Árangursríkt ár á vettvangi ríkisstjórnar

Nú er rúmt ár liðið síðan ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við. Margt hefur áunnist á þessu rúma ári, en ríkisstjórnin hefur m.a. lagt fram tvenn fjárlög og aukið framlög til samfélagslegra verkefna og innviða um rúmlega 90 milljarða króna.

Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir hefur enn verið efldur, nú síðast með tvöföldun hámarksupphæða endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarverkefna fyrirtækja. Sömuleiðis er unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem er lykilatriði fyrir framtíð samfélagsins og fjölbreyttari stoðir efnahagslífsins.

Unnið er að endurskoðun á starfsumhverfi vísinda og rannsókna og von á frumvarpi um heilindi í vísindarannsóknum.

Barnabætur hækka um 16% á næsta ári og þar með fjölgar þeim um rúmlega 2200 sem eiga rétt á barnabótum.

Löggæsla hefur verið styrkt og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir endurnýjun þyrlukosts Landhelgisgæslunnar.

Sérstakt átak í vegamálum er hafið með 4 milljarða innspýtingu árið 2018 til að mæta uppsafnaðri þörf í vegakerfinu.

Á árinu hefur áhersla verið lögð á málefni barna, umhverfi barnaverndar verður endurskoðað og á næsta ári verður í fyrsta sinn haldið Barnaþing með þátttöku barna hvaðanæva af landinu.

Framlög til umhverfismála aldrei verið hærri

Framlög til umhverfismála hafa stóraukist í tíð núverandi stjórnar og hafa aldrei verið hærri. Samkvæmt fjármálaáætlun til fimm ára munu þau aukast um 35% á árunum 2019-2023 frá því sem var 2017.

Hagsmunagæsla í EES-samstarfinu verður stóraukin á næsta ári með fjölgun fulltrúa fagráðuneyta í sendiráinu í Brussel, auknu samráði og eflingu upplýsingagjafar til Alþingis.

Ísland hlaut kjör í sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Atvinnuleysisbætur voru hækkaðar úr 227.417 kr. í 270.000 kr. á mánuði. Auk þess hefur hámarksfjáræð tekjutengdra bóta hækkað úr 358.516 kr. í 425.647 kr. á mánuði.

200 milljónum er veitt árlega frá næsta ári til þess að hugsa að stöðu barna.

Hafin er markviss vinnu við endurskoðun félagslega kerfisins eins og það snýr að börnum og fjölskyldum þeirra, m.a. endurskoðun barnaverndarlaga, innleiðingu snemmtækrar íhlutunar í auknum mæli og að styrkja réttindi barna almennt.

Búsetuskilyrði fatlaðs fólks með miklar stuðningsþarfir hafa verið aukin til muna með NPA.

Skóflustunga var tekin að meðferðarkjarna Landspítalans. Áhersla er lögð á að hraða uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og til samræmis við það er gert ráð fyrir auknum framlögum til þeirra framkvæmda. Framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna sjúkrahússins hófust á árinu og fullnaðarhönnun rannsóknahúss á næsta ári. Þá verður nýtt sjúkrahótel tekið í notkun.

Greiðsluþátttaka örorku- og ellilífeyrisþega lækkuð verulega

Greiðsluþátttaka örorku- og ellilífeyrisþega í tannlækningum var lækkuð verulega með nýrri gjaldskrá sem tók gildi 1. september sl. Í fjármálaáætlun sem samþykkt var í vor er gert ráð fyrir fjármagni til að lækka almennt greiðsluþátttöku á kjörtímabilinu þannig að við verðum á pari við Norðurlöndin í lok þess.

Geðheilbrigðisþjónusta á landsvísu innan heilsugæslunnar verður efld til muna með 650 milljóna króna framlagi á næsta ári til að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga. Á næsta ári ætti að nást það markmið gildandi geðheilbrigðisáætlunar um eitt stöðugildi sálfræðings starfi í heilsugæslunni á móti hverjum 9.000 íbúum.

Heildarútgjöld til löggæslumála aldrei verið meiri

Auknum fjárveitingum hefur verið veitt til meðferðar kynferðisbrota hjá lögreglu og héraðssaksóknara. Dómsmálaráðherra kynnti aðgerðaráætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu í byrjun árs og sömuleiðis áform um eflingu löggæslunnar um land allt. Alls 15 stöðugildum var bætt við hjá lögregluembættunum. Þá hafa framlög einnig verið aukin til löggæslunnar vegna aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi, aðgerða gegn peningaþvætti og til innleiðingar löggæsluáætlunar. Heildarútgjöld til löggæslumala hafa aldrei verið meiri en nú.

Ný löggjöf um þinglýsingar var samþykkt á árinu sem gerir rafrænar þinglýsingar að veruleika, en með því eykst skilvirkni verulega auk sparnaðar fyrir bæði kerfið og einstaklinga.

Ný heildarlög á sviði persónuverndar tóku gildi á árinu. Með lögunum var réttur einstaklinga styrktur, hvað varðar persónuupplýsingar um þá. Skilyrði fyrir samþykki einstaklinga fyrir vinnslu upplýsinga var gerð strangari. Einstaklingar eiga nú rétt til aðgangs að persónuupplýsingum um sjálfa sig og fá þær afhentar á aðgengilegu formi og til að láta flytja þær til annars ábyrgðaraðila.

Nýtt millidómsstig, Landsréttur tók til starfa á tímabilinu. Þessi breyting stórbætir réttaröryggi hér á landi þar sem endurskoðun á öllum atriðum í málatilbúnaði á fyrsta dómstigi varð nú fyrst raunhæfur kostur.

Hámarksfjárhæðir í endurgreiðslukerfi rannsóknar- og þróunarkostnaðar verður tvöfaldaður á næsta ári í samræmi við nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar.

Stórátak í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum

Alls verður yfir 4 milljörðum króna varið til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á ferðamannastöðum á árunum 2018-2020. Féð fer í gegnum annars vegar Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hins vegar Landsáætlun um uppbyggingu innviða vegna álags af völdum ferðamanna.

Sett var á fót heimagistingarvakt hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu síðasta sumar með 64 milljóna króna fjárveitingu ferðamálaráðherra. Skráðum heimagistingum hefur fjölgað um 80% frá því það var gert.

Nýtt hafrannsóknarskip byggt

Aukið fjármagn veitt í hafrannsóknir. Jafnframt var tekin ákvörðun um að hefja smíði á nýju hafrannsóknaskipi með 300 milljóna fjárframlagi á næsta ári.

Ný lög um veiðigjöld voru samþykkt á Alþingi á árinu sem bæta álagningu gjaldsins til muna með því að færa það nær í tíma þannig að gjaldtakan sé meira í takt við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Jafnframt að stjórnsýsla með álagningu veiðigjalds gerð einfaldari, skilvirkari, gegnsærri og áreiðanlegri.

Framlög til háskólastigsins verða 12,6% hærri á næsta ári en þau voru 2017.

Framtíð íslenskrar tungu tryggð

Stjórnvöld ætla að tryggja framgang og framtíð íslenskrar tungu. Samþykkt voru lög um endurgreiðslur á útgáfukostnaði bóka á íslensku. Þá samþykkti Alþingi þingsályktun um vitundarvakningu um mikilvægi, fjölbreytileika og sérstöðu íslensks máls.

Stjórnvöld vinna að eflingu efla iðn-, verk- og starfsnáms með fjármagni og fjölbreyttum verkefnum, í góðu samráði við menntastofnanir og atvinnulífið.

Tryggingagjald áfram lækkað

Tryggingagjald mun lækka niður í 6,60% á árinu 2019 og niður í 6,35% á árinu 2020. Hefur tryggingagjald þá lækkað um 1,45% í heildina frá því sem var árið 2013 þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók að nýju sæti í ríkisstjórn, en þá stóð tryggingagjaldið í 7,69%. Uppsöfnuð lækkun tryggingagjalds yfir sex ára tímabil árin 2014-2019 nemur alls 56 milljörðum króna sé það reiknað á verðlagi hvers árs fyrir sig en alls 58 milljörðum sé það reiknað á föstu verðlagi ársins 2019.

Skuldir ríkissjóðs komnar niður fyrir skuldamarkmið

Skuldalækkun ríkissjóðs heldur áfram. Heildarskuldir ríkissjóðs nema nú um 843 milljörðum kr., eða sem samsvarar rétt rúmlega 30% af landsframleiðslu og er ríkissjóður nú kominn niður fyrir skuldamarkmið.

Undir stjórn fjármála- og efnahagsráðuneytisins er unnið að því að gera öll samskipti ríkisins og almennings stafræn. Markmiðið er að auðvelda aðgengi að þjónustu, bæta samskipti og fara vel með opinbert fé. Á þessu ári hafa álagningarseðlar frá RSK verið birtir stafrænt og verða bifreiðagjöld einnig birt með þeim hætti. Fyrir lok ársins 2020 er stefnt að því að öllum bréfasendingum verði hætt. Með því er gert ráð fyrir að árlega sparist um 500 milljónir króna.

Frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs hefur verið lagt fram á Alþingi. Sjóðnum er ætlað að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum s.s. vegna vistkerfisbrests eða náttúruhamfara.