Lilja Björg Ágústsdóttir forseti sveitarstjórnar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð:
Í fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2019 er lagt til að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í Borgarbyggð niður í 0,40%. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði er núna 0,45% en var síðast lækkaður úr 0,47% niður í 0,45 um áramót 2017 – 2018. Árið 2015 var skatturinn hækkaður upp í 0,49% en hámarks heimild til álagningar samkvæmt lögum er 0,50%. Sú hækkun átti sér stað þegar verulega kreppti að fjárhagslega hjá sveitarfélaginu en rétt er að halda því til haga að álagning fasteignaskatts er mjög mikilvægur tekjustofn hjá stórum víðfeðmum sveitarfélögum þar sem oft á tíðum eru til staðar mörg sumarhús og þar af leiðandi dulin búseta. Í tillögunni er einnig lagt til að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði lækkaður úr 1,55% niður í 1,39% á næsta ári. Heildar lækkun á tekjugrunni Borgarbyggðar miðað við þessar lækkanir er um 56,2 milljónir króna. Við ætlum í framhaldinu áfram að setja okkur skýr fjárhagleg markmið í gegn um verkefnið „Brúin til framtíðar“ eins og kemur fram í málefnasamningi framboðanna sem standa að meirihlutanum. Í því samhengi verður meðal annars horft til þess að lækka fasteignaskatt enn frekar á kjörtímabilinu.
Íbúar í Borgarbyggð aldrei verið fleiri
Nú búa í Borgarbyggð 3.810 manns, en ef horft er aftur til 1. janúar 1998 þá voru íbúar í þeim sveitarfélögum sem nú tilheyra Borgarbyggð 3.259 talsins. Í upphafi árs 2013 voru íbúar 3.469 og hefur þeim farið fjölgandi síðan, en í 1. janúar 2018 voru íbúar 3.745. Miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar við lok þriðja ársfjórðungs í ár er íbúafjöldi í Borgarbyggð 3.810 og hafa aldrei búið fleiri í sveitarfélaginu.
Miklar framkvæmdir fyrirhugaðar á árinu 2019
Nú er frítt að aka um Hvalfjarðargöngin og má fullyrða að það sé gríðarlega mikilvægur áfangi fyrir Vesturland allt. Höfuðborgarsvæðið er í auknum mæli hluti af atvinnusvæði íbúa Borgarbyggðar og telja má að þróunin verði enn frekar á þá leið. Mikilvægt er að hamra járnið á meðan það er heitt og leggja áherslu á þau málefni sem skipta mestu máli við búsetuval fólks. Með því að lækka fasteignaskatta, bæði á íbúa og atvinnurekendur, er leitast við að bæta lífsgæði í sveitarfélaginu og gera það að enn eftirsóknarverðari valkosti fyrir einstaklinga og fyriræki.
Í fyrirliggjandi tillögu að framkvæmdarhluta fjárhagsáætlunar er augljóst hvert stefnt er. Aðal áherslurnar eru á skólamannvirki, uppbyggingu gatna og ljósleiðaravæðingu, en allt eru þetta mikilvægir innviðir. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sú mikla uppbygging sem á sér stað á skólamannvirkjum í sveitarfélaginu og standa m.a. vonir til þess að innan fárra mánaða verði tekið í notkun mikið endurbætt húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi. Verið er að vinna húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið sem verður notuð til að meta húsnæðisþörf á svæðinu og talsvert hefur verið rætt um að skoða möguleika á frekari þéttingu byggðar í Borgarnesi og hvaða tækifæri felast í því. Á fyrirliggjandi fjárhagsætlun er lagt upp með að verja 50 milljónum króna til gatnagerðar, en reiknað er með að fara í gatnagerð m.a. í Bjargslandinu í Borgarnesi þar sem búið er að skipuleggja 56 nýjar lóðir sem verður hægt að úthluta fljótlega eftir áramót ef allt gengur upp. Þá eru þegar tilbúnar til úthlutunar 18 lóðir á Hvanneyri. Búið er að ráða verktaka til að sjá um lagningu ljósleiðara um hinar dreifðu byggðir Borgarbyggðar og vonir standa til að sú framkvæmd klárist á næstu þremur árum.
Tíminn er kominn til að láta hendur standa fram úr ermum og fylgja verkefnunum eftir af festu en um fram allt jákvæðni. Það er mikil uppbygging framundan og nú er það okkar að byggja saman upp stærra og sterkara samfélag þar sem skilyrði til búsetu eru hagfelld.