Sigríður Ásthildur Andersen, dómsmálaráðherra:
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom til Reykjavíkur í gær úr fimm daga hringferð um landið. Heimamenn á 22 stöðum tóku vel á móti hópnum og ræddu við okkur um hugðarefni sín sem snúa að stjórn landsins, ráðstöfun skattfjár og atvinnulífi í heimabyggð.
Af umræðum á Alþingi og umfjöllun um stjórnmálin mætti oft halda að landið væri rjúkandi rúst, byggðir „brothættar“ og „samfélagslegt uppnám“ í aðsigi, ef ekki þegar hafið. Það var þess vegna sérlega ánægjulegt að heyra hversu jákvætt og afslappað hljóðið var í þeim sem við ræddum við, þvert á landshluta. Ferðaþjónusta af ýmsu tagi hefur með margvíslegum hætti eflt flest byggðarlög. Atvinna er næg og spurn eftir starfsfólki víða. Ný jarðgöng reynast ekki bara samgöngubót heldur raunveruleg stækkun byggðarlaga. Alls staðar voru samgöngur til umræðu og greindi ég ekki annað en almennan áhuga á vegaframkvæmdum til framtíðar með einkaframkvæmd og beinni gjaldtöku til að flýta samgöngum. Mikill skilningur er á því að vasar skattgreiðenda eru ekki ótæmandi.
Þótt hringferð okkar sé lokið í bili þá höldum við áfram til móts við heimamenn næstu vikurnar, nú í nágrenni höfuðborgarinnar.
Á morgun sækjum við Reykvíkinga heim og hittum þá vonandi flesta í Iðnó í hádeginu þar sem færi gefst á góðu spjalli um það sem helst brennur á borgarbúum. Samgöngumálin innan borgarmarkanna verða eflaust mörgum ofarlega í huga enda borgaryfirvöld um árabil verið áhugalítil um bættar vegasamgöngur þótt umferð aukist ár frá ári. Samgönguáætlun til næstu fimm ára sem nýlega var samþykkt á Alþingi gerir ráð fyrir tvennum vegaframkvæmdum í Reykjavíkurborg, þ.e. mislægum gatnamótum við Bústaðaveg og tvöföldun á vegarkafla við Bæjarháls og Vesturlandsveg sem hluta af hringveginum. Ekki er gert ráð fyrir Sundabraut í áætluninni. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefðu svo sannarlega viljað sjá meira gert til þess að bæta umferðaröryggi í borginni og draga úr töfum í umferðinni. Borgaryfirvöld bera hins vegar ábyrgð á framkvæmdastoppinu. Mikilvægt er að viðhorfsbreyting verði við stjórn borgarinnar.
Hringferð allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins landshorna á milli færir okkur gott veganesti inn í þingstörfin fram undan. Úti á landi líta menn á sig sem heimamenn á hverjum stað. Það erum við svo sannarlega líka í Reykjavík. Ég vonast til að hitta sem flesta heimamenn í Iðnó á morgun og taka þátt í líflegum umræðum.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2019.