Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Þegar við horfum til baka yfir síðustu aldir í sögu okkar sjáum við fyrir okkur bændur, sjómenn og skáld.
Þetta er kjarninn í sjálfsmynd Íslendinga fyrri alda í huga okkar flestra.
Í nýrri skýrslu sem forsætisráðherra lét vinna um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna kemur hins vegar fram að meira en fjórða hvert starf á íslenskum vinnumarkaði telst mjög líklegt til að verða sjálfvirknivætt á næstu 10 til 15 árum. Það hefur allt aðra skírskotun til sjálfsmyndar okkar, ekki einungis síðustu alda, heldur einnig dagsins í dag. Það er framandi hugsun og jafnvel erfið og óttablandin.
Margir eflaust óttast að við munum horfa til baka til okkar tíma með öfundaraugum og fortíðarþrá í brjósti, og hugsa með okkur: „Veröld sem var“, líkt og Stefan Zweig gerði þegar hann horfði til baka frá sjónarhóli tveggja heimsstyrjalda aftur til öryggisins sem einkenni aldamótaárið 1900. Þessi spurning verður sífellt áleitnari eftir því sem umræðan vex og þroskast um fjórðu iðnbyltinguna og mögulegar afleiðingar hennar. Það er ábyrgðarhluti að spyrja hversu björt framtíðin er sem hún boðar og finna svörin við þeim áskorunum sem hún ber í skauti sér.
Hvað verður um loforð frjálslyndisstefnunnar?
Yuval Noah Harari kemur inn á þetta viðfangsefni í bók sinni „Tuttugu og ein lexía fyrir tuttugustu og fyrstu öldina“, þar sem hann setur fjórðu iðnbyltinguna í áhugavert og upplýsandi samhengi við hugmyndasögu síðustu áratuga. Harari bendir á að á fyrri hluta tuttugustu aldar kepptu í megindráttum þrjú kenningakerfi um hylli heimsbyggðarinnar: fasisminn, kommúnisminn, og frjálslyndisstefnan eða líberalisminn, með áherslu sína á frelsi einstaklingsins og frjáls viðskipti. Á seinni hluta aldarinnar hafði fasisminn orðið undir og undir lok aldarinnar, eftir hrun Berlínarmúrsins og fall Sovétríkjanna, var kommúnisminn afgreiddur og þá stóð frjálslyndisstefnan ein eftir sem trúverðugt leiðarljós mannkyns.
Það var aðeins talið tímaspursmál hvenær öll lönd tækju upp hennar merki. „Mannkynssögunni er lokið“ var sagt. „Frjálslyndisstefnan mun sigra og hún mun ríkja ein.“
Enda bar hún árangur og góðan ávöxt í formi sífellt betri lífskjara, öllum til handa. Framtíðin var björt og sífellt bjartari. Hver kynslóð myndi hafa það betra en sú næsta á undan. Árleg kaupmáttaraukning var náttúrulögmál. Þetta er nánast loforð líberalismans, eða hinnar klassísku frjálslyndisstefnu, sem byggist á einstaklingsréttindum Johns Lockes og hagfræði Adams Smiths.
En á allra síðustu árum, ekki síst eftir fjármálakrísuna 2008, hafa komið brestir í áður óhagganlega tiltrú manna á þessu leiðarljósi. Sá grunur læðist að ákveðnum hópum að framtíðin sé ekki endilega björt og að frjálslyndisstefnan hafi ekki endilega lengur svör við áskorunum samtímans. Fortíðarþrá er þannig í fyrsta sinn í langan tíma orðin allt að því ráðandi hugmyndafræði sums staðar, í stað bjartsýni á framtíðina. Beinlínis er hvatt til þess að snúið verði við, fremur en að haldið verði áfram á þeirri braut sem hefur fært okkur þá miklu velmegun sem við búum við í dag. Margir virðast ekki taka undir með að við erum betur stödd en á árum áður, þó að rökin fyrir því séu óljós. Þessari fortíðarþrá fylgja efasemdir um gildi frjálsra viðskipta og alþjóðasamskipta. Með öðrum orðum: tilhneiging til að einangra sig, jafnvel á bak við múra.
Fjórða iðnbyltingin mun vekja enn fleiri og áleitnari spurningar um það hvort leiðarljós okkar í dag, hin klassíska frjálslyndisstefna, hafi ennþá svörin og geti tryggt okkur áframhaldandi bætt lífskjör, kynslóð fram af kynslóð. Við þessum spám þarf augljóslega að bregðast og ýmislegt sem stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin og einstaklingarnir sjálfir geta gert.
Aukin nýsköpun í samfélaginu er í þessu samhengi einfaldlega ekki val, heldur nauðsyn.
Nýsköpunarstefna fyrir Ísland sem nú er í smíðum í mínu ráðuneyti er því að mínu mati eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnar. Hún er stór hluti af svarinu við stærstu spurningunum sem við stöndum frammi fyrir og er forsenda áframhaldandi verðmætasköpunar og velsældar.
Til að mæta þessum stóru áskorunum verðum við að verja hið verðmætaskapandi leiðarljós okkar, hina klassísku frjálslyndisstefnu, með áherslu sína á almenn réttindi, einstaklingsfrelsi, viðskiptafrelsi og alþjóðasamvinnu.
Harari bendir réttilega á það í bók sinni að frjálslyndisstefnan hefur verið eins langlíf og þrautseig og raun ber vitni meðal annars vegna þess að hún hefur lagað sig að gagnrýni þeirra hugmyndakerfa sem sótt hafa að henni. Að mínu mati þurfum við einnig í dag að vera reiðubúin til að hlusta á þær raddir sem finnst vanta skýrari svör við nýjum spurningum samtímans. Markmið okkar á alls ekki að vera að úthýsa þeim og útrýma heldur að hlusta á þau, reyna að skilja þau og koma til móts við þau að því marki sem við teljum mögulegt og raunhæft, eins og hin klassíska frjálslyndisstefna hefur áður gert.
Að búa okkur undir framtíðina á þennan hátt er mikilvægasta verkefni okkar í dag.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2019.