Lykillinn að velgengni: Samvinna

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- landbúnaðarráðherra:

Nú hefur frumvarp um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi verið lagt fram á Alþingi. Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu fiskeldis og með því að ýta undir að fiskeldi verði sterk og öflug atvinnugrein þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi. Frumvarpið byggir að verulegu leyti á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skilaði tillögum sínum í ágúst 2017.

Segja má að þær umhverfislegu áskoranir sem blasa við íslensku fiskeldi séu af þrennum toga; lífrænt álag, sníkjudýr (m.a. laxalús) og erfðablöndun við villta laxastofna. Rétt er að fara stuttlega yfir þessi þrjú atriði með tilliti til þeirra breytinga sem frumvarpið kveður á um.

Lífrænt álag innan marka

Frá árinu 2015 hefur Hafrannsóknastofnun unnið að því að mæla burðarþol þeirra hafsvæða þar sem ráðgert er að stunda fiskeldi, þ.e. hversu mikið af lífrænu álagi umrætt hafsvæði getur tekið á móti án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið. Samkvæmt því frumvarpi sem nú hefur verið lagt fram skal Hafrannsóknastofnun vakta lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols og endurskoða matið svo oft sem þörf þykir að mati stofnunarinnar. Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á lífmassi eldisdýra í rekstrarleyfum megi aldrei verða meiri en burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar segir til um.

Rík áhersla á varnir gegn sníkjudýrum

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á varnir gegn sníkjudýrum í fiskeldi, m.a. til að minnka líkur á laxalús. Þannig er gert ráð fyrir að innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skuli meðal annars fela í sér vöktun á viðkomu laxalúsar í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem metur hvort og þá hvaða aðgerða er þörf vegna laxalúsar. Niðurstöður vöktunar skal Matvælastofnun birta opinberlega.

Jafnframt er lagt til að sett verði skýr reglugerðarheimild í lög um varnir gegn fisksjúkdómum fyrir ráðherra til að setja ákvæði um vöktun og aðgerðir vegna laxalúsar. Í slíkri reglugerð er ráðherra heimilt að mæla fyrir um aðgerðir vegna sníkjudýra í fiskeldi, svo sem um skyldu rekstraraðila til að telja laxalús við tilteknar aðstæður, tiltekin viðmiðunarmörk þar sem viðbragða er þörf og aðgerðir vegna útbreiðslu laxalúsar. Framangreint var unnið í samvinnu við sérfræðinga Matvælastofnunar.

Erfðablöndun við villta laxastofna

Sú áskorun sem hefur fengið mesta athygli í opinberri umræðu er möguleg erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna. Stefna stjórnvalda er að ákvarðanir um uppbyggingu fiskeldis verði byggðar á ráðgjöf vísindamanna. Af þeim sökum er í frumvarpinu kveðið á um að áhættumat erfðablöndunar verði lögfest og þannig tryggt að það verði lagt til grundvallar leyfilegu magni af frjóum eldislaxi í sjókvíum á hverjum tíma en matið segir til um hversu mikið magn laxa óhætt er að ala í sjókvíum á ákveðnu svæði þannig að ekki hljótist skaði af fyrir villta laxastofna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun geri bindandi tillögur að áhættumati erfðablöndunar en tillögurnar verði áður bornar undir samráðsnefnd um fiskeldi til faglegrar og fræðilegrar umfjöllunar. Nefndin getur þó ekki gert neinar breytingar á áhættumatinu. Ráðherra staðfestir í kjölfarið áhættumat erfðablöndunar samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar og er sú tillaga bindandi fyrir ráðherra.

Með því að lögfesta áhættumat erfðablöndunar eru stjórnvöld að takast á við þetta vandasama verkefni með vísindalegum aðferðum. Aðeins með þeim hætti mun skapast traustur grunnur til farsællar uppbyggingar laxeldis í fullri sátt við umhverfið.

Aukið gegnsæi og öflugt eftirlit

Í frumvarpinu er jafnframt lögð áhersla á að auka gegnsæi í fiskeldisstarfsemi. Liður í því er að skylda fiskeldisfyrirtæki til að láta upplýsingar um starfsemi sína til eftirlitsaðila verða umfangsmeiri en samkvæmt gildandi lögum. Þá verður Matvælastofnun veitt heimild til að birta upplýsingar úr eftirliti opinberlega.

Þá er í frumvarpinu lagt til að sett verði lagaákvæði um skyldu rekstrarleyfishafa til að starfrækja innra eftirlit. Jafnframt er gerð sú krafa að frávik við eftirlit Matvælastofnunar sé innan ásættanlegra marka. Öflugt innra eftirlit á að tryggja að starfsemin sé í lagi og uppfylli settar kröfur. Með þessu skapast forsendur til að byggja upp áhættumiðað eftirlit með fiskeldi sem þýðir að fiskeldisfyrirtæki sem hafa sinn rekstur í lagi og starfa í samræmi við kröfur laga og reglna fá færri eftirlitsheimsóknir en þau sem ekki uppfylla kröfurnar. Loks má nefna að í frumvarpinu er að finna heimild fyrir Matvælastofnun til að útvista framkvæmd eftirlits með sérstökum samningi.

Samráðsnefnd sett á fót

Undanfarna mánuði hef ég fengið að kynnast uppbyggingu fiskeldis í okkar helstu nágrannalöndum, m.a. Noregi og Færeyjum. Þessar þjóðir eru komnar mun lengra en við Íslendingar í að byggja upp öflugt fiskeldi og því fróðlegt að læra af því sem vel hefur verið gert. Í því samhengi er áhugavert að ein helsta ráðgjöf þessara þjóða til okkar Íslendinga var sú að stuðla að náinni samvinnu þeirra lykilþátta sem koma að uppbyggingu greinarinnar. Þannig er meðfylgjandi mynd þýdd útgáfa af mynd sem birtist í kynningu frá fulltrúum norska sjávarútvegsráðuneytisins um að helsti lykilinn að velgengni í norsku fiskeldi væri samvinna fjögurra lykilþátta, þ.e. stjórnvalda, fiskeldisfyrirtækja, náttúrunnar og vísinda.

Umræðan hér heima er stundum með þeim hætti að maður upplifir eins og það þurfi að velja á milli tveggja sjónarmiða – hvort viltu byggja upp fiskeldi eða vernda náttúruna? Í mínum huga er þetta röng nálgun. Þessi grundvallaratriði bæði geta og eiga að fara vel saman enda er eldi á laxfiskum talin vera umhverfisvæn og sjálfbær matvælaframleiðsla. Því tel ég okkur Íslendinga geta gert mun betur í að láta þessa lykilþætti vinna saman. Með það að markmiði er í frumvarpinu sett á fót samráðsnefnd sem er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Markmið þessa er að styrkja vísindalegan grundvöll áhættumats erfðablöndunar og stuðla að nauðsynlegu samráði við uppbyggingu fiskeldis. Hlutverk samráðsnefndarinnar verður m.a. að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á. Mikilvægt er að allir helstu aðilar hafi sameiginlegan vettvang til skoðanaskipta um þetta mikilvæga tæki sem áhættumatið er en einnig um aðra þætti sem snerta málefni fiskeldis. Í nefndinni munu eiga sæti fimm fulltrúar og skipar ráðherra formann nefndarinnar. Þá tilnefna Hafrannsóknastofnun, fiskeldisstöðvar, Landssamband veiðifélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga fulltrúa í nefndina.

Framtíðarsýn

Með því frumvarpi sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi er ætlunin að skapa íslensku fiskeldi bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og það verði þannig sterk og öflug atvinnugrein. Við ætlum hins vegar að vanda okkur í þessari uppbyggingu og stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis og villta laxsins er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2019.