hafi ekki skilning á því sem er að gerast í þjóðfélaginu og kunni ekki að bregðast við því sem á bjátar. Ég læt vera að svara hér því yfirlæti sem felst í því að telja yngra fólk ekkert skilja og ekkert vita þegar kemur að stjórnmálum. Mér finnst betra að láta verkin tala. Þau verk eru ekki einungis unnin í húsakynnum Alþingis, heldur fara þau fram á fundum víða um land, í beinum samtölum við kjósendur og síðast en ekki síst á samfélagsmiðlum.
Nú kann einhver að hrista hausinn yfir því og hugsa um leið hvað þessi stelpa sé að tala um. Staðreyndin er þó sú að meðalmæting á hefðbundinn fund stjórnmálaflokks er á bilinu 20-50 manns, þótt finna megi dæmi um betri mætingu í einhverjum tilvikum. Þessi grein, líkt og aðrar sem ég skrifa hér um hin ýmsu málefni stjórnmálanna, birtist hins vegar í Morgunblaðinu þar sem þúsundir munu lesa hana. Í kjölfarið mun hún birtast á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins, Facebook-síðu minni og öðrum samfélagsmiðlum þar sem enn fleiri lesa um hana. Einhverjir munu skrifa athugasemdir við hana, ýmist jákvæðar eða neikvæðar, og mér gefst kostur á að svara þeim athugasemdum eftir tilvikum.
Stjórnmálaumræðan er fjölbreyttari en hún var áður og vettvangurinn til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri er breiðari. Það þýðir ekki að umræðan sé verri, þvert á móti. Sú opna umræða sem á sér stað bæði á fundum og á samfélagsmiðlum er allt í senn til þess fallin að gefa stjórnmálamönnum tækifæri til að hafa áhrif, koma skilaboðum sínum og stefnumálum á framfæri, taka við skilaboðum og ábendingum frá kjósendum um það sem betur má fara, bregðast við þeim athugasemdum og síðast en ekki síst auka skilning stjórnmálamanna á viðhorfum og daglegu lífi þess fólks sem þeir starfa fyrir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2019.