Tryggjum fleiri leiðir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Ein stærsta áskorun menntakerfisins er ekki bara að standast kröfur nútímans heldur að búa nemendur á öllum aldri undir framtíðina. Það er verkefni sem er sífellt í þróun og því er stöðnun líklega versti óvinur menntakerfisins – og þá um leið atvinnulífsins, nýsköpunar, rannsókna og þannig mætti áfram telja.

Ein leið, af mörgum, til að stuðla að framþróun er að rýmka það svigrúm sem áður var veitt til að hefja háskólanám. Í síðustu viku kynnti ég breytingar sem ég hyggst leggja fram með frumvarpi nú á vorþingi um inntökuskilyrði í háskóla. Breytingarnar snúa að því að gera inntökuskilyrðin sveigjanlegri og gefa háskólum aukið vald til að líta til annarra þátta en prófgráða, m.a. verði þekkingu og reynslu gefið aukið vægi þegar nemendur eru metnir. Áður hef ég lagt fram frumvarp sem gefur sveinsprófi aukið vægi við inntöku í háskólanám. Hvoru tveggja grundvallast í því að háskólinn geti haft meiri sveigjanleika og lagt heildstætt mat á nemendur, við mismunandi prófgráður, metið reynslu úr starfi og að það skipti ekki höfuðmáli hvaðan þekkingin kemur hafi nemandi næga þekkingu til að hefja háskólanám.

Með frumvarpinu er ekki verið að slá af kröfum til háskólamenntunar, heldur er verið að koma til móts við framtíðina og breyttan veruleika. Kröfur síðustu áratuga mega vel þróast í takt við tímann. Einstaklingar með listmenntun sem hafa starfað lengi á leikskóla eiga ekki kost á að ná sér í leikskólakennaramenntun nema með stúdentsprófi eða sérstökum undanþágum, svo tekið sé dæmi. Það er kominn tími til að meta raunverulega reynslu einstaklinga úr atvinnulífinu og koma meiri sveigjanleika á kerfin okkar svo að þau svari kalli tímans.

Með tækniframförum og breytingum á vinnumarkaði hefur atvinnulífið tekið stakkaskiptum og sú þróun heldur hratt áfram. Menntakerfið má þar ekki vera eftirbátur. Ef menntakerfið ætlar að fylgja þarf nauðsynlega að laga þá skekkju sem er milli eftirspurnar eftir vinnuafli og námsvali. Það er ekki ásættanlegt að vöntun sé á iðnmenntuðu fólki í stærstum hluta iðnfyrirtækja og að brottfall úr bóknámi sé mikið vegna rangrar áherslu okkar og gamaldags viðhorfa.

Viðhorf til iðnmenntunar hefur lengi verið slæmt, flestir líta á stúdentspróf sem nauðsynlega gráðu til að halda öllum möguleikum opnum til framtíðar. Því skulum við breyta. Það á ekki að loka á tækifæri framtíðarinnar þó að þú hafir náð í þekkinguna með öðrum hætti. Leyfum fólki að finna það starf sem hentar hverjum og einum og hættum að setja alla í sama form. Stærsti ávinningurinn af þessum breytingum og meiri sveigjanleika er breytt viðhorf til náms, þá sér í lagi iðnnáms.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. janúar 2019.