Frjór jarðvegur lista og menningar

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Eðli­lega vek­ur út­hlut­un lista­manna­launa nokkra at­hygli á hverju ári. Eng­in und­an­tekn­ing var frá þessu þegar til­kynnt var í síðustu viku hvaða lista­menn fengju laun frá rík­is­sjóði á þessu ári. Mesta at­hygli hef­ur vakið að einn vin­sæl­asti rit­höf­und­ur lands­ins er úti í kuld­an­um. Minna hef­ur farið fyr­ir umræðu um hvort reglu­verk lista­manna­launa sé skyn­sam­legt.

Sam­kvæmt fjár­lög­um renna um 656 millj­ón­ir króna í launa­sjóð lista­manna á þessu ári. Þessi fjár­hæð er lít­ill hluti af þeim fjár­mun­um sem varið er úr sam­eig­in­leg­um sjóðum til lista- og menn­ing­ar­starf­semi. Í heild veit­ir rík­is­sjóður yfir 12.630 millj­ón­ir króna til lista­stofn­ana, safna og annarr­ar menn­ing­ar­starf­semi. Þessu til viðbót­ar renna 4.645 millj­ón­ir til Rík­is­út­varps­ins. Alls um 17.280 millj­ón­ir. Þetta jafn­gild­ir því að hver fjög­urra manna fjöl­skylda greiði nær 200 þúsund á þessu ári til lista og menn­ing­ar­starf­semi, að teknu til­liti til Rík­is­út­varps­ins. Þetta eru gríðarleg­ir fjár­mun­ir og því skipt­ir miklu að þeim sé varið af skyn­semi. Þá er þátt­ur sveit­ar­fé­laga ótal­inn.

For­senda póli­tísks sjálf­stæðis

Sag­an kenn­ir okk­ur að póli­tískt sjálf­stæði þjóðar bygg­ist á sögu, tungu og menn­ingu. Glati þjóð arf­leifð sinni, mun hún fyrr frem­ur en síðar missa sjálf­stæði sitt. Sá er þetta skrif­ar er að minnsta kosti sann­færður um að öfl­ugt lista- og menn­ing­ar­líf sé brjóst­vörn fá­mennr­ar þjóðar – tryggi bet­ur en margt annað full­veldið.

Lífið án list­ar­inn­ar yrði fá­breyti­legt – grá­myglu­legt amst­ur þar sem hver dag­ur væri öðrum lík­ur. List­in og menn­ing­in eru krydd lífs­ins og and­legt fóður hvers og eins. Á hverj­um ein­asta degi njót­um við afrakst­urs lista­manna; hlust­um á tónlist og les­um bæk­ur. Við erum um­vaf­in mynd­list, mál­verk­um og ljós­mynd­um. Njót­um kvik­mynda og sjón­varpsþátta, för­um í leik­hús og heill­umst af fal­legri hönn­un.

Á hverj­um degi sækja fyr­ir­tæki hug­mynd­ir og vinnu í smiðju lista­manna. Vör­ur eru hannaðar og kynnt­ar á markaði með aðstoð tón­list­ar, mynd­list­ar og kvik­mynda­gerðar. Leik­ar­ar og rit­höf­und­ar leggja sitt af mörk­um. Það er aug­ljóst að ferðaþjón­ust­an nýt­ur beint og óbeint þess að hér er öfl­ugt menn­ing­ar- og list­a­líf. Ísland án menn­ing­ar og sögu er lítt spenn­andi fyr­ir ferðamenn – nátt­úr­an hrein og tær dug­ar ekki til. Íslensk­ir lista­menn hafa haslað sér völl í hörðum alþjóðleg­um heimi, eru líkt og gang­andi aug­lýs­ing­ar fyr­ir land og þjóð.

And­leg og efna­hags­leg lífs­gæði

Vart verður um það deilt hve mik­il­vægt það er að jarðveg­ur lista og menn­ing­ar sé frjór. Blómstrandi lista- og menn­ing­ar­líf er ekki aðeins spurn­ing um and­leg lífs­gæði held­ur einnig efna­hags­leg. Hlut­verk rík­is­ins er að skapa skil­yrði fyr­ir fjöl­breytni, ný­sköp­un og frum­kvæði í list­um og menn­ingu ekki síður en á öðrum sviðum. Hvernig það er best gert er ágrein­ing­ur um.

Marg­ir telja nauðsyn­legt að hið op­in­bera verji veru­leg­um fjár­mun­um til lista- og menn­ing­ar­starf­semi. Á hverju ári er ákall um auk­in fram­lög. Svo eru þeir til sem telja rétt að draga úr eða jafn­vel hætta öll­um op­in­ber­um stuðningi.

Deil­an um hvort og þá hversu mikið ríki og sveit­ar­fé­lög eiga að styðja við bakið á list­um og menn­ingu, verður lík­lega aldrei leyst. En þó að menn nái ekki sátt­um í þeim efn­um ættu all­ir að geta tekið hönd­um sam­an um að tryggja að op­in­ber­um fjár­mun­um sé varið af ráðdeild og skyn­semi – að ýtt sé und­ir fjöl­breyti­leika og ný­sköp­un.

Vand­inn er sá að við erum ekki að fara sér­lega vel með þá fjár­muni sem varið er til lista og menn­ing­ar­starf­semi.

Úrelt stuðnings­kerfi

Ég hef lengi verið sann­færður um að op­in­bert stuðnings­kerfi við ís­lenska lista­menn þjóni ekki mark­miðum um fjöl­breytta og öfl­uga list­a­starf­semi. Kerfið vinn­ur á móti nýj­um hug­mynd­um og haml­ar því að nýtt blóð fái að renna um æðar lista­heims­ins. Ung­ir lista­menn standa höll­um fæti gagn­vart þeim sem sitja fyr­ir á fleti. Með því er komið í veg fyr­ir nýliðun og sam­keppni. Af­leiðing­in er fá­tæk­ari lista­flóra.

Brota­lam­ir í stuðnings­kerfi lista­manna eru vissu­lega fyr­ir hendi en eru hjóm eitt í sam­an­b­urði við hversu illa þeir fjár­mun­ir sem renna í gegn­um Rík­is­út­varpið nýt­ast.

Rík­is­út­varpið fær í sinn hlut 4.645 millj­ón­ir króna á þessu ári auk tekna af aug­lýs­ing­um (2.038 millj­ón­ir árið 2017). Árið 2010 fjallaði ég um Rík­is­út­varpið í tíma­rit­inu Þjóðmál­um og lagði fram rót­tæk­ar hug­mynd­ir um upp­stokk­un á skipu­lagi og starf­semi rík­is­fjöl­miðils­ins. Þótt til­lög­urn­ar séu rót­tæk­ar eru þær frem­ur ein­fald­ar. Fyr­ir utan að reka frétta­stofu á Rík­is­út­varpið fyrst og síðast að vera lít­il stofn­un sem kaup­ir efni frá sjálf­stæðum fram­leiðend­um – þætti í út­varp og sjón­varp á öll­um sviðum; kvik­mynd­ir, fram­haldsþætti, skemmtiþætti, umræðuþætti, frétta­skýr­ingaþætti, tónlist, leik­rit, heim­ilda- og fræðsluþætti.

Sé miðað við fram­lög til Rík­is­út­varps­ins á þessu ári í formi út­varps­gjalds gæti fyr­ir­tækið keypt efni af inn­lend­um kvik­mynda-, dag­skrár­gerðar- og lista­mönn­um fyr­ir yfir 3.100 millj­ón­ir króna á ár­inu, ef hug­mynd­un­um væri fylgt eft­ir. Ekki ónýt víta­mínsprauta fyr­ir ís­lenskt menn­ing­ar- og list­a­líf.

Það er ekki fjár­skort­ur sem hrjá­ir lista- og menn­ing­ar­lífið held­ur meðferð fjár­muna og úr­elt stofnana­fyr­ir­komu­lag, sem sést vel í Efsta­leiti. Frjór jarðveg­ur verður ekki til með sí­fellt aukn­um rík­is­styrkj­um, held­ur með upp­stokk­un á úr sér gengn­um stofn­un­um og reglu­verki.

Íslenska lista- og menn­ing­ar­flór­an er ótrú­lega fjöl­breytt en gæti verið fjöl­breytt­ari. Fjöl­mörg fyr­ir­tæki styrkja á hverju ári lista­menn eða ein­stök verk­efni. Stjórn­völd geta ýtt enn frek­ar und­ir samþætt­ingu at­vinnu­lífs og menn­ing­ar­lífs­ins með skatta­leg­um hvöt­um. Traust brú og skiln­ing­ur milli lista­manna og at­vinnu­rek­enda með auknu sam­starfi get­ur skilað ótrú­leg­um ávinn­ingi.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 16. janúar 2019.