Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Það skal játað í upphafi að ég á erfitt með að skilja hugmyndir um að rétt sé og skylt að leggja svokallaðan hátekjuskatt á launatekjur. Satt best að segja lít ég þannig á að þegar launafólk borgar tæplega helming launa sinna í beina skatta, þá sé um hátekjuskatt að ræða. Af hverjum 10 þúsund króna mánaðartekjum umfram 893.713 krónur eru greiddar 4.624 krónur í staðgreiðslu – 46,24%. Árið 2008 var þetta hlutfall 35,72%.
Þeir stjórnmálamenn eru til sem telja að þessi gríðarlega hækkun skatthlutfalls – 10,52%-stig – sé ekki nægjanleg. Það þurfi að ganga lengra og taka upp ofurskatta líkt og margir skattaglaðir vinstri menn lögðu til fyrir nokkrum árum. Hin sósíalíska „skattaformúla“ gerði þá ráð fyrir 60-70% skatti á tekjur yfir einni milljón á mánuði og á uppboðsmarkaði hinna skattaglöðu var kallað eftir 80% skatti á tekjur yfir 1,2 milljónum.
Krafan um hátekjuskattinn – ofurskattinn – er í samræmi við sannfæringu vinstri manna um að ríkissjóður sé að „kasta frá sér“ eða „afsala sér“ tekjum ef skattar eru ekki hækkaðir. Verið sé að „veikja“ skattstofna með því að ganga ekki fram af einurð og skattleggja allt það sem hreyfist. Í hugarheimi þeirra sem þannig tala er það merki um að land sé „skattaparadís“ þegar „aðeins“ önnur hver króna hverfur úr launaumslaginu í tekjuskatt og útsvar.
Í leit að lýðhylli
Mikið væri gott ef þeir sem nú ganga fram fyrir skjöldu og boða hátekjuskatt á launatekjur gæfu sér tíma og legðu jafnmikið á sig að berjast fyrir því að lækka álögur á almennt launafólk. Það væri heldur ekki úr vegi að þeir færðu rök fyrir því af hverju nær 30% hækkun tekjuskattsins (10,52%-stig) er talin merki um að verið sé að „afsala“ ríkinu tekjum. (Á liðnu ári greiddu einstaklingar um 34 milljörðum krónum hærri fjárhæð í tekjuskatt en árið 2008, á föstu verðlagi.)
Það kann vel að vera að það sé góð leið fyrir stjórnmálamann að afla sér lýðhylli með því að tala fjálglega um nauðsyn þess að leggja hátekjuskatt á fólk sem hefur góðar tekjur. En slík skattheimta aflar ríkissjóði ekki mikilla fjármuna og skilar þeim engu sem hafa meðaltekjur eða lægri. Hátekjuskattur eykur ekki ráðstöfunartekjur þeirra – það verður ekkert meira eftir í launaumslaginu.
Meira eftir í launaumslaginu
Í aðdraganda kjarasamninga, sem að líkindum verða erfiðir og flóknir, er ekki óeðlilegt að horft sé til þess með hvaða hætti hægt er að lækka beinar álögur á launafólk – tryggja að ráðstöfunartekjur hækki með því að meira verði eftir í launaumslaginu en áður. Alltaf er horft til ríkissjóðs en lítt hugað að þeim álögum sem sveitarfélögin leggja á íbúana en sum þeirra ganga fram af fullum þunga.
Sá er þetta skrifar hefur ítrekað gagnrýnt tekjuskattskerfið og haldið því fram að það sé flókið, óréttlátt og refsi fólki þegar það nær að bæta sinn hag. Réttast sé að innleiða flata tekjuskattsprósentu með háum persónuafslætti sem lækki eftir því sem tekjur eru hærri og þurrkist að lokum út. Flatur tekjuskattur með stiglækkandi persónuafslætti tryggir einfaldleika en styrkir um leið stöðu láglaunastétta og millitekjuhópa. Ýtt er undir fólk í stað þess að berja það niður með háum jaðarsköttum sem eru fylgifiskar tekjutenginga og þrepaskipts tekjuskatts.
Á vegum ríkisstjórnarinnar er unnið að endurskoðun tekjuskattskerfisins. Vonandi leiðir sú vinna til skynsamlegrar uppstokkunar og lækkunar skatta á launafólk. En þar með verða atvinnurekendur ekki leystir undan þeirri ábyrgð að ná samningum og stuðla að því að hægt sé að hækka laun þeirra sem lökust hafa kjörin.
Margt vitlausara
Hitt er auðvitað rétt að ríkissjóður þarf ekki, frekar en sveitarfélögin, að bíða eftir kjarasamningum til að lækka skatta eða gera sanngjarnar breytingar á tekjuskattskerfinu. Stefna Sjálfstæðisflokksins er a.m.k. skýr í þessum efnum. „Samkeppnishæf starfsskilyrði og hagstætt fyrirtækjaumhverfi eru lykilatriði góðra lífskjara,“ segir í ályktun landsfundar sem haldinn var í mars síðastliðnum. Sjálfstæðismenn vilja einfalda skattkerfið og lækka tekjuskatt einstaklinga þannig að tekjuskattur og útsvar lækki í áföngum í samtals 25% fram til ársins 2025.
Í hugum Sjálfstæðismanna er einfalt og skilvirkt skattaumhverfi forsenda öflugs og blómlegs atvinnulífs. Árið 2013 benti landsfundur á að „mesta kjarabót Íslendinga felist í lækkun skatta“ sem stuðlar að „meiri fjárfestingu og aukinni verðmætasköpun“.
Aðilar vinnumarkaðarins gerðu margt vitlausara en að herma þessa yfirlýsingu upp á okkur Sjálfstæðismenn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. október 2018