Slagorðin ekki nóg

„Tækifæri Sjálfstæðisflokksins liggur meðal annars í því að vera kjölfesta á umbrotatímum. Fyrir þessu fann ég mjög sterkt 2016 en kosningarnar 2017 voru um margt fordæmalausar. Til framtíðar er það í okkar höndum hvernig fylgið þróast. Við getum aftur náð fyrri styrk en við megum ekki gefa okkur í eina mínútu að við eigum einhvern tiltekinn stuðning vísan,” segir Bjarni Benediktsson í ítarlegu viðtali við Þjóðmál.

Þar ræðir Bjarni m.a. ríkisstjórnarsamstarfið, veru sína í pólitík, stefnumál og stöðu flokksins, ráðherraembættið o.fl.

„Mér finnst samstarfið hafa farið vel af stað. Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt, stjórnarandstaðan hefur veitt okkur aðhald í mörgum málum en það var alveg viðbúið að það yrði ákveðin brekka til að byrja með,“ segir Bjarni um ríkisstjórnarsamstarfið.

Bjarni ræddi áherslur flokksins og að það væri mikilvægt að draga ávallt fram þær áherslur sem mestu skipti á hverjum tíma.

„Það er margt að breytast og með meiri hraða en áður var. Atvinnutækifæri sem ungt fólk er spennt fyrir eru önnur en þau voru fyrir 40-50 árum og jafnvel allt önnur en þau voru fyrir tíu eða tuttugu árum. Við allt þetta fólk þurfum við að tala. Það er gríðarleg áskorun að halda úti stóru stjórnmálaafli sem stöðugt er í takt við tímann. Sagan geymir mörg dæmi þess að flokkum hafi mistekist það,“ segir Bjarni.

Eini flokkurinn sem talar um mikilvægi skattalækkana

„Mér finnst að við höfum verið ein á sviði stjórnmálanna að ræða um mikilvægi þess að lækka skatta og gera þá sanngjarnari. Það höfum við gert á sama tíma og við höfum styrkt innviðina – framlög til heilbrigðismála, almannatrygginga, samgangna og menntamála hafa vaxið,“ segir Bjarni.

„Ég fagna því að nú eru fleiri og fleiri að verða sammála okkur um mikilvægi þess að horfa meira á árangur í opinberum rekstri, að hann verði ekki bara mældur í fjárheimildum,“ segir hann.

Hann segir stefnu flokksins hafa miðað að því að láta samfélagið allt njóta árangurs í efnahagsmálum á síðustu árum.

„Við höfum styrkt stóru kerfin okkar en áhersla á húsnæðismálin hefur einnig skipt miklu, fyrst að koma fólki til hjálpar vegna skuldavandans en síðan að veita kaupendum fyrstu íbúða stuðning. Við höfum alltaf verið flokkur sem ber framgang og fjölbreytni atvinnulífsins fyrir brjósti og ég er ánægður með þá áherslu sem við höfum lagt á nýsköpun og þróun á undanförnum árum, á störf framtíðarinnar auk þeirra skrefa sem við erum að taka í umhverfismálum,“ segir hann.

Bjarni ræðir heilbrigðismálin í viðtalinu og segir m.a.: „Númer eitt, tvö og þrjú eru hinir sjúkratryggðu, sjúklingarnir og notendur kerfisins sem eiga að vera í brennidepli en ekki kerfið sjálft, hvort sem það er á vegum hins opinbera eða einkaaðila.“

Ekki nóg að tala um frjálslyndi

„Mér þykir það til dæmis ekki frjálslynd stefna að tala stöðugt fyrir upptöku nýs gjaldmiðils eða inngöngu í Evrópusambandið og þar með flóknara regluverki og frekara framsali fullveldis. Það hefur einfaldlega ekkert með frjálslyndi að gera,“ segir Bjarni um meinta frjálslyndisstefnu Viðreisnar.

„Ég hef lagt áherslu á alvöru aðgerðir til að auka viðskiptafrelsi, eins og að fella niður tolla og vörugjöld og lækka skatta.“

Spurður að því hvort menn séu að gera óraunhæfar væntingar um að ná fylgi Sjálfstæðisflokksins aftur í það sem hann hafði á árum áður sagði Bjarni: „Við vinnum ekki stuðning með slagorðunum einum saman. Þetta er annað samfélag í dag og aðrir kjósendur. Maður heldur ekki þræði í samtali við kjósanda nú með því einu að rifja upp einhverja hluti sem gerðust fyrir einhverjum áratugum.“

Hann segir Sjálfstæðisflokkinn þurfa að vera leiðandi, bæði í umræðunni og eins í verkum sinnum á grundvelli gilda flokksins.

„Maður þarf að hafa skýra framtíðarsýn og getu til að kynna hana eftir réttum leiðum. Það breytist hins vegar ekki yfir tíma að við viljum hafa hvetjandi umhverfi, trúa á einstaklinginn, framtakssemi hans. Að skattar verði að vera hóflegir, að ríkið megi ekki vera alltumlykjandi og að kraftmikið atvinnulíf sé forsenda velferðarinnar,“ segir Bjarni

Höfum ekki gert iðnnámi nógu hátt undir höfði.

Bjarni ræðir einnig um menntamálin í viðtalinu og segir: „Í menntakerfinu gengur okkur illa að leiða fram sameiginlega sýn um fjölbreytni rekstrarforma og frelsi og tækifæri nemenda til að fara ólíkar leiðir á menntabrautinni. Auðvitað munu flokkarnir ekki hafa sameiginlega sýn á þetta en við þurfum að komast eitthvað úr sporunum því árangurinn virðist standa á sér. Mér finnst við ekki hafa gert iðnnámi nógu hátt undir höfði og hefðum átt, í samvinnu við atvinnulífið, að gera meira til að breyta viðhorfi samfélagsins til slíkrar menntunar.“

Þeir sem áhuga hafa á að lesa nánar úr viðtalinu geta fundið það í heild sinni hér.