Einkareknir fjölmiðlar fái vopn til að verjast

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Í bar­áttu fyr­ir fram­gangi hug­mynda er nauðsyn­legt að láta sig dreyma en til að ná ár­angri er skyn­sam­legt að átta sig á póli­tísk­um raun­veru­leika. Þetta á til dæm­is við þegar kem­ur að því hvernig best sé að tryggja rekst­ur og fjár­hags­legt sjálf­stæði fjöl­miðla.

Sá stjórn­mála­maður er varla til sem ekki seg­ist hafa áhyggj­ur af stöðu frjálsra fjöl­miðla. Höfð eru uppi stór orð um hve nauðsyn­legt það sé að hlúa að fjöl­miðlum enda séu þeir ein grunnstoð frels­is og lýðræðis. Fæst­ir eru hins veg­ar til­bún­ir að taka til hend­inni og koma bönd­um á al­var­legt mein; rík­is­rekst­ur fjöl­miðla, sem blómstr­ar nú sem aldrei fyrr.

Þetta er svipað og lækn­ir­inn sem kem­ur sér hjá því að skera sjúk­ling­inn upp til að koma hon­um til heilsu en vel­ur frem­ur að gefa hon­um verkjalyf til að halda hon­um á lífi þótt lífs­gæðin séu ekki mik­il eða framtíðin björt.

Ég hef lengi átt mér þann draum að ríkið dragi sig með öllu út úr fjöl­miðlarekstri. Í frjálsu sam­fé­lagi er ákveðin þver­sögn fólg­in í því að ríkið stundi miðlun frétta og upp­lýs­inga og taki að sér það hlut­verk að veita stjórn­völd­um, at­vinnu­líf­inu og helstu stofn­un­um sam­fé­lags­ins nauðsyn­legt aðhald. Slíkt hlut­verk er bet­ur komið í hönd­um frjálsra fjöl­miðla sem eiga að vera far­veg­ur fyr­ir lýðræðis­lega umræðu, upp­spretta upp­lýs­inga og frétta, en síðast en ekki síst vera varðmenn al­mennra borg­ara. Sam­fé­lag sem trygg­ir ekki starf­semi frjálsra fjöl­miðla lend­ir fyrr eða síðar á villi­göt­um, eins og sag­an hef­ur sannað aft­ur og aft­ur.

Loka aug­um og halda fyr­ir eyr­un

Lögvar­in for­rétt­indi Rík­is­út­varps­ins hafa leitt til þess úti­lokað er að tryggja heil­brigða sam­keppni á jafn­ræðis­grunni. Þannig er grafið und­an sjálf­stæðum fjöl­miðlum á hverj­um degi. Af­leiðing­in er veik­b­urða fjöl­miðlun. Frjáls­ir fjöl­miðlar berj­ast í bökk­um en fjár­hags­leg­ur hag­ur Rík­is­út­varps­ins styrk­ist með hverju ári og dag­skrár­valdið verður sí­fellt öfl­ugra (og að lok­um al­gjört, verði leik­ur­inn ekki jafnaður).

Lög­gjaf­inn mót­ar lög­in og þær leik­regl­ur sem eru í gildi á hverj­um tíma. For­rétt­indi Rík­is­út­varps­ins og ójöfn og erfið staða sjálf­stæðra fjöl­miðla, er ákvörðun sem nýt­ur stuðnings meiri hluta þing­manna.

Varn­ar­múr­inn sem um­lyk­ur Rík­is­út­varpið er þétt­ur – svo þétt­ur að rík­is­fyr­ir­tækið hef­ur kom­ist upp með að brjóta lög sem um starf­semi þess gilda. Þegar vak­in er at­hygli á þess­ari staðreynd í söl­um Alþing­is, loka flest­ir aug­un­um, halda fyr­ir eyr­un og þegja.

Líkt og lækn­ir­inn sem vill ekki tak­ast á við mein sjúk­lings­ins forðast þing­menn að tak­ast á við verk­efnið og vilja frem­ur tengja einka­rekna fjöl­miðla við rík­is­rekna súr­efn­is­vél.

Fátt hættu­legra

Í júní á síðasta ári lýsti ég and­stöðu við hug­mynd­ir um að koma á fót ein­hvers kon­ar milli­færslu- og styrkt­ar­sjóði til að styðja við sjálf­stæða fjöl­miðla. Þá skrifaði ég hér á þess­um stað:

„Fátt er hættu­legra fyr­ir frjálsa fjöl­miðlun en að vera háð op­in­ber­um styrkj­um og nefnd­um á veg­um hins op­in­bera sem skammta úr hnefa fjár­muni til að standa und­ir ein­stök­um þátt­um í rekstr­in­um. Fjöl­miðlun sem er háð hinu op­in­bera með bein­um hætti verður aldrei frjáls nema í orði.

Ég hef ekki lagt það í vana minn að nota stór­yrði en nauðsyn brýt­ur regl­una. Það er gal­in hug­mynd að reyna að stuðla að frjálsri og óháðri fjöl­miðlun með um­fangs­mikl­um milli­færsl­um og rík­is­styrkj­um. Verst er að með milli­færsl­um og styrkj­um er í raun verið að rétt­læta rang­lætið á fjöl­miðlamarkaði og kom­ast þannig hjá því að fjar­læga meinið sjálft.“

Í síðustu viku kynnti mennta­málaráðherra til­lög­ur um end­ur­greiðslur á hluta rit­stjórn­ar­kostnaðar einka­rek­inna fjöl­miðla. Frum­varpið hef­ur verið kynnt í sam­ráðsgátt stjórn­valda.

Ég ef­ast ekki um að góður hug­ur ligg­ur að baki frum­varpi ráðherra og ein­læg­ur ásetn­ing­ur að grípa til aðgerða til styrkja sjálf­stæða fjöl­miðla. Frum­varpið nær því miður ekki til­gangi sín­um og geng­ur raun­ar þvert á hug­mynd­ir um að tryggja fjár­hags­legt sjálf­stæði fjöl­miðla. Fjöl­miðill sem bygg­ir til­veru sína á rík­is­styrkj­um, sem eru auk þess und­ir yf­ir­um­sjón rík­is­stofn­un­ar, get­ur aldrei tal­ist fjár­hags­lega sjálf­stæður.

Þá eru lík­ur á því að styrkja­kerfið í ætt við það sem kynnt hef­ur verið, skekki sam­keppn­is­stöðu sjálf­stæðra fjöl­miðla þar sem þeir miðlar sem geta ekki upp­fyllt kröf­ur sem gerðar verða, standa hlut­falls­lega veik­ari að vígi gagn­vart öðrum. Það hljóm­ar þversagna­kennt, en sú hætta er raun­veru­lega fyr­ir hendi að fjöl­miðlaflór­an verði fá­tæk­ari eft­ir að rík­is­styrk­ir verða tekn­ir upp.

Lækk­un skatta og gjalda

Á umliðnum árum hef ég ít­rekað vakið at­hygli á nauðsyn þess að tryggja stöðu frjálsra fjöl­miðla. Það verði ekki gert án þess að skil­greina að nýju hlut­verk og skyld­ur Rík­is­út­varps­ins. Óásætt­an­legt sé að rík­is­rekst­ur­inn ryðji sjálf­stæðum miðlum úr veg­in­um í krafti for­rétt­inda.

Eng­ar lík­ur eru á því að póli­tísk samstaða ná­ist um að draga ríkið út úr fjöl­miðla- og afþrey­ing­ar­rekstri. Draum­ur minn ræt­ist því ekki á kom­andi árum. Þess vegna hef ég sætt mig við að nauðsyn­legt sé að leita annarra leiða til að byggja und­ir sjálf­stæða fjöl­miðla. Styrkt­ar- og milli­færslu­kerfi er versta leiðin.

Skil­virk­asta leiðin til að styrkja rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla er lækk­un skatta. Ég hef varpað fram þeirri hug­mynd að af­nema virðis­auka­skatt af áskrift fjöl­miðla. Hug­mynd­in er langt í frá full­kom­in og helsti gall­inn er að stór hluti einka­rek­inna fjöl­miðla nýt­ur í engu slíkr­ar íviln­un­ar.

Nauðsyn­legt er að skattaí­viln­an­ir séu sam­ræmd­ar og gegn­sæj­ar. All­ir – í þessu til­felli einka­rekn­ir fjöl­miðlar – eiga að sitja við sama borð og fá hlut­falls­lega sömu íviln­un. Þetta er hægt með því að fella trygg­inga­gjaldið niður. Með því næst hlut­falls­lega sama lækk­un á hvern fjöl­miðil miðað við launa­kostnað. Skattaí­viln­un­in er þannig byggð á rekstri ein­stakra fjöl­miðla. Hægt er að setja þak á íviln­un­ina þannig að hún nái aðeins til launa sem skatt­lögð eru í neðra þrepi tekju­skatts, en laun í efra þrepi beri trygg­inga­gjaldið.

Með þessu verður eng­in nefnd eða op­in­ber stofn­un sem met­ur hvort um­sókn fjöl­miðils full­nægi til­tekn­um skil­yrðum held­ur er skatt­kerfið sniðið að rekstr­ar­formi hvers og eins fjöl­miðils án þess að um­sýslu­kostnaður stofn­ist af hálfu rík­is og fjöl­miðils við út­hlut­un fjár­muna.

Niður­fell­ing trygg­inga­gjalds er leið til að rétta sjálf­stæðum fjöl­miðlum vopn þegar þeir reyna að verj­ast áhlaupi fíls­ins í stof­unni – Rík­is­út­varps­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2019.