Skýr merki um að þolmörkum hafi víða verið náð

„Ísland hefur alla burði til að skipa sér í fremstu röð á þessu sviði líkt og við höfum gert á sviði stjórnunar í sjávarútvegi en það gerist ekki af sjálfu sér,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á Alþingi í gær í munnlegri skýrslu ráðherra um þolmörk ferðamennsku á Íslandi.

„Það er ásetningur minn að fylgja eftir þeim tillögum og ábendingum sem fram koma í skýrslunni um mikilvægi þess leggja grunn að virkari stýringu í ferðamennsku,“ sagði ráðherra.

Ráðherra sagði að vöxtur ferðaþjónustu hafi gegnt lykilhlutverki í viðsnúningi efnahagslífsins undanfarinn áratug og bætti við: „Á þeim tíma hefur hún skapað langtum meiri gjaldeyristekjur en nokkur önnur atvinnugrein og einnig fleiri störf en aðrar greinar.“

Ráðherra sagði ferðaþjónustu bæði hafa jákvæð og neikvæð efnahagsleg áhrif.

„Náttúru landsins, sem er meginaðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar, má ekki stefna í voða vegna of mikils álags eða skorts á viðeigandi aðstöðu til að taka á móti ferðafólki,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagði samfélagið einnig verða fyrir áhrifum af hinum mikla vexti greinarinnar og að vöxturinn hafi jafnframt áhrif á upplifun sjálfs ferðamannsins.

Mikilvægt að mótað sé skilvirkt kerfi stýringar

„Ljóst er að eigi áframhaldandi þróun greinar­innar að vera sjálfbær er mikilvægt að mótað sé skilvirkt kerfi stýringar á ferðamannastöðum, sem byggir á þolmarkarannsóknum“, sagði ráðherra í ræðu sinni.

Ráðherra sagði að þolmarksrannsóknir á sviði ferðamála hafi farið í gang í kringum árið 2000 og að síðan þá hafi verið ráðist í 58 rannsóknir á 32 stöðum.

„Það eru skýr merki um að þolmörkum hafi víða verið náð nú þegar, ýmist hvað varðar náttúru, samfélag eða upplifun ferðamanna,“ sagði ráðherra.

Hún sagði að hingað til hafi þolmarkahugtakið verið notað hér á landi til að afla upplýsinga um stöðuna en ekki sem stjórntæki fyrir áfangastaði og því verði að breyta.

„Til að þolmarkahugtakið virki sem stjórntæki þarf fyrst að marka stefnu fyrir staði eða svæði með tilliti til ferðamennsku. Setja þarf viðmið um „ásættanlegar breytingar“ á staðnum og vakta síðan alla viðeigandi þolmarkaþætti til að meta hvort staðurinn sé yfir eða undir þolmörkum,“ sagði ráðherra.

„Fyrirmyndir að slíkum verkferlum eru til, en fara þarf yfir þær og laga að íslenskum aðstæðum. Ég tel að það sé orðið tímabært fyrir okkur að velja hentugan ferðamannastað til að keyra slíkt verkefni á til reynslu. Útfæra verkferla sem henta á þeim stað til að hefja markvissa stýringu, m.a. á grundvelli þolmarka og vöktunar á þeim. Ég mun beita mér fyrir því að við munum hefja slíkt verkefni sem allra fyrst,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Ferðamálastofa fær skýrara hlutverk um áramót

Ráðherra sagði stjórnvöld hafa á undanförnum árum hafa aukið stuðning við rannsóknir og greiningar á sviði ferðamála. En lengi hafi vantað öflugri brú á milli rannsókna og gagnaöflunar annars vegar og ákvarðana á vettvangi hins vegar. Í því samhengi hafi verið varpað fram hugmynd um rannsóknastofnun ferðaþjónustunnar.

„Með nýjum lögum um Ferðamálastofu, sem samþykkt voru nú í vor og taka gildi um áramótin, fær sú stofnun skýrara hlutverk varðandi rannsóknir í ferðamálum. Ég bind miklar vonir við þá breytingu og horfi til þess að hægt verði að gera fleiri nauðsynlegar umbætur á rannsóknarumhverfi ferðamála í náinni framtíð,“ sagði ráðherra.

Hún ræddi einnig breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og sagði: „Nýlegar breytingar á lögum um Fram­kvæmda­sjóð ferðamannastaða í ljósi tilkomu landsáætlunar gera það enn fremur að verkum að hann hefur aukið svigrúm til uppbyggingar á stöðum í umsjón sveitar­félaga og einkaaðila,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagði vinnu við áfangastaðaáætlanir landshlutanna vera á lokastigi en þær væru afar mikilvægar fyrir þróun ferðamennsku á hverju landsvæði fyrir sig. Áætlanirnar taki á skipulagi, þróun og markaðssetningu hvers svæðis og stýringu á umferð ferðamanna. Nú fari af stað innleiðing á þessum áætlunum og samræming við aðrar lögbundnar áætlanir.

„Þá er mikilvægt að halda áfram vinnu við endurskoðun á ákvæðum um almannarétt, sem fer fram á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, og mótun reglna um sér­leyfis­samninga vegna hagnýtingar og atvinnustarfsemi á landi í eigu ríkisins, sem unnið er að á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins,“ sagði ráðherra við umræðuna í dag.

Umræðuna í heild má finna hér.

Skýrslu ráðherra um þolmörk ferðamennsku má finna hér.