Ný hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið

Gott regluverk og öflugt eftirlit, hagkvæmni í bankarekstri og traust eignarhald fjármálafyrirtækja eru þær þrjár meginstoðir sem framtíðarsýn íslensks fjármálakerfis þarf að mótast af segir í niðurstöðum starfshóps á vegum fjármálaráðherra sem skipaður var í febrúar og skilaði nýverið „Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið“ til ráðherra.

Frétt um málið var birt í gær á vef fjármálaráðuneytisins og þar segir að markmiðið með skipun starfshópsins hafi verið að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni er varða fjármálakerfið, framtíðargerð þess og þróun. Þar segir einnig að fjármálaráðherra muni óska eftir því að efnt verði til umræðu á Alþingi um efni skýrslunnar í upphafi vorþings auk þess sem hún verði tekin til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Hvítbókin verður auk þess birt á samráðsgátt stjórnvalda og umsagna óskað um efni hennar. Í kjölfarið munu stjórnvöld vinna að tillögum um breytingar.

„Í hvítbókinni er fjallað um þau stakkaskipti sem orðið hafa á regluverki um fjármálakerfi heimsins frá því alþjóðlega bankakreppan reið yfir. Það birtist m.a. í alþjóðlegum reglum sem innleiddar hafa verið í svipaðri mynd hér á landi og í flestum þróuðum ríkjum heims. Dregið hefur verulega úr áhættu í íslenska bankakerfinu, bankar eru betur í stakk búnir að takast á við áföll, eftirlit er sterkara og viðbragðsáætlun hefur verið mótuð. Leggur starfshópurinn áherslu á að ákvörðun verði tekin um að draga varnarlínu vegna fjárfestingabankastarfsemi viðskiptabanka og að komið verði á fót miðlægum skuldagrunni sem nýttist stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum við að afla betri upplýsinga um skuldsetningu heimila og fyrirtækja,“ segir í frétt ráðuneytisins en einnig kemur þar fram að í skýrslunni sé bent á að virk samkeppni og öflugt aðhald viðskiptavina sé lykilforsenda þess að hagræðing nái til neytenda og lítilla fyrirtækja sem séu mikilvægir þættir til þess að traust byggist upp að nýju í íslenska fjármálakerfinu.

Nánar er fjallað um hvítbókina í frétt ráðuneytisins sem finna má hér.