Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælir í dag á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um Þjóðarsjóð. Markmiðið með sjóðnum verður að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til að mæta afleiðingum af meiri háttar ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir.
Hlutverk sjóðsins verður að varðveita og ávaxta fjármuni sem ríkissjóður leggur honum til. Skulu fjármunirnir nýttir til að bæta ríkissjóði verulega fjárhagleg skakkaföll af völdum ófyrirséðs áfalls fyrir þjóðarbúið. Við slíku áfalli væri þá heimilt að veita fé úr Þjóðarsjóði til ríkissjóðs, sem getur numið allt að helmingi eigna sjóðsins á hverjum tíma eftir nánari skilyrðum.
Í Þjóðarsjóð skulu renna framlög sem eru jafnhá öllum tekjum sem ríkissjóður hefur haft af arðgreiðslum, leigutekjum og öðrum tekjum vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum á næstliðnu ári, í samræmi við fjárheimildir sem Alþingi veitir í fjárlögum. Þá getur sjóðurinn veitt viðtöku og ávaxtað aðra fjármuni sem Alþingi ákveður að leggja til hans í fjárlögum.
Frumvarpið í heild sinni má finna hér.