Hugmyndafræði sundrungar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Það er ekki fyrir hvern sem er að gagnrýna eða ef­ast um hagfræðiþekkingu þeirra sem nú fara fyr­ir stærstu verkalýðsfélögum landsins. Sá hinn sami má eiga von á því að vera samtvinnaður við illt auðvald, sakaður um að vinna gegn launafólki og fleira í þeim dúr. Það eina sem er öruggt er að sá sem hreyfir efasemd­um um hina póli­tísku stefnu hinna miklu leiðtoga verður úthrópaður með fúkyrðum – líklega í þeim til­gangi að koma í veg fyrir að viðkomandi tjái sig nokkurn tímann aftur. Opinber orðræða fælir skynsamt fólk frá því að taka til máls.

Skynsömu fólki má vera ljóst að kröfur háværustu verkalýðsfélaganna eru ekki bara óraunhæfar og óskynsamlegar, heldur með öllu ábyrgðarlausar og aðeins til þess fallnar að búa til falsvonir. Sem betur fer þekkja margir vel til mála og geta tekist á við óskynsemina með efnislegum og málefnalegum hætti. Það hafa að vísu ekki allir jafn digra sjóði og stéttarfélögin hafa en við skulum vona að skynsemin hafi yfirhöndina, sem tryggir launafólki betri lífskjör – stöðugleika og aukinn kaupmátt.

Hug­mynda­fræðilegi þátt­ur­inn er þó ekki síður mik­il­væg­ur. Árið er 2018 en vofa Karls Marx lifn­ar við í frös­um ís­lenskra for­ystu­manna verka­lýðsfé­laga og fylg­i­sveina þeirra. Þeir sem eldri eru þekkja af­leiðing­ar sósí­al­ism­ans í Sov­ét­ríkj­un­um, Aust­ur-Þýskalandi og Kína og við sem yngri erum höf­um séð hvernig al­menn­ing­ur í Venesúela hef­ur greitt dýru verði fyr­ir enn eina til­raun­ina í nafni sósí­al­ism­ans. Landi sem fyr­ir ör­fá­um árum var eitt auðug­asta ríki í Suður-Am­er­íku en er nú orðið efna­hags­leg auðn. Dæm­in eru fleiri en rúm­ast í stutt­um pistli sem þess­um, en niðurstaðan er alltaf sú sama. Hvar sem sósí­al­ismi hef­ur skotið rótum eru af­leiðing­arn­ar skelfi­leg­ar fyr­ir al­menn­ing. Það er eng­in ástæða til að ætla að niðurstaðan yrði önn­ur hér á landi.

Einn af þeim frös­um sem við höf­um fengið að heyra mikið af á und­an­förn­um miss­er­um er að at­vinnu­rek­end­ur séu óvin­ir launa­manna. Ekk­ert gæti verið fjær sanni. Hvor­ir um sig geta ekki lifað án hinna. Það er sam­eig­in­leg­ur hag­ur at­vinnu­rek­enda og launa­fólks að vel gangi í rekstri. Bætt­ur hag­ur launa­fólks er bætt­ur hag­ur fyr­ir­tækj­anna og öf­ugt.

Hug­mynda­fræði sósí­al­ista sem nú hafa hæst í aðdrag­anda kjara­samn­inga er hugmyndafræði sem bygg­ist á og sæk­ir nær­ingu í sundr­ungu. Henni er ætlað að reka fleyg, ekki aðeins milli at­vinnu­rek­enda og launa­fólks held­ur einnig milli stétta. Sag­an kenn­ir okkur hvaða af­leiðing­ar það hef­ur. Fyr­ir launa­fólk, ekki síður en eig­end­ur fyr­ir­tækja, er nauðsynlegt að spyrna við fót­um.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2018.