Ný hugsun í menntamálum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Þrátt fyrir að iðnaður skapi fjórðung landsframleiðslunnar og rúmlega þriðjung gjaldeyristekna flokkum við enn iðn-, tækni- og starfsmenntun sem óæðri menntun. Ekki aðeins í löggjöf heldur líka í hugsun og framkvæmd. Aðeins 16% nýnema á framhaldsskólastigi sækja í iðngreinar á meðan gríðarleg þörf er á fleira iðnmenntuðu fólki. Skekkjan sem er til staðar milli námsvals og eftirspurnar eftir vinnuafli er þegar orðin mikil og mun að öllu óbreyttu verða enn meiri.

Ég hef lagt fram frumvarp á Alþingi sem leggur sveinspróf að jöfnu við stúdentspróf hvað varðar inntökuskilyrði í háskóla. Með því er verið að opna dyr nemenda að háskólanámi, dyr sem áður voru lokaðar þeim sem höfðu valið sér iðnnám. Það eru mörg dæmi þess að aðilar sem lokið hafa iðnnámi vilji auka við sig menntun. Það á að vera verkefni háskóla að leggja heildstætt og fjölbreytt mat á nemendur en ekki gera upp á milli fólks eftir því hvernig það hefur aflað þekkingarinnar. Að fjölga háskólamenntuðum með fjölbreyttari bakgrunn mun reynast samfélaginu dýrmætt. Stærsti ávinningurinn yrði að eyða gömlum viðhorfum um að bóknám sé ávallt skör hærra og framgangur þeirra sem lokið hafa iðn, tækni- og starfsmenntun til meira náms sé ekki mögulegur án stúdentsprófs.

Það er rétt að taka fram að það er ekki öllum nauðsynlegt að fara í háskólanám. Fjöldi fólks lýkur iðn- eða tæknimenntun, t.d. sveinsprófi og síðar meistaranámi, fer síðan út á vinnumarkaðinn og býr til verðmæti í samfélaginu. Margir stofna sín eigin fyrirtæki og þannig mætti áfram telja. Þetta snýst fyrst og fremst um það að gefa þessum einstaklingum val um háskólamenntun kjósi þeir hana síðar á lífsleiðinni.

Þó um sé að ræða stóra kerfisbreytingu þá mun hún ekki nægja ein og sér. Ný hugsun og meiri þekking er lykilatriði ef við ætlum að ráðast á rót vandans. Við getum ekki og munum ekki auka áhuga barna á einhverju sem þau þekkja ekki. Í dag geta börn einungis nefnt 4-6 greinar að meðaltali þegar spurt er um aðrar leiðir í námi en til hefðbundins stúdentsprófs. Í boði eru 100 leiðir. Hér er starfsráðgjöf ábótavant því ljóst er að þekkingarleysi skapar viðhorfið til greinanna sem eru samt svo dýrmætar í atvinnulífinu. Við munum ekki geta kennt börnum allt á bókina.

Menntakerfið er lykilþáttur í að skapa hér framúrskarandi lífskjör. Efling iðn-, tækni- og starfsnáms mun auka fjölbreytileika íslensks samfélags sem er undirbúið að takast á við nýjar áskoranir. Að taka stór skref til að breyta áherslum kerfisins og gera iðnnámi jafn hátt undir höfði og bóknámi, bæði í löggjöf og í raunverulegri framkvæmd, er mikilvægt skref til aukinna framfara og hagsældar. Atvinnulífið þróast hratt og menntakerfið og áherslur þess mega ekki sitja eftir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. október 2018.