Sókn er besta vörnin

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Á samráðsgátt stjórnvalda hefur verið birt frumvarp sem kveður á um afnám hinnar svokölluðu frystiskyldu á m.a. kjöti sem flutt er til Íslands frá Evrópska efnahagssvæðinu. Með frumvarpinu er brugðist við dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að leyfisveitingakerfið og þar með frystiskyldan sé brot á skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Skuldbindinguna má rekja til ákvarðana sem íslensk stjórnvöld tóku á árunum 2005-2009. Jafnframt hefur ótakmörkuð skaðabótaskylda íslenska ríkisins verið staðfest.

Markmið frumvarpsins er skýrt. Íslensk stjórnvöld ætla að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist og tryggja þannig stöðu landsins á innri markaði EES-svæðisins. Samhliða er öryggi matvæla og vernd búfjárstofna treyst enn frekar auk þess sem gripið er til aðgerða til að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.

Skuldbinding frá 2009

Árið 2005 samþykktu íslensk stjórnvöld að hefja viðræður um upptöku matvælalöggjafar Evrópusambandsins í EES-samninginn. Skilyrði Evrópusambandsins fyrir þeim viðræðum var að frystiskyldan yrði felld niður en að hálfu Íslands var eingöngu sett skilyrði um að Ísland myndi ekki gefa eftir bann við innflutning lifandi dýra. Í júní 2006 samþykkti ríkisstjórnin drög að samkomulagi um upptöku matvælalöggjafarinnar í EES-samninginn þar sem m.a. var gert ráð fyrir að frystiskyldan yrði felld niður.  Samkomulagið var síðan endanlega staðfest árið 2007 með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Sú staðfesting lá fyrir í desember 2009 þegar Alþingi samþykkti frumvarp þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fól í sér innleiðingu á matvælalöggjöf ESB í íslensk lög. Með þeirri löggjöf var endanlega staðfest sú skuldbinding Alþingis að afnema bæri frystiskylduna en þrátt fyrir það var lögum ekki breytt til samræmis við þá skuldbindingu. Líkt og lesa má úr dómum Hæstaréttar Íslands og EFTA-dómstólsins er þetta tímapunkturinn sem Ísland missti forræði á því hvort frystiskyldunni yrði viðhaldið eða ekki. Skuldbindingin lá fyrir og málinu lokið.

Umfangsmikil aðgerðaáætlun

Undanfarið ár hefur verið í forgangi í mínu ráðuneyti að bregðast við niðurstöðu dómstóla í málinu. Það er algjörlega skýrt að þetta mál snýst ekki einungis um að framfylgja niðurstöðu dómstóla heldur ekki síður að móta umfangsmikla og nauðsynlega aðgerðaáætlun sem gengur eins langt til að tryggja öflugar varnir fyrir öryggi matvæla og búfjárstofna og unnt er. Jafnframt séu undirbúnar aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Nú liggur sú áætlun fyrir en hluti þeirra aðgerða snýr beint að afnámi frystiskyldunnar en öðrum er með almennum hætti ætlað að stuðla að fyrrgreindum markmiðum.

Lýðheilsa og vernd búfjárstofna

Fyrir liggur að krafan um frystingu kjöts hefur í för með sér tvo meginkosti. Annars vegar getur 30 daga biðtími verið vörn gegn því að sjúkdómur eða sýktar afurðir berist hingað til lands, en ekki er kunnugt um tilfelli hér á landi undanfarna áratugi þar sem þessi frestur hefur haft þýðingu. Við þessu er þó brugðist í frumvarpinu með tilteknum aðgerðum. Hins vegar minnkar frysting magn kampýlóbakter í alifuglakjöti en hefur lítil áhrif á aðrar sjúkdómsvaldandi örverur eða sýklalyfjaónæmar bakteríur. Rétt er að fjalla nánar um þetta atriði enda um að ræða stærstu áskorun sem við okkur hefur blasað í undirbúningi þessa máls.

Ísland býr við þá öfundsverðu stöðu að tíðni kampýlóbaktersýkinga er sú lægsta í Evrópu. Ástæðan er sú að við erum með mjög öflugt eftirlit með innlendri framleiðslu alifuglakjöts. Í mínum huga kemur ekki til greina við þessar breytingar að fórna þessari stöðu með því að gera minni kröfur til innflutts alífuglakjöts. Því er í frumvarpinu gerð sú krafa að innflutt alifuglakjöt fullnægi sömu kröfum og gerð hefur verið til innlendrar framleiðslu undanfarna tvo áratugi. Þannig verður sterk staða Íslands þegar kemur að vörnum gegn kampýlóbakter-sýkingum tryggð. Skilaboðin eru því skýr; íslensk stjórnvöld ætla með þessum nauðsynlegu breytingum að standa vörð um sterka stöðu Íslands þegar kemur að vörnum gegn kampýlóbakter-sýkingum. Þessi ráðstöfun mun hins vegar kalla á samtal við Evrópusambandið en í þeim viðræðum verður enginn afsláttur gefinn af þessari afdráttarlausu stefnu stjórnvalda.

Bætt samkeppnisstaða

Veigamikill hluti þeirrar 12 liða aðgerðaáætlunar sem nú hefur verið kynnt snýr að því að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þannig má nefna að á næstunni skilar starfshópur um gerð innkaupastefnu opinberra aðila á matvælum niðurstöðum sínum. Þá er í gangi átak um betri merkingar matvæla, m.a. um bættar upprunamerkingar auk þess sem unnið er að mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Loks má nefna að fyrirhugað er að setja á fót sérstakan matvælasjóð með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu. Ég er sannfærður um að í þessu felast gríðarleg sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað.

Hvað er í húfi?

Því er stundum fleygt fram í umræðu um þetta mál að íslensk stjórnvöld ættu, í stað þess að bregðast við fyrrgreindum dómum, þvert á móti að herða frekar löggjöf á innfluttum matvælum eða jafnvel stöðva allan slíkan innflutning.

Í því samhengi er rétt að rifja upp að þær reglur, sem deilt var um fyrir Hæstarétti og EFTA-dómstólnum, tryggja að flytja megi út íslenskar landbúnaðar- og sjávarafurðir án kostnaðarsams og tímafreks eftirlits á viðtökustað. Í því felast gríðarlega miklir þjóðhagslegir hagsmunir fyrir íslenskt samfélag að staða Íslands sem hluti af hinum innri markaði EES sé tryggð, m.a. fyrir útflutning á íslenskum búvörum. Þá tryggingu höfum við ekki nema að við bregðumst með fullnægjandi hætti við þeim dómum sem nú liggja fyrir.

Áskorun

Yfirlýsing stjórnar Bændasamtaka Íslands við því frumvarpi sem nú hefur verið birt eru efni í sjálfstæða grein. Þar er m.a. lýst yfir vonbrigðum með að undirritaður „skuli gefast upp í baráttunni“. Framlag forystu bænda til þeirrar umræðu sem fram undan er virðist því ætla að vera að gera þann ráðherra sem hefur það hlutverk að framfylgja dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins að blóraböggli. Saka hann um uppgjöf fyrir að ætla að framfylgja 10 ára gamalli skuldbindingu Alþingis Íslendinga.

Þrátt fyrir þetta frumhlaup skora ég á forystu bænda að beita sér fyrir því að sú umræða sem fram undan er sé byggð á réttum upplýsingum en ekki tilfinningum. Jafnframt að taka þátt í þeirri baráttu sem fram undan er. Taka þátt í því að sameinast um öflugar varnir til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Taka þátt í því að draga fram óumdeilda kosti innlendrar matvælaframleiðslu umfram það sem innflutt er og stuðla þannig að því að íslenskar vörur verði fyrsti kostur allra neytenda. Við snúum þannig vörn í sókn. Ég er sannfærður um að með samstilltu átaki stjórnvalda og bænda mun þetta takast.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. febrúar 2019