Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi og Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna
Umræða um farsímanotkun barna og unglinga virðist vera komin af leið. Það má ekki banna börnum að vera með síma í skólum segja sumir. Á sama tíma tala margir foreldrar um hvernig börn hafa ánetjast tölvum og símum og erfitt sé að ná athygli þeirra eða búa til tímaramma um notkun. Hvers vegna skólinn er undanskilinn þeirri umræðu er ómögulegt að skilja.
Hlutverk og skyldur foreldra er margþætt en í grunninn snýst þetta um að gæta að hag og heilsu barnanna. Við fylgjum viðmiðum um að svefnþörf sé á bilinu 9 til 12 klukkustundir og að þau sæki skóla, sem er að meðaltali 5 til 6 klukkustundir á dag. Að undanskildum þessum tveimur grunnþáttum hafa börn um 6 til 10 klukkustundir á virkum dögum til frístundar, þ.m.t. til að nýta í skjátíma. Ein helsta áskorun foreldra í dag er að gæta þess að skjátími raski ekki svefni, líkamlegri virkni og annari hegðun sem styður við góða heilsu. Á meðan flestir foreldrar horfa til skjátíma innan veggja heimilis mætti líka bæta við skjátíma þeirra á meðan skóla stendur.
Æskilegur skjátími barna á aldrinum 2 til 5 ára er ein klukkustund. Minna er um viðmið fyrir eldri börn þó almennt sé ráðlagt að stilla skjátíma grunnskólabarna af og setja þeim mörk. Rannsókn Háskólans í Michigan í Bandaríkjunum segir að lengd tímans sem varið er í tölvu skipti ekki öllu máli heldur hvað sé gert í tölvunni. Hvernig börn nota skjátíma hefur meira spágildi um vandamál á sviði tilfinningagreindar eða félagsfærni en lengd hans. Því er mikilvægt að huga bæði að því hvað börn gera í símum og tölvum og hve lengi.
Því er gott að velta því fyrir sér hvaða gagn börn hafa af því að hafa síma meðferðis í skólastofurnar. Hvað eru þau að gera sem ekki getur beðið þar til eftir að skóla lýkur ? Það er skólaskylda og það er mikilvægt að barnið læri, hlusti og taki þátt í kennslunni óháð hvaða dóm það leggur á það. Við vitum öll hve truflandi síminn getur verið og það mikilvægasta er að barnið hefur ekki endilega þann þroska til að meta hvenær það er betra að að fylgjast með í tíma en að vera í símanum.
Ný tækni færir okkur áskoranir og það tekur tíma að finna jafnvægið á nýjan leik. Við fögnum því þegar kennarar virkja nemendur til náms með tækninýjungum en þeir eiga líka að fá óskipta athygli nemenda á meðan kennslu stendur. Það er kennara að ákveða hvernig skal nota tækni við kennslu, hvar og hvenær. Það er engin ástæða til þess að börn séu með farsíma í tímum þó það kunni að vera gott að þeir hafi hann í skápnum eða ofan í tösku án þess að það trufli kennslu eða nám barnsins. Það gilda alls konar reglur í samfélaginu og það má líka setja reglur um notkun síma á skólatíma.
Verkefnið um skjátíma barna er ekki bara foreldra heldur er það verkefni samfélagsins í heild. Við erum enn að þróa hvernig samfélagið nýtir og vinnur með nýja tækni. Eins og svo oft þá tekur tíma að finna hvaða form á að vera á því. Börn fá nægan tíma í tölvum, þau hafa aðlagast nýrri tækni og nýta sér hana óspart, bæði heima og í skóla. Þau hafa hins vegar ekki endilega vit á því hvenær það er viðeigandi og ekki. Breytum viðhorfi til takmörkunar á símanotkun í skólum, bæði til að efla nám og félagsvitund barna.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2019.