„Allt snýst þetta á endanum um að búa til jarðveg fyrir stóru ákvarðanatökuna sem er þessi stefna. Hvað ætlar íslenska ríkið að gera með eignarhluti sína í ríkisbönkunum til framtíðar? Það er sú stefna sem ég vil berjast fyrir að verði mörkuð og mótuð og hrinda henni í framkvæmd. Ég er mjög vongóður um í þessari ríkisstjórn að við munum taka stórar ákvarðanir í þessu efni á þessu kjörtímabili,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra á fjölmennum fundi í Valhöll í morgun þar sem framtíð íslenska fjármálakerfisins var til umræðu.
Húsfyllir var á fundinum í Valhöll en auk Bjarna fóru þau Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður og formaður starfshóps ríkisstjórnarinnar sem vann að gerð hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hagfræðingur sem einnig sæti átti í starfshópnum yfir vinnu hópsins og helstu niðurstöður hennar.
„Hér erum við að reyna að leggja grunn að umræðu um stöðu fjármálakerfisins. Hvað getum við gert til að efla traust á fjármálafyrirtækjum í landinu? Hvaða sjónarmið eru það sem snúa að neytendavernd? Hvað getum við gert til að draga úr vaxtamun í landinu? Ég er búinn að fá samþykkt í ríkisstjórninni frumvarp um að lækka bankaskattinn. Það á eftir að koma fram í þinginu,“ sagði Bjarni á fundinum.
Hann sagði að við yrðum að beina sjónum okkar að atriðum sem við sjálf bærum ábyrgð á og gætu lækkað vaxtastigið. Það skipti mjög miklu máli.
„Þetta hefur líka þýðingu í þeirri stöðu sem er núna uppi á vinnumarkaði. Við öll höfum mikla hagsmuni af því að kjarasamningar fái farsæla lendingu þannig að vaxtastig í landinu verði þeim mun lægra. Ef við reynum að kreista meira úr túpunni en hægt er mun það kristallast í hærri vöxtum á Íslandi,“ sagði Bjarni.
Hvaða leiðir á að fara?
Í máli frummælenda kom fram að það að ákveða að selja banka taki tíma og yrði í öllu falli langt ferli, hvaða leið sem farin væri. Nokkrar leiðir voru nefndar í því samhengi og má finna þeirra getið í hvítbókinni sem finna má hér.
Um þetta sagði Bjarni meðal annars: „Þegar að því kemur að við tökum ákvörðun um að hefja söluferlið hafa þau hér verið að benda á að þetta mun taka tíma. Ég vil komast fyrst á þann stað að geta staðið fyrir þeirri ákvörðun. Það eru margar leiðir í boði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur bent á að ein leið gæti verið að gera hluthafana, sem eru Íslendingar, að beinum hluthöfum í bönkunum með því að afhenda Íslendingum hlutabréf í bönkunum beint. Taka ákveðinn hluta af eignarhaldinu og afhenda fólkinu í landinu beint. Við getum rætt hversu hátt hlutfall það væri. En þannig myndum við fá alla með í þessa vegferð og fá í upphafi dreift eignarhald beint. Mér finnst það góður kostur. Mér finnst líka góður kostur að vera ekkert að flýta sér.“
Bjarni nefndi þann möguleika að ákveða að selja 5-10% á ári hverju eftir aðstæðum.
„Við ætlum ekki að taka ákvörðun um að selja einhverjum einum. Við ætlum bara að nota markaðinn til að draga úr eignarhluti ríkisins. En það gæti verið að einhver kæmi og segðist vilja kaupa Íslandsbanka og þá myndum við skoða það,“ sagði Bjarni sem möguleika í stöðunni.
Fyrst þarf að taka umræðuna
„Tökum þessa umræðu fyrst. Lögum þessi atriði sem eru til þess fallin að auka virði bankanna og mæta kröfum og væntingum neytenda í landinu um betra bankakerfi sem að þeir bera ríkara traust til og í framhaldi af því getum við tekið einhverja af þessum ákvörðunum,“ sagði Bjarni.
Hann sagðist vilja fá sem flesta hluthafa. Það yrði ekki auðvelt að finna einhverja sem kaupa þrjú til fjögur hundruð milljarða af hlutabréfum á einu bretti.
„Það gerist ekki í einu lagi. Við þurfum ekki að flýta okkur um of en við eigum hins vegar að taka þessa stefnumarkandi ákvörðun um að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum og mér finnst skýrslan sýna það vel að það er engin ástæða til þess að ríkið fari með eignarhluti til lengri tíma,“ sagði Bjarni.
Neikvætt viðhorf til fjármálakerfisins
Eins og fyrr segir var fundurinn afar vel sóttur og hátt á annað hundrað fundarmenn sátu hann.
Í máli Lárusar kom meðal annars fram að viðhorf almennings til fjármálakerfisins væri fremur neikvætt. Í viðhorfskönnun hafi mikið verið rætt um hluti eins og græðgi, spillingu, okurvexti, vantraust og óheiðarleika.
„Traustið er minna vegna þess að mönnum finnst bankakerfið ekki sanngjarnt gagnvart sínum viðskiptaaðilum,“ segir Lárus.
Þegar almenningur var hins vegar spurður að því hvað væri hægt að gera til að auka traust á kerfinu voru svörin mörg. Fólk kallar meðal annars eftir meiri sanngirni, betri þjónustu, lægri vöxtum, gegnsæi og heiðarleika svo fátt eitt sé nefnt.
Lárus lagði áherslu á að utan um fjármálakerfið þyrfti að vera gott regluverk og eftirlit, traust eignarhald og að bankakerfi þjóni heimilum og fyrirtækjum á skilvirkan hátt.
Sagði hann að frá hruni væri búið að draga verulega úr áhættu í bankakerfinu og að það væri mun betur í stakk búið að takast á við áföll í dag með auknum viðnámsþrótti. Meiri kröfur væru gerðar um magn og gæði eigin fjár, reglur um vogunarhlutföll eigi að takmarka óhóflega skuldasetningu banka og reglur um aukið lausafé eigi að tryggja að bankar geti mætt greiðsluskuldbindingum sínum.
Hugmyndir um miðlægan skuldagrunn
Lárus nefndi hugmyndir um miðlægan skuldagrunn sem kæmi fyrir í skýrslunni.
Hann myndi m.a. nýtast stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum til að afla upplýsinga vegna skuldsetningar. Grunnurinn væri ópersónugreinanlegur en þar væri skrá yfir allar skuldbindingar einstaklinga og lögaðila. Markmiðið væri fyrst og fremst að auðvelda greiningu á skuldaþróun og skuldastöðu heimila og fyrirtækja, þróun og áhættu tengdri fasteignamarkaði og betra eftirliti með útlánahættu fjármálafyrirtækja.
Kristrún ræddi meðal annars sértæka skatta á bankakerfið á Íslandi en þeir væru margfalt hærri hér á landi en í nágrannalöndum okkar og hafa áhrif á hversu hár kostnaður er af neytendalánum hér á landi.
Þannig eru samanlagðir sértækir skattar á bankakerfið á Íslandi 0,55% á meðan þeir eru 0,05% í Danmörku, 0,05% í Noregi, 0,08% í Svíþjóð, 0,08% í Hollandi, 0,1% á Írlandi og 0,07% á Bretlandi.
Það voru efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Sjálfstæðisflokksins sem stóðu fyrir fundinum. Fundarstjóri var Sirrý Hallgrímsdóttir formaður fjárlaganefndar Sjálfstæðisflokksins.
Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið má í heild sinni nálgast hér.