Þjóðarsjóður fyrir framtíðina

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Á þessu ári, þegar þjóðin fagn­ar því að hundrað ár eru liðin frá því hún öðlaðist full­veldi, hef­ur mikið verið fjallað um aðstæður sam­fé­lags­ins á full­veld­is­ár­inu 1918. Þá riðu yfir þrenns kon­ar áföll eða harðindi; spænska veik­in, eitt stærsta Kötlugos síðan land byggðist og frosta­vet­ur­inn mikli. Velta má fyr­ir sér hver áhrif sam­bæri­legra áfalla yrðu á mun tækni­vædd­ara og flókn­ara sam­fé­lag nú­tím­ans. Mik­ill kostnaður gæti hlot­ist af slík­um ófyr­ir­séðum stór­áföll­um, en eng­inn sér­stak­ur fjár­hags­leg­ur viðbúnaður er nú fyr­ir hendi til að mæta þeim, fyr­ir utan Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands.

Skýr ásetn­ing­ur um að koma þjóðarsjóði á fót kem­ur fram í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem und­ir­ritaður var fyr­ir ári, en frum­varp þess efn­is hef­ur nú verið lagt fram á Alþingi.

For­saga frum­varps­ins

Málið á sér nokk­urn aðdrag­anda en í fe­brú­ar 2017 skipaði ég sér­fræðinga­hóp sem sam­kvæmt er­ind­is­bréfi var falið að semja drög að frum­varpi til laga um það sem var nefnt stöðug­leika­sjóður. Hóp­ur­inn skilaði drög­um að frum­varpi sum­arið 2018 sem áfram var unnið með í fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­inu. Frum­varpið, sem ég hef nú lagt fyr­ir Alþingi, er afrakst­ur þeirr­ar vinnu.

Að baki þjóðarsjóði býr sú hugs­un að nýta beri góð ár og hag­stæð skil­yrði í þjóðarbú­skapn­um til að sýna fyr­ir­hyggju og ábyrgð í rík­is­fjár­mál­um og búa þannig í hag­inn fyr­ir framtíðina.

Marg­ur kann að spyrja hvort ekki væri nær, í stað sjóðssöfn­un­ar, að beina fyrst sjón­um að skuld­um rík­is­sjóðs og líf­eyr­is­skuld­bind­ing­um. Þar ber að líta til þess að á næsta ári fer rík­is­sjóður und­ir skuldaviðmið laga um op­in­ber fjár­mál. Vaxta­byrði af lán­um er nú að verða sam­bæri­leg og var fyr­ir fall bank­anna. Að öðru óbreyttu verða mögu­leik­ar rík­is­sjóðs til frek­ari niður­greiðslu skulda tak­markaðir, þar sem þær nálg­ast þá lág­marks­skuld­setn­ingu sem þarf til að viðhalda virk­um skulda­bréfa­markaði.

Með ráðstöf­un­um í líf­eyr­is­mál­um eru horf­ur á því að áður en langt um líður verði Ísland, eitt ör­fárra ríkja í heim­in­um, með traust­ar áætlan­ir um full­fjár­magnað og sam­ræmt líf­eyri­s­kerfi fyr­ir alla lands­menn. Að auki er fyr­ir­séð að arður af orku­auð-lind­um á for­ræði rík­is­ins vaxi veru­lega á næstu árum.

Það er við þess­ar um margt ein­stæðu aðstæður sem til­laga að stofn­un þjóðarsjóðs er lögð fram á Alþingi.

Því sjón­ar­miði hef­ur loks verið hreyft að horf­ur um aukn­ar arðgreiðslur af orku­auðlind­um eigi frem­ur að nýta til að lækka skatta en til sjóðssöfn­un­ar. Skatt­ar á Íslandi eru vissu­lega til­tölu­lega háir í alþjóðleg­um sam­an­b­urði, en svig­rúm til skatta­lækk­ana mun áfram vera til staðar, óháð þjóðarsjóði. Einkum ef tekst að auka fram­leiðni, bæði í einka­geir­an­um og hinum op­in­bera, og leggja áherslu á betri nýt­ingu op­in­berra út­gjalda.

Þá er til þess að líta að ekki er full­vissa um aukn­ar tekj­ur af orku­fyr­ir­tækj­um til langs tíma litið og því ekki æski­legt að nýta þær eins og hefðbundna tekju­stofna til að standa und­ir aukn­um rík­is­út­gjöld­um eða sem for­sendu fyr­ir lækk­un skatt­tekna, auk þess sem fjár­hags­leg­ur viðbúnaður til að mæta stór­áföll­um yrði lak­ari fyr­ir vikið.

Áfalla­vörn fyr­ir þjóðina

Þjóðarsjóður er hugsaður sem eins kon­ar áfalla­vörn fyr­ir þjóðina þegar rík­is­sjóður verður fyr­ir meiri­hátt­ar ófyr­ir­séðri fjár­hags­legri ágjöf, vegna af­komu­brests eða kostnaðar við viðbragðsráðstaf­an­ir sem stjórn­völd hafa talið óhjá­kvæmi­legt að grípa til í kjöl­far áfalls eða til að varna því. Fjár­mun­um sjóðsins verður ein­vörðungu varið til fjár­fest­inga er­lend­is, sem er til þess fallið að dreifa fjár­hags­áhættu þjóðarbús­ins og varna því að sjóður­inn hafi bein áhrif á ein­stak­ar inn­lend­ar at­vinnu­grein­ar og fyr­ir­tæki.

Það fer vel á því að frum­varp um þjóðarsjóð sé rætt á Alþingi á 100 ára af­mæli full­veld­is Íslands og í beinu fram­haldi af end­ur­reisn efna­hags­lífs­ins eft­ir eitt stærsta efna­hags­áfall sem Íslend­ing­ar hafa þurft að tak­ast á við.

Stofn­un sjóðsins end­ur­spegl­ar aga í meðferð fjár­muna rík­is­ins og er til marks um breytta og betri tíma. Sjálf­bærni op­in­berra fjár­mála styrk­ist, sem er til þess fallið að auka traust á ís­lensku hag­kerfi og þjóðarbú­skap og þar með efla láns­hæfi Íslands.

All­ir þess­ir þætt­ir eru til hags­bóta til lengri tíma litið fyr­ir okk­ur öll, fyr­ir kom­andi kyn­slóðir og vel­ferð þjóðar­inn­ar í víðu sam­hengi.

Þjóðarsjóður er fyr­ir framtíðina.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2018.