Sveitarfélögin og kjarasamningar

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Hægt er að halda því fram að það geti skipt launa­fólk meira máli hvaða hug­mynda­fræði sveit­ar­stjórn­ir vinna eft­ir við álagn­ingu skatta og gjalda en hvaða stefnu rík­is­sjóður hef­ur á hverj­um tíma. Útsvars­pró­sent­an skipt­ir lág­launa­fólk a.m.k. meira máli en hvað ríkið ákveður að inn­heimta í tekju­skatt.

Í heild greiðir ís­lenskt launa­fólk meira í út­svar en tekju­skatt. Árið 2017 fengu sveit­ar­fé­lög­in nær 193 millj­arða í sinn hlut af launa­tekj­um í formi út­svars en rík­is­sjóður 139 millj­arða að teknu til­liti til barna- og vaxta­bóta. Lækk­un út­svars er því stærra hags­muna­mál fyr­ir flesta en að lækka tekju­skatts­pró­sentu rík­is­ins.

Launamaður með 300 þúsund krón­ur í mánaðarlaun greiðir helm­ingi meira í út­svar en í tekju­skatt til rík­is­ins ef hann greiðir þá nokkuð, að teknu til­liti til bóta. Þannig hef­ur skatta­stefna sveit­ar­fé­laga meiri áhrif á ráðstöf­un­ar­tekj­ur launa­fólks en stefna rík­is­ins í álagn­ingu tekju­skatts. Lag­fær­ing­ar á tekju­skatt­s­kerfi rík­is­ins bera tak­markaðan ár­ang­ur gagn­vart þeim sem hafa lág laun.

Lægri ráðstöf­un­ar­tekj­ur

Sam­kvæmt lög­um get­ur út­svar orðið hæst 14,52% en lægst 12,44% af tekj­um. Í Reykja­vík er út­svars­pró­sent­an í há­marki líkt og í 57 öðrum sveit­ar­fé­lög­um. Mik­ill meiri­hluti skatt­greiðenda þarf að greiða há­marks­út­svar og verður að sætta sig við lægri ráðstöf­un­ar­tekj­ur en íbú­ar sveit­ar­fé­laga þar sem meiri hóf­semd­ar er gætt. Allt frá ár­inu 2005 hef­ur Reykja­vík lagt há­marks­út­svar á íbú­ana. Fyr­ir þann tíma var út­svarið lægra og oft nokkru lægra en vegið meðaltal. Eina sveit­ar­fé­lagið á höfuðborg­ar­svæðinu sem legg­ur á há­marks­út­svar er Reykja­vík, en lægst er álagn­ing­in á Seltjarn­ar­nesi og í Garðabæ.

Það skipt­ir venju­leg­an launa­mann veru­legu máli hvar hann ákveður að halda heim­ili sitt. Sá sem kem­ur sér fyr­ir í sveit­ar­fé­lagi þar sem lág­marks­út­svar er inn­heimt greiðir sem jafn­gild­ir viku­laun­um lægra en fé­lagi hans sem er bú­sett­ur í Reykja­vík, svo dæmi sé tekið.

Á ár­un­um 2016 og 2017 hækkuðu út­svar­s­tekj­ur sveit­ar­fé­lag­anna að jafnaði um 9,9% að raun­v­irði á ári. Fast­eigna­skatt­ar hækkuðu um 8,8%. Í fjár­mála­áætl­un 2019 til 2023 kem­ur fram að frá því að út­svars­pró­sent­an var hækkuð árið 2011 vegna til­færslu mál­efna fatlaðs fólks til sveit­ar­fé­lag­anna hafi tekj­ur af út­svari hækkað úr 7,4% af vergri lands­fram­leiðslu í 8,1%. Reiknað er með að tekj­urn­ar haldi áfram að aukast á kom­andi árum og verði 8,3% af vergri lands­fram­leiðslu árið 2023. Þá er reiknað með að þær verði um 72 millj­örðum króna hærri en á síðasta ári.

Frá ár­inu 2011 til 2018 juk­ust tekj­ur sveit­ar­fé­laga um 296 millj­arða króna á föstu verðlagi, en þar af var 170 millj­örðum ráðastafað í auk­inn launa­kostnað eða um 57%. Sam­kvæmt grein­ingu Sam­taka at­vinnu­lífs­ins fór 27% af tekju­auk­an­um í ann­an rekstr­ar­kostnað.

Reykja­vík í kjör­stöðu

Ekk­ert sveit­ar­fé­lag er í betri stöðu en Reykja­vík til að leggja sitt af mörk­um þegar kem­ur að kjara­samn­ing­um. Ekki aðeins vegna þess að í höfuðborg­inni er út­svar í hæstu hæðum, held­ur ekki síður vegna eign­ar­halds á Orku­veitu Reykja­vík­ur.

Árið 2017 voru skatt­tekj­ur Reykja­vík­ur á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu um 890 þúsund krón­um hærri á föstu verðlagi en 2013. Heild­ar­tekj­ur A-hluta borg­ar­sjóðs voru 1,3 millj­ón­um króna hærri á hverja fjöl­skyldu.

Á föstu verðlagi voru út­svar­s­tekj­ur í heild liðlega 16 millj­örðum hærri og fast­eigna­skatt­ar 3,5 millj­örðum.

Á mánu­dag kynnti borg­ar­stjórn­ar­flokk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins til­lög­ur um lækk­un út­svars og lækk­un rekstr­ar­gjalda heim­il­anna. Með þessu eigi höfuðborg­in að leggja sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar til að greiða fyr­ir samn­ing­um á vinnu­markaði. Það er því ekki til­vilj­un að sjálf­stæðis­menn tali um „kjarapakk­ann“ þegar þeir kynna til­lög­urn­ar.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vill lækka út­svarið úr 14,52% niður í 14%. Árlega skil­ar lækk­un­in um 84 þúsund krón­um í vasa fjöl­skyldu með tvo sem fyr­ir­vinnu á meðallaun­um. Lagt er til að aðgerðin verði fjár­mögnuð með bætt­um inn­kaup­um sem fel­ast í auknu aðhaldi og útboðum á öll­um sviðum borg­ar­inn­ar. Þrátt fyr­ir þessa lækk­un yrði út­svarið í Reykja­vík nokkru hærra en það er í Garðabæ og á Seltjarn­ar­nesi.

Þá leggja borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins til að ár­leg rekstr­ar­gjöld heim­ila verði lækkuð um 36 þúsund krón­ur með lækk­un á hit­un­ar­kostnaði, raf­orku­verði, sorp­hirðugjaldi og vatns­gjaldi. (Það kem­ur ef­laust ein­hverj­um á óvart að í Reykja­vík er hit­un húsa dýr­ari en á Sel­fossi, Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum. Kostnaður við að kynda hús í Reykja­vík er 30% hærri en á Eg­ils­stöðum. Í Reykja­vík er raf­orku­verð einnig hærra.) Í til­lög­un­um er lagt til að 13 millj­arða áformaðar arðgreiðslur frá fyr­ir­tækj­um borg­ar­inn­ar verði að mestu nýtt­ar til að standa und­ir lækk­un­inni

Í til­lögu borg­ar­full­trú­anna seg­ir orðrétt:

„Að hverfa frá arðgreiðslum og lækka rekstr­ar­gjöld heim­ila í Reykja­vík er póli­tísk ákvörðun. Sú ákvörðun mun létta byrðar heim­il­anna í borg­inni og auka kaup­mátt­inn. Samþykki borg­in fyrsta og ann­an lið kjarapakk­ans mun það jafn­gilda því að fjöl­skylda með tvo sem fyr­ir­vinnu á meðallaun­um m.v. árið 2017 fái u.þ.b. 200 þúsund í viðbót­ar­launa­greiðslur á árs­grund­velli. Aðgerðirn­ar auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur þess­ara heim­ila um 120.000 kr. eft­ir skatta.“

Áfell­is­dóm­ur

Borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins benda á að hús­næðis­verð í Reykja­vík hafi hækkað um 100% á síðustu átta árum. Þeir halda því fram með réttu að höfuðborg­in eigi að vera leiðandi og aðgerðir í hús­næðismál­um geti haft mikla þýðingu í kjara­samn­ing­um og á lífs­kjör al­mennt. Þess vegna eigi borg­in að semja við ríkið um kaup á Keldna­land­inu án skil­yrða um aðrar fjár­veit­ing­ar rík­is­ins. Skipu­lagn­ing Keldna­lands­ins fyr­ir stofn­an­ir, fyr­ir­tæki og heim­ili eigi að hefjast án taf­ar sam­hliða stór­átaki í vega­fram­kvæmd­um og bætt­um al­menn­ings­sam­göng­um. Stilla eigi bygg­ing­ar­rétt­ar­gjöld­um í hóf og leggja af svo­kölluð innviðagjöld. Allt miðar þetta að því að lækka bygg­ing­ar­kostnað.

„Sum geta það, önn­ur ekki,“ svaraði Eyþór Arn­alds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík, þegar blaðamaður mbl.is spurði hvort sveit­ar­fé­lög­in ættu al­mennt að koma með inn­legg í kjaraviðræður. Þetta mat Eyþórs er ör­ugg­lega rétt. Ef niðurstaða meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar verður hins veg­ar sú að Reykja­vík geti lítið sem ekk­ert lagt af mörk­um til að bæta kjör íbú­anna, er það þung­ur áfell­is­dóm­ur yfir stjórn og rekstri höfuðborg­ar­inn­ar síðustu árin.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2019.