Er þá allt í kaldakoli?

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Kaup­mátt­ur launa jókst á síðasta ári um 3,7%. Árið á und­an nam vöxt­ur­inn 5% og 9,5% árið 2016. Kaup­mátt­ur launa hef­ur auk­ist á hverju ein­asta ári frá 2011, alls um 36%. Fjár­hags­staða heim­il­anna hef­ur gjör­breyst á síðustu árum. Skuld­ir eru um 75% af vergri lands­fram­leiðslu og hafa ekki verið lægri frá 2003. Þessi bætta skuld­astaða end­ur­spegl­ast í auknu eig­in fé heim­ila sem hef­ur ekki verið meira í tutt­ugu ár. Hag­stof­an bend­ir á að rekja megi bætta eig­in­fjár­stöðu til aukn­ing­ar ráðstöf­un­ar­tekna.

Jöfnuður inn­an ríkja OECD er hvergi meiri en á Íslandi og við stönd­um nokkuð bet­ur að vígi en aðrar Norður­landaþjóðir. Fá­tækt er hvergi minni og mun minni en í vel­ferðarríkj­um Nor­egs, Finn­lands og Svíþjóðar.

Góður ár­ang­ur

Við get­um haldið áfram að líta á björtu hliðarn­ar:

 • Á Íslandi er launa­hlut­fallið (% launa og launa­tengdra gjalda af þátta­tekj­um) hærra en í öll­um öðrum ríkj­um OECD. Hlut­fallið hef­ur hækkað veru­lega á síðustu árum eða úr 56,6% árið 2011 í 64,8% árið 2017. Þannig er hlut­ur launa að hækka en hlut­ur fyr­ir­tækja að minnka.
 • Á Íslandi eru greidd næst­hæstu meðallaun­in meðal ríkja OECD. Aðeins í Sviss eru laun­in hærri.
 • Lág­marks­laun á Íslandi eru þau þriðju hæstu í lönd­um OECD. Í Nor­egi og Dan­mörku eru lág­marks­laun­in hærri.
 • Síðustu ár hef­ur vöxt­ur kaup­mátt­ar á Norður­lönd­um verið mest­ur á Íslandi.
 • Jafn­rétti kynj­anna er hvergi meira en á Íslandi. Tí­unda árið í röð eru Íslend­ing­ar leiðandi meðal þjóða í jafn­rétt­is­mál­um sam­kvæmt skýrslu Alþjóðaefna­hags­ráðsins (World Economic For­um).
 • Ísland hef­ur síðustu ár notið lengsta tíma­bils verðstöðug­leika. Á síðustu fimm árum hef­ur verðbólga aldrei farið yfir 3% að meðaltali, í þrjú ár var verðbólga und­ir 2% og í fjög­ur ár und­ir verðbólgu­mark­miðum.
 • Vext­ir eru í sögu­legu lág­marki.
 • Ísland er fyr­ir­mynd­ar­hag­kerfi í út­tekt Alþjóðaefna­hags­ráðsins. Aðeins Nor­eg­ur er fyr­ir ofan okk­ur. Á mæli­kv­arða „Inclusi­ve Develop­ment Index“, sem mæl­ir ekki aðeins hag­vöxt held­ur ýmsa fé­lags­lega þætti og hvernig ríkj­um tekst að láta sem flesta njóta efna­hags­legs ávinn­ings og fram­fara og tryggja jöfnuð milli kyn­slóða, er Ísland í öðru sæti fast á eft­ir Nor­egi.
 • Vöxt­ur kaup­mátt­ar á Íslandi er for­dæma­laus. Á fjór­um árum (2014-2017) jókst kaup­mátt­ur ráðstöf­un­ar­tekna á mann um liðlega 25%.
 • Sex ár í röð hef­ur viðskipta­jöfnuður verið já­kvæður.
 • Hrein er­lend staða þjóðarbús­ins er já­kvæð í fyrsta skipti í ára­tugi.
 • Íslend­ing­ar hafa síðustu átta árin notið eins lengsta hag­vaxt­ar­skeiðs Íslands­sög­unn­ar.
 • Íslenska heil­brigðis­kerfið er það annað besta í heim­in­um sam­kvæmt út­tekt sem birt­ist í Lancet, einu virt­asta vís­inda­riti heims á sviði lækn­is­fræði.
 • Ísland er ör­ugg­asta og friðsam­asta land heims sam­kvæmt „Global Peace Index“.

Er allt í kalda­koli? Svarið er ein­falt. Nei, þvert á móti.

Efna­hags­leg­ur ár­ang­ur okk­ar Íslend­inga á síðustu árum er óum­deild­ur og miklu betri en nokk­ur gat látið sig dreyma um þegar fjár­mála­leg­ar hörm­ung­ar riðu yfir landið und­ir lok árs 2008. Ýmis­legt lagðist gegn okk­ur en við bár­um gæfu til að standa gegn því að þjóðnýta skuld­ir einka­banka. Upp­gjör þrota­búa viðskipta­bank­anna og stöðug­leikafram­lög til rík­is­ins skiptu miklu.

Að grípa gæs­ina

Við höf­um fengið að njóta ótrú­legs upp­gangs ferðaþjón­ust­unn­ar á síðustu árum. Sum­ir halda því fram að um eins kon­ar lottóvinn­ing sé að ræða en með því er litið fram hjá eða gert lítið úr ára­langri þrot­lausri markaðssetn­ingu og upp­bygg­ingu ferðaþjón­ust­unn­ar um allt land. Þar hafa ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki lagt allt sitt und­ir í þeirri trú að í framtíðinni yrði hægt að upp­skera eins og til var sáð.

Auðvitað hjálpaði Eyja­fjalla­jök­ull. En ís­lenska landsliðið í knatt­spyrnu lagði einnig sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar al­veg eins og ís­lensk­ir lista­menn, allt frá Björk til Of Mon­sters and Men, frá Mezzof­orte til Kal­eo, að ógleymd­um Jó­hanni heitn­um Jó­hanns­syni tón­skáldi. Íslensk­ir kvik­mynda­gerðar­menn og leik­ar­ar sem gert hafa garðinn fræg­an, hafa vakið at­hygli á þess­ari litlu þjóð. Rit­höf­und­ar hafa reynst góðir sölu­menn Íslands í öðrum lönd­um. Og þannig má lengi telja.

Það voru ein­stak­ling­ar, fjöl­skyld­ur – ís­lensk­ir fram­taks­menn – sem tryggðu að tæki­fær­in voru og eru nýtt. Það er vegna þeirra sem ferðaþjón­ust­an varð drif­kraft­ur hag­vaxt­ar og skapaði for­send­ur fyr­ir ótrú­legri kaup­mátt­ar­aukn­ingu. Fram­taks­fólkið – kon­ur og karl­ar – greip gæs­ina þegar færi gafst og þess vegna hef­ur hlut­ur ferðaþjón­ust­unn­ar í lands­fram­leiðslu tvö­fald­ast, þess vegna hef­ur viðskipta­jöfnuður verið já­kvæður síðustu ár og þess vegna hafa orðið til þúsund­ir nýrra starfa.

„Breiðu bök­in“

Flest fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu eru lít­il eða meðal­stór. Um 86% þeirra eru með tíu eða færri starfs­menn, rúm 11% eru með 11 til 49 starfs­menn. Um 2% fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu eru með 50 starfs­menn eða fleiri í vinnu.

Reiknað er með sam­drætti í ferðaþjón­ustu á þessu ári og það dreg­ur úr vexti út­flutn­ings. Með öðrum orðum; það krepp­ir að. Staða flug­fé­lag­anna er viðkvæm eins og þekkt er. Sam­keppn­is­staða annarra ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækja hef­ur versnað enda kostnaður hækkað hressi­lega.

Það er í ljósi (eða rétt­ara sagt í skugga) þess­ara staðreynda sem nokk­ur verka­lýðsfé­lög telja rétt að hefja verk­fallsaðgerðir gagn­vart ferðaþjón­ust­unni. For­ystumaður eins verka­lýðsfé­lags­ins seg­ir að aðgerðir muni bein­ast að „breiðu bök­un­um í ferðaþjón­ust­unni“. Með þessu er reynt að rétt­læta að verk­falls­vopn­inu sé beitt og gefið í skyn að aðgerðirn­ar komi ekki niður á öðrum en stærstu fyr­ir­tækj­un­um. Ekk­ert er fjær sann­leik­an­um. Verk­föll grafa und­an ferðaþjón­ust­unni, fyrst und­an litlu og meðal­stóru fyr­ir­tækj­un­um og síðan þeim stærri. Fyr­ir­tæki leggja upp laup­ana og störf­um fækk­ar. Eins og stund­um áður verður lands­byggðin harðast úti.

Rétt­ur launa­fólks til að fara í verk­föll og knýja á um kjara­bæt­ur er óum­deild­ur. Vopnið er sterkt og ár­ang­urs­ríkt sé því beitt af skyn­semi. Hörð átök við fyr­ir­tæki sem starfa inn­an at­vinnu­grein­ar sem glím­ir við sam­drátt og verri sam­keppn­is­stöðu, skila hins veg­ar engu í vasa launa­fólks – þvert á móti.

Sá tími virðist að baki að meg­in­mark­mið kjara­samn­inga sé að viðhalda stöðug­leika og tryggja auk­inn kaup­mátt launa. Hug­mynd­ir um að rétti tími til að sækja fram af hörku í kjara­bar­áttu sé í upp­sveiflu efna­hags­lífs­ins, hafa verið lagðar á hill­una. Hörk­unni á að beita þegar slaki mynd­ast á vinnu­markaði. Af­leiðing­in ætti að vera öll­um ljós og þá kann svarið við spurn­ing­unni um kalda­kolið að verða já­kvætt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2019.