Atvinnulífið og þróunarsamvinna

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Nú í byrjun desember mælti ég fyrir nýrri þróunarsamvinnustefnu á Alþingi fyrir árin 2019-2023 ásamt aðgerðaáætlun fyrir næstu tvö ár. Þróunarsamvinnustefnan byggir á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem hafa þegar markað straumhvörf í þróunarsamvinnu nágrannaríkja okkar.

Þessi nýja stefna er áþekk fyrri áætlunum en endurspeglar breytingar sem hafa orðið í alþjóðlegri þróunarsamvinnu á síðustu misserum með samþykkt Heimsmarkmiðanna, Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál og samkomulaginu um fjármögnun þróunarsamvinnu í Addis Ababa. Þannig slær hún nýjan tón um aukið samstarf milli atvinnulífs og stjórnvalda.

Í þróunarsamvinnustefnunni birtast þau viðhorf sem hafa verið ríkjandi hjá fátækari ríkjum heims, að sækjast eftir fjárfestingu við uppbyggingu atvinnugreina til að geta drifið sjálfbæran vöxt, skapað störf og aukið velsæld. Í því samhengi má nefna að níu af hverjum tíu störfum í þróunarlöndum verða til í einkageiranum og hvert starf útrýmir fátækt fimm einstaklinga.

Auknar fjárfestingar og stuðningur við atvinnuuppbyggingu í þróunarlöndum er enda sá þáttur sem vex einna hraðast í þróunarsamvinnuverkefnum annarra Norðurlanda. Af þeirri ástæðu hefur utanríkisráðuneytið hafið greiningu á því hvernig Norðurlöndin standa að samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda um þróunarsamvinnu með það fyrir augum að fá tillögur um nýjar leiðir sem Ísland getur farið.

Aukið samstarf við félagasamtök og atvinnulíf

Til að raunverulegur árangur náist við að útrýma fátækt og auka velsæld í þróunarlöndum verður að koma til aukið samstarf atvinnulífs, félagasamtaka og stjórnvalda. Heimsmarkmiðin munu aldrei nást ef einungis eiga að koma til framlög frá opinberum aðilum, heldur þarf að virkja um 2500 milljarða Bandaríkjadala á heimsvísu árlega frá fjármálastofnunum og atvinnulífi til ársins 2030 miðað við útreikninga Sameinuðu þjóðanna.

Norræn fyrirtæki hafa í auknum mæli litið á þróunarlöndin sem áhugaverða vaxtarmarkaði þar sem tækifærum mun fjölga ört á komandi árum. Þau hafa séð sér hag í fjárfesta í innviðauppbyggingu og mannauði í samstarfi við þarlend stjórnvöld með hliðsjón af mannréttinda- og umhverfissjónarmiðum.

Fjárfestingar á vaxandi mörkuðum þróunarríkja geta skilað bæði fjárfestum og samfélögunum töluverðum ávinningi þótt þeim fylgi oft nokkur áhætta. Með samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs má lágmarka áhættuna, bæði með opinberum stuðningi við einstök verkefni og með því að nýta þekkingu á staðarháttum og tengslanet stjórnvalda við alþjóðastofnanir og stjórnvöld á staðnum.

Meginmarkmiðið með framlagi Íslands til þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og stuðla að atvinnusköpun og viðvarandi sjálfbærum hagvexti í þróunarlöndum til að leggja grunn að aukinni velsæld. Aðkoma atvinnulífsins sem býr yfir frumkvæði og margs konar sérþekkingu sem nýst getur við að leysa flókin verkefni er mikilvægur þáttur í þessari uppbyggingu.

Samstarf stjórnvalda og atvinnulífs við aðila í þróunarríkjum miðar að uppbyggingu stöðugs alþjóðlegs viðskiptaumhverfis og sjálfbærra viðskipta í þróunarríkjunum, enda eru aukin viðskipti og ný tækifæri hagsmunamál okkar allra þegar til lengri tíma litið. Samstarfið byggir á forsendum viðtökuríkja, en mannréttindi, jafnrétti kynjanna og sjálfbær þróun verða höfð í heiðri í þessu samstarfi.

Við Íslendingar búum yfir yfirgripsmikilli þekkingu á ýmsum sviðum sem getur gagnast vel við uppbyggingu innviða og atvinnuvega í þróunarlöndum. Því er markmiðið að nýta íslenska virðisaukandi sérþekkingu í verkefnum og innan fjölþjóðastofnana.

Samstarfssjóður við atvinnulífið

Í síðasta mánuði hleypti ég af stokkunum nýjum samstarfssjóði atvinnulífs og íslenskra stjórnvalda um Heimsmarkmiðin. Sjóðurinn er ætlaður samstarfsverkefnum fyrirtækja í þróunarríkjum og lögð er sérstök áhersla á að verkefni styðji við Heimsmarkmið nr. 8 um mannsæmandi atvinnu og sjálfbæran hagvöxt.

Veitt verða framlög til samstarfsverkefna í lágtekju- og lágmillitekjuríkjum sem eiga að stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum vexti. Styrkveitingar úr sjóðnum eru takmarkaðar við atvinnulíf og verkefni þurfa að vera framkvæmd í samvinnu við samstarfsaðila í tilteknu þróunarlandi. Einnig geta fleiri samstarfsaðilar, s.s. háskólar og félagasamtök, komið að verkefninu, en með samvinnu aðila sem koma með fjölbreytta þekkingu inn í verkefni aukum við líkurnar á því að við náum þeim markmiðum sem stefnt er að.

Til úthlutunar að þessu sinni eru allt að 100 m.kr. Hámarksfjárhæð til einstakra verkefna er allt að 200.000 evrur yfir þriggja ára tímabil. Styrkfjárhæð getur numið allt að 50% af heildarkostnaði verkefnis en nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Heimsmarkmiðin eru sameiginleg ábyrgð okkar allra. Atvinnulífið hefur stigið stór skref í innleiðingu markmiðanna á Íslandi og með sjóðnum viljum við stuðla að því að atvinnulífið geti einnig lagt sitt af mörkum í þróunarsamvinnu. Við vonum að ólíkir aðilar sjái tækifæri í því að skilgreina sameiginleg markmið, skapa virðisauka fyrir alla, og vinna saman því að ná þessum metnaðarfullu markmiðum.

Greinin birstist fyrst í Viðskiptablaðinu 13. desember 2018.