Óli Björn Kárason alþingismaður:
Í óræðri framtíð fær Alþingi það verkefni að taka ákvörðun um hvernig best sé og skynsamlegt að verja 330 milljörðum króna. Fjármunirnir eru til ráðstöfunar á komandi árum og það þarf að finna þeim farveg. Þingmenn eru ekki bundnir af öðru en að ráðstafa fjármununum þannig að allur almenningur njóti.
Kostirnir sem þingmenn standa frammi fyrir eru margir en misjafnir.
Eitthvað segir mér að meirihluti þingmanna verði lítt hrifinn af þeirri hugmynd að skipta fjárhæðinni jafnt á milli allra landsmanna; senda hverjum og einum um 950 þúsund krónur. Þeir hinir sömu yrðu líklega ekki heldur hoppandi kátir með að útdeila fjárhæðinni á hvern Íslending með því að leggja inn á séreignarreikning viðkomandi og styrkja þannig lífeyrisréttindi allra.
Sú skoðun að besta ráðstöfun peninganna sé einfaldlega að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar ríkisins getur fengið hljómgrunn í það minnsta hjá einhverjum þingmönnum og þeir hinir sömu geta tekið undir skynsemi þess að grynnka enn meira á skuldum ríkisins en þegar hefur verið gert. (Frá árinu 2013 hafa skuldir ríkisins verið greiddar niður um 660 milljarða króna.) Svipuð rök liggja að baki því að setja fjármunina til hliðar í þjóðarsjóð til að mæta alvarlegum áföllum í framtíðinni.
Stuðningur við að nota hluta peningana til að byggja upp samgöngukerfið fellur örugglega í frjóan jarðveg. Óhætt er að fullyrða að víðtækur og góður stuðningur yrði við slíka ráðstöfun innan þings og utan. Hið sama á við um fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Og einhverjir gætu dregið fram skynsemi þess að fjárfesta í öflugum gagnastreng milli Íslands og annarra landa, ekki aðeins til að auka öryggi heldur ekki síður til að styrkja atvinnulífið og byggja undir ný tækifæri.
Innviðir eða áhætturekstur
Traustir innviðir eru forsenda hagsældar og bættra lífskjara. Skynsamleg fjárfesting í innviðum samfélagsins, jafnt efnahagslegum sem félagslegum, er sameiginlegt verkefni. Dæmi um efnahagslega innviði eru samgöngumannvirki, orkuvinnsla og -dreifing og fjarskipti. Félagslegir innviðir eru meðal annars skólar, byggingar og tæki fyrir heilbrigðisþjónustu, fangelsi, og íþróttahús.
Tillaga um að nýta 330 milljarðana, sem liggja á lausu, í samfélagslega innviði er líkleg til að ná fram að ganga með yfirgnæfandi stuðningi þingmanna og almennings.
Engum (ég vona að ég hafi rétt fyrir mér) dettur í hug að leggja það til að binda fjármunina í fjármálakerfinu – kaupa til dæmis tvo banka. Fjárfesting sameiginlegra fjármuna í áhætturekstri á fjármálamarkaði væri talin glapræði, ekki síst þegar við blasa umfangsmikil verkefni á sviði samfélagslegra innviða. Jafnvel hörðustu baráttumenn ríkisrekstrar á flestum sviðum, gera sér grein fyrir firrunni sem felst í því að ráðstafa fjármunum landsmanna í banka- og fjármálarekstur í stað innviða.
En þótt enginn sé líklegur til að berjast fyrir því að 330 milljörðunum verði varið fjárfestingu í bankastarfsemi liggur það fyrir að ríkið hefur bundið mikla fjármuni í bönkum. Um 330 milljarðar eru í tveimur bönkum og 120 milljarðar til viðbótar eru í þremur lánasjóðum. Auk þess er ríkið óbeint eða beint í ábyrgðum fyrir 857 milljarða. Áætlað verðmæti eignarhluta ríkisins í tveimur bönkum er um 13% af vergri landsframleiðslu. Umsvif ríkisins á fjármálamarkaði hér á landi eiga sér enga hliðstæðu í vestrænum ríkjum. Aðeins í Rússlandi, Kína, ríkjum í Norður-Afríku og Suður-Ameríku, er fyrirferð hins opinbera jafnmikil á fjármálamarkaði og hér á landi.
Fórnarkostnaður almennings
Ríkið hefur bundið hundruð milljarða í ýmsum eignum sem nýtast lítið eða ekki þegar kemur að grunnskyldum ríkisins – heilbrigðisþjónustu, almannatryggingum, samgöngum, menntakerfi og löggæslu. Lítil og takmörkuð umræða á sér hins vegar stað um hvernig þessar eignir þjóna landsmönnum. Vegna þessa missum við sjónar á mikilvægu markmiði: að nýta ríkiseignir með arðbærum og skynsamlegum hætti. Og þess vegna er litið fram hjá þeim fórnarkostnaði sem almenningur þarf að færa vegna þess að gríðarlegir fjármunir eru bundnir í fjármálafyrirtækjum eða öðrum eignum sem skipta velferð venjulegs Íslendings litlu eða engu. (Látum liggja á milli hluta hversu neikvæð og óheilbrigð áhrif ríkið hefur á samkeppni og framþróun með umfangsmiklu eignarhaldi).
Um eitt er ég sannfærður: Fjárfesting í öflugri heilbrigðisþjónustu skilar meiri arðsemi en að binda áhættufé í bankastarfsemi – lífsgæði almennings verða meiri. Uppbygging menntakerfisins er áhrifaríkari leið til að tryggja jöfnuð og að allir fái tækifæri til að rækta hæfileika sína óháð efnahag, en að sitja með fjármuni fasta í áhætturekstri.
Í nýlegri „Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið“ er bent á fórnarkostnað ríkissjóðs af umfangsmikilli eign í bankakerfinu. Verulegar arðgreiðslur til ríkisins undanfarin ár hafi vegið þar á móti „en nú stefnir í að þær verði mun lægri á komandi árum“. Á sama tíma stendur ríkið frammi fyrir fjárfestingum sem „fela í sér ótvíræðan samfélagslegan ábata“. Verðmæti eignarhluta í bönkunum jafngildir fimm nýjum háskólasjúkrahúsum eða hátt í þrjátíu Hvalfjarðargöngum.
Ég hef orðað þetta þannig að umbreyta eigi fé sem er fast í bönkum, flugstöð, fjölda fasteigna, ýmsum fyrirtækjum í samkeppnisrekstri og jörðum, yfir í aðrar eignir sem við teljum mikilvægari fyrir samfélagið. Andstaðan er hörð, ekki aðeins við að ríkið dragi sig út úr fjármálakerfinu að mestu leyti heldur ekki síður að fjármunir í flugstöð séu leystir úr fjötrum og þeim umbreytt í vegi, brýr, göng, hafnir og innanlandsflugvelli. Í stað þess að stokka upp eignasafn ríkisins og færa í samfélagslega innviði er gælt við að auka álögur á almenning og fyrirtæki.
Fjárfesting í innviðum er forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði hér á landi, sem standast samanburð við það besta sem þekkist í heiminum. Bætt lífskjör í framtíðinni byggja á traustum innviðum samfélagsins. Þegar tekin er ákvörðun um að binda hundruð milljarða í eignum sem styðja ekki við grunnskyldur hins opinbera, er um leið tekin ákvörðun um að færa fórnir – veikja samfélagslega innviði. Þann kostnað bera allir, ekki síst þeir sem lakast standa.
Ef við ættum 330 milljarða handbæra, hvað myndum við gera?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. janúar 2019.