Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:
Þegar eitthundrað ár eru liðin frá lokum heimastjórnartímabils og sami tími er liðinn frá fengnu fullveldi er rétt að íhuga hvað fékkst með heimastjórn fyrir fullveldi.
Flokksóreiða heimastjórnarinnar
Sá er þetta ritar á í mestu vandræðum með að átta sig á um hvað stjórnmál heimastjórnartímabilsins snerust. Flokkaskipan heimstjórnartímabilsins er hrein óreiða.
Sigurður Eggerz var alþingismaður fyrir marga flokka á sinni tíð:
- utan flokka,
- Sjálfstæðisflokkurinn eldri,
- Sjálfstæðisflokkurinn þversum,
- Sjálfstæðisflokkurinn eldri,
- Frjálslyndi flokkurinn,
- Sjálfstæðisflokkurinn.
Sá Sjálfstæðisflokkur sem síðastur er talinn er sá Sjálfstæðisflokkur sem starfar í dag.
Skúli Thoroddsen sat á Alþingi fyrir eftirtalda flokka:
- Framfaraflokkurinn,
- Framsóknarflokkurinn eldri,
- Þjóðræðisflokkurinn,
- Sjálfstæðisflokkurinn eldri
Afkomendur þessa síðari þingmanns hafa margir átt sæti á Alþingi, í þingliði Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna. Báðir voru þessir alþingismenn eldheitir þjóðernissinnar og vildu hafa sem minnst samskipti við Dani.
Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra heimastjórnarinnar, sat á Alþingi fyrir tvo flokka en þó ekki samfellt, því einum flokki var skotið í milli.
- Heimastjórnarflokkurinn
- Sambandsflokkurinn
- Heimastjórnarflokkurinn
Keppinautur hans, Valtýr Guðmundsson, sá er tapaði fyrir glæsimennskunni, sat á Alþingi fyrir eftirtalda flokka:
- Framfaraflokkurinn
- Framsóknarflokkurinn eldri
- Þjóðræðisflokkurinn
- utan flokka
- Sambandsflokkurinn
- utan flokka
Hver skilur þennan glundroða?
Allir ráðherrar heimastjórnarinnar voru danskmenntaðir lögfræðingar. Einn þeirra lauk þó ekki prófi.
Reyndar var það svo að flokkakerfi, sem til er í dag, mótaðist í lok heimastjórnartímabilsins. Þannig var Framsóknarflokkurinn stofnaður í landlegu á Seyðisfirði. Að morgni næsta dags mundi aðeins bindindismaðurinn í hópnum gjörla hvernig flokksstofnuninni var háttað og hver var kosinn formaður.
Hver var fyrirmyndin að heimastjórninni?
Sennilega var fyrirmynd ýmissa hugsjónamanna að heimastjórninni íslenska þjóðveldið. Að vísu var sá möguleika ekki lengur til staðar að halda Alþingi á Þingvöllum. Það var búið að byggja Alþingishúsið við Austurvöll.
Jónas Hallgrímsson skáld vildi halda Alþingi á Þingvöllum. Hann var skáld rómantíkur, jafnvel þjóðernisrómantíkur, enda þótt hann væri fyrsta íslenska skáldið sem orti á því formi sem ort var í Evrópu á hans samtíma.
Þannig orti hann í sonnettuformi;
Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.
Sennilega hafa heimastjórnarmenn ekki verið vissir í hvaða átt skyldi stefnt, og alls ekki séð fyrir sér ávöxt og árangur þess hagvaxtar sem hófst skömmu fyrir aldamótin 1900.
Hvað stendur upp úr í stjórnmálum heimastjórnar?
Þegar stjórnmál heimastjórnartímabilsins eru skoðuð einni öld eftir lok þess virðist þeim er þetta ritar eitt standa upp úr á þessu tæplega 15 ára tímabili. Það eru deilur um stöðu Íslandsráðherra gagnvart konungi og ríkisráði Dana. Stundum var þetta nefnt fyrirvarinn, en fyrirvarinn var glíma í sjálfstæðismálinu. Hann gekk út á að ekki yrðu borin upp séríslensk mál í ríkisráði Dana.
Deilur um fyrirvara Alþingis um að bera íslensk mál upp í danska ríkisráðinu hafa menn átt erfitt með að skilja enda segir í ritinu Stjórnarráð Íslands eftir Agnar Klemens Jónsson »…að mörgum hefur, bæði fyrr og síðar, veist erfitt að átta sig á skýringum og raunar allri þessari fyrirvaradeilu«. Enda á Einar Arnórsson að hafa gefið þá skýringu til að fá hann staðfestan í ríkisráðinu að hann væri formlegs-fræðilegs eðlis, hvað sem það nú þýddi.
Þau mál er sneru að því hvernig landsmenn ættu að lifa af í sjálfstæðu landi skiptu litlu fyrir forystumenn heimastjórnartímabilsins. Vissulega var stofnaður banki á fyrsta ári heimastjórnar, með erlendu hlutafé, Íslandsbanki hf., sem hafði forystu um vélvæðingu bátaflotans og upphaf togaraaldar. Landsbankinn var skútualdarbanki á þessum tíma.
Til þess að hægt væri að stunda eðlilega útlánastarfsemi vantaði vátryggingafélag, vegna brunatrygginga fasteigna og almennra skaðatrygginga. Til þess að hægt væri að stunda millilandaviðskipti skorti skipafélag, og til þess að hægt væri að stunda almenn viðskipti var löggjöf mjög veik. Þó voru sett »almenn viðskiftalög« árið 1911.
Sá sem lagði grunn að stofnun tryggingafélaga og skipafélags var Sveinn Björnsson, yfirréttarmálflutningsmaður og síðar hæstaréttarlögmaður, sendiherra og fyrsti forseti Íslands.
Stundum virðist þeim er þetta ritar að Sveinn Björnsson hafi verið sá stjórnmálamaður heimastjórnarinnar sem lengst komst með að færa Ísland inn í nútímann.
Þá ber einnig að nefna Einar Arnórsson, en það var í stuttri ráðherratíð hans sem konur á Íslandi fengu kosningarétt.
Það er uppbygging innviða undir forystu Sveins Björnssonar og kosningaréttur kvenna í ráðherratíð Einars Arnórssonar, sem standa upp úr á heimastjórnartímabilinu.
Arfur heimastjórnar
Þegar horft er til baka felst arfur heimastjórnarinnar í nokkrum þáttum. Það tókst að koma á mögnuðum deilum í sáraeinföldu máli. Það var símamálið. Það var nógu einfalt til að allir hefðu vit á því. Þannig var farin hópreið til Reykjavíkur til að berjast gegn lagningu landsíma. Sennilega hafa forystumenn þeirrar suðurreiðar talið að GSM-símar væru á næsta leiti árið 1906.
Önnur arfleifð er hús Landsbókasafns Íslands, Safnahúsið við Hverfisgötu. Það er falleg bygging og vel gerð þrátt fyrir þyngd sína.
Þriðja arfleifðin sem nefna mætti er Tjarnargatan. Þar byggðu hinir danskmenntuðu embættismenn heimastjórnarinnar hús sín. Þau hús eru úr takti við önnur íbúðarhús á þeim tíma.
Álitamál er hvort þeir sem þar byggðu hafi fengið lán hjá nýstofnaðri veðdeild Landsbanka Íslands. Í lögum nr. 1/1900 segir:
»Í Landsbankanum í Reykjavík skal stofna veðdeild til þess að veitt verði lán um langt árabil og með vægum vöxtum gegn veði í fasteignum.«
Hvaðan átti lánsfé að koma?
Með þessum lagatexta var lagður grunnur að því að færa lántakendum sparifé landsmanna á silfurfati. Þetta var áður en hugtakið verðbólga varð til, það hugtak var kallað dýrtíð.
Til eru þeir sem vilja taka þennan dýrðartíma upp aftur, að taka sparifé frá börnum og öldruðum og færa þeim sem byggja við tjarnargötur hvers tíma, gegn vægum vöxtum, en það þýðir á skiljanlegu máli að borga ekki til baka í jafnvirði.
Þennan arf heimastjórnarinnar er enn verið að takast á við.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. nóvember 2018.