Stuðningur við rannsóknir- og þróun tvöfaldaður

Stuðningur ríkisins í formi skattafrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja verður tvöfaldaður samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2019 sem nú bíður þriðju umræðu á Alþingi.

Í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar segir: „Til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands mun ríkisstjórnin endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum.“ Hækkun viðmiðunarfjárhæða er nauðsynlegt skref í átt að því markmiði.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2019 er annars vegar gert ráð fyrir að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 300 milljónum kr. í 600 milljónir kr., ef viðkomandi fyrirtæki er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum.

Hins vegar er lagt til að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar á frádrætti hækki úr 450 milljónum kr. í 900 milljónir kr. þegar rannsóknar- og þróunarvinna er keypt af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að auka verulega við stuðning við rannsóknir og tækniþróun fyrirtækja á Íslandi og í stefnuskrá hennar segir einnig: Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða.“

Reynsla fyrri ára af þessu úrræði hefur sýnt margvíslegan árangur. Til lengri tíma litið eru heildaráhrifin af þessum stuðningsaðgerðum jákvæð í formi fjölgunar starfa, auknum kaupmætti, fjölbreyttara atvinnulífi og aukinni hagsæld almennt á Íslandi.

Núgildandi kerfi skattívilnana hefur stuðlað að arðbærum rannsóknum og þróun fyrirtækja á undanförnum árum. Í því samhengi má nefna að 142 fyrirtæki sóttu um og fengu endurgreiðslu vegna 360 verkefna á rekstrarárinu 2017. Það er því ljóst að úrræði þetta hefur stuðlað að mikilli grósku í rannsóknum og þróun hjá fjölda fyrirtækja á undanförnum árum.

Þá er ljóst að fjárfesting í nýsköpun, rannsóknum og þróun er undirstaða aukinnar verðmætasköpunar, hagvaxtar og almennra framfara í íslensku samfélagi og því mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram myndarlegum stuðningi á þessu sviði.