Þrifösun rafmagns flýtt í Skaftárhreppi og á Mýrum

„Þessi endurnýjun á dreifikerfinu þjónar bæði umhverfinu og atvinnulífi en lengi hefur verið kallað eftir því að hún gengi hraðar fyrir sig. Ég tel því mikilvægt að setja aukinn kraft í hana og einnig að tekið sé tillit til fleiri þátta við forgangsröðun verkefna til að tryggja að fjármunum sé varið með sem skynsamlegustum hætti,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem hyggst leggja til í væntanlegri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2020-2024 að þrífösun rafmagns verði flýtt á Mýrum í Borgarfirði og í Skaftárhreppi.

Er það í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er kveðið á um að þrífösun rafmagns skuli flýtt.

Í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að meira en fjórðungur af öllu dreifikerfi RARIK sé einfasa í dag sem takmarki bæði flutningsgetu kerfisins og eins hversu öflugan rafbúnað sé hægt að nota á hverjum og einum stað. Það hamlar einnig atvinnuuppbyggingu þar sem ekki er þriggja fasa rafmagn.

„Þrífösun er því mikilvæg út frá orkuskiptum, byggðasjónarmiðum, ferðaþjónustu, landbúnaði og öðrum atvinnutækifærum. Auk þess má nefna að nýir strengir eru iðulega lagðir í jörð, í samræmi við stefnu stjórnvalda, sem hefur jákvæð umhverfisáhrif,“ segir í fréttinni.

Þar kemur einnig fram að samkvæmt núgildandi áætlun verði þrífösun ekki lokið fyrr en eftir 16 ár eða árið 2035.

Í tillögu ráðherra er gert ráð fyrir að veita annars vegar 80 milljónum á ári 2020-2022 og hins vegar að forgangsröðun verði breytt. Þannig verði horft frá því að forgangsraða eftir aldri núverandi raflína og álagi á þær og einnig horft til þess hve mikil þörf er fyrir þrífösun og hvort samlegðaráhrif séu með áætlunum um lagningu ljósleiðara.

Í frétt ráðuneytisins segir: „Skaftárhreppur er eina sveitarfélagið á Suðurlandi sem ekki nýtur þriggja fasa rafmagns. Sveitarfélagið er hið næststærsta á landinu að flatarmáli og er skilgreint sem brotthætt byggð. Mikill ferðamannastraumur á svæðinu veldur álagi á innviði. Á Mýrum fer saman brýn þörf fyrir þrífösun vegna landbúnaðar og sú staðreynd að unnið er að útboði á lagningu ljósleiðara á svæðinu sem hefði í för með sér töluverð samlegðaráhrif. Svæðið sem um ræðir er frá Hvítárósum vestur að mörkum Eyja- og Miklaholtshrepps.“