Fullveldi og alþjóðastofnanir

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Á hundrað ára afmæli fullveldis er vert að rifja upp atburði og ferli atburða, sem skipt hafa sköpum fyrir líf í landinu. Fullveldi er ekki aðeins það að hafa vald til að ráða örlögum sínum. Fullveldi er miklu heldur það á hvern veg þjóð kýs að starfa og koma fram meðal þjóða. Hugtök eins og fullveldi, sjálfstæði og sjálfræði eru margþvæld.

Um margt fjalla þessi hugtök um það sama. Fyrir þjóð er hér um að ræða að geta ráðið ráðum sínum og öðlast viðurkenningu af verkum sínum og til verka.

Sumum kann að finnast það með stærri sigrum þessarar þjóðar þegar tveir einstaklingar, þeir skáldið Halldór Kiljan Laxness og stórmeistarinn Friðrik Ólafsson, unnu sína glæstu sigra, hvor á sínu sviði á alþjóðavettvangi á sjötta áratug síðustu aldar. Það voru sigrar einstaklinga, en þjóðin vildi eigna sér sigra þeirra.

Öðrum finnst það viðurkenning á sjálfstæði þjóðar, að fulltrúar þjóðarinnar skyldu, fyrir hennar hönd, fá að sitja fundi þar sem ráðið skyldi framtíðarskipan mála að lokinni síðari heimsstyrjöldinni.

Árin milli stríða

Það kann að vera að það sé vanmat þess er þetta ritar að á árunum milli stríða finnst honum fátt standa eftir í alþjóðamálum millistríðsáranna á Íslandi annað en lög um víxla og tékka. Þessar lagasetningar eru afrakstur lagasamræmingar. Nú hefur vægi víxla og tékka minnkað í fjármálaviðskiptum en aðrir greiðslumátar tekið við. Vissulega eru einnig hegningarlög frá 1940 ávöxtur af sameiginlegri vinnu og samræmingu á Norðurlöndum.

Á millistríðsárunum voru til hugsjónamenn, sem vildu sameina Norðurlönd í eitt ríki. Svo virðist sem það hafi átt lítinn hljómgrunn meðal þegna þessara landa. Fjölskyldur þjóðhöfðingja þessara landa voru náskyldar og það fannst þegnunum nóg.

Stríðið

Eftir að þjóðir Evrópu höfðu barist í fjögur ár í tilgangslitlu stríði um stórveldadrauma á árunum 1914 til 1918, þá telur sá er þetta ritar að það hafi verið mikil vonbrigði að aftur skyldi reynt á árunum 1939 til 1945.

Þegar líða tók að lokum seinni heimsstyrjaldarinnar töldu þær þjóðir, sem voru líklegir sigurvegarar, rétt að ráða ráðum sínum á hvern veg starfsemi, sem alla varðar, skyldi vera.

Telja má víst að stofnun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar árið 1944 hafi lýst mikilli framsýni, miðað við stöðu flugmála á þeim tíma. Í árslok 1944 höfðu verið gefin út 26 flugskírteini á Íslandi. Ráðamenn á Íslandi töldu rétt og eðlilegt að þjóð með nýfengið sjálfstæði sæti þar til borðs og gerðist stofnaðili.

Enginn efast um áhrif flugmála á íslenskt efnahagslíf þegar liðin eru 74 ár frá stofnun ICAO, Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Samræmingarstarfsemi hennar leggur þjóðum heims skyldur á herðar og þær skyldur rækja aðildarþjóðirnar.

Á sama veg var það er Íslendingum bauðst að sitja ráðstefnu í Bretton Woods þar sem framtíðarfyrirkomulag gjaldeyrismála í heiminum, og að nokkru leyti heimsviðskipta, var ákveðið. Í stað einangrunarstefnu og gengisfellingarkapphlaups skyldu tekin upp frjáls heimsviðskipti með aga í gjaldeyrismálum. Þær þjóðir, sem fóru að skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, uppskáru ríkulega. Íslendingar báru ekki gæfu til þess að taka upp fríverslun og frjálst flæði fjármagns fyrir en áratugum síðar. Þá hófst hagsældartímabil í landinu.

Aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum og Alþjóðaflugmálastofnuninni átti greiða leið í þingsölum hér á landi.

Vera má að það hafi verið vegna þess að nýfengið sjálfstæði hafi leitt til þess að alþingismenn hafi enn verið í vímu ellegar runnið á þá óráð raunveruleikans.

NATO

Lífið í landinu hélt áfram þegar seinni heimsstyrjöld lauk. Þróun heimsmála varð með öðrum hætti en vonir stóðu til. Svo fór að þjóðum Evrópu stóð hernaðarógn af Sovétríkjunum fljótlega eftir stríð. Neyðin rak til þess að stofna varnarbandalag frjálsra þjóða, Norður Atlantshafsbandalagið, NATO. Í sem stystu máli var það stofnað »til að halda Bandaríkjunum inni, Sovétríkjum úti og Þýskalandi niðri«. Vissulega voru Bandaríkin ekki hluti af Evrópu. Bandaríkin áttu rætur meðal Evrópuþjóða og Sovétríkin urðu ógn við Bandaríkin. Stríðið hafði fært heim sanninn um að ekki var hald í hlutleysi. Þær þjóðir, sem lentu undir hæl Sovétríkjanna, hlutu um síðir frelsi og gengu í NATO.

Aleksander Kwas´niewski, forseti Póllands, taldi það ekki erfiða ákvörðun að strax eftir inngöngu landsins í NATO hefði þurft að taka þátt í stríði á Balkanskaga. Pólverjar þekktu þjóðernishreinsanir af eigin raun og þær yrði að uppræta í álfunni.

Aðild að NATO og Evrópusambandinu er fyrir þessum þjóðum trygging fyrir frelsi og öryggi. Varsjárbandalagið leystist upp!

EFTA

Ekki voru allar þjóðir velkomnar í undanfara Evrópusambandsins. Þau lönd sem stofnuðu Efnahagsbandalag Evrópu voru 6. Nú eru lönd Evrópusambandsins orðin 28. Utan þess standa nokkur lýðvelda fyrrum Júgóslavíu og EFTA-löndin 4, en það eru Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss. Sviss og Noregur voru meðal stofnríkja EFTA auk 6 annarra ríkja, sem gengu í Evrópusambandið á árunum 1973 til 1995. Með aðild Íslands að EFTA, árið 1970, hélt nútíminn inn í íslenskt viðskiptalíf með því að fríverslun varð almenn en þó ekki alger. Nútímavæðingin átti eitt skef eftir.

Evrópskt efnahagssvæði, EES

Aðild að Evrópsku efnahagssvæði tryggir Íslandi aðild að innri markaði Evrópusambandsins. Til þess að svo megi verða eru gerðar kröfur um samræmingu regluverks ríkja Evrópusambandsins og þeirra ríkja sem eiga aðild að innri markaði. Þetta er gert með samningi um Evrópskt efnahagssvæði.

Til þess að úrskurða í deilumálum milli ríkja hafa verið settir á stofn sameignlegir dómstólar.

Ísland gerðist aðili að Evrópsku efnahagssvæði, EES, árið 1993. Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn senda ábendingar og úrskurða í ágreiningsefnum.

Á þeim 26 árum sem liðin eru frá því Ísland gerðist aðili að Evrópsku efnahagssvæði hefur kaupmáttur launa aukist um 2,37% á ári. Það er einstakt hagsældartímabil.

Öryggi og lífskjör

Ekki er víst að aðild að NATO, EFTA og EES hefði átt greiða leið í þjóðaratkvæðagreiðslum. Umræður í sölum Alþingis voru langar og erfiðar og oft með litlu viti þegar aðildarsáttmálar voru ræddir þar.

Það kann að vera að einhverjum þyki að sá er þetta ritar sleppi nokkru. Allt orkar tvímælis, sem er sagt og gert. Einhverjum kann að þykja samstarf Norðurlandaþjóða mikilsverðara en það sem hér er talið. Samstarf við þær þjóðir er í nokkrum tilfellum undirstaða árangurs í fyrrgreindum alþjóðasamtökum.

Öryggi og lífskjör eru mælanleg hugtök. Mikið öryggi og góð lífskjör eru forsenda fyrir menningarlífi og velmegun. Forsenda öryggis og lífkjara er að deila fullveldi með öðrum þjóðum líkt og við Íslendingar höfum gert með þátttöku í ofangreindum alþjóðasamtökum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2018.