Sigríður Ásthildur Andersen, dómsmálaráðherra:
Hæstiréttur sýknaði á dögunum fimm sakborninga, að tveimur þeirra látnum, við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins frá 1980. Þetta stærsta sakamál Íslandssögunnar hefur verið mjög til umfjöllunar ítrekað frá því að dómur féll árið 1980. Margt sem fram kemur í þeim dómi vekur enn upp spurningar. Málið hefur legið þungt aðilum og aðstandendum þeirra en einnig þjóðinni allri í um fjóra áratugi.
Eins og ég lýsti við uppkvaðningu dómsins samgleðst ég aðilum máls og aðstandendum með þessi málalok fyrir Hæstarétti. Með sýknudómi féllst rétturinn á það mat endurupptökunefndar að fram væru komnar nýjar upplýsingar sem leiða ættu til þess að hið gamla mál yrði endurupptekið nú. Þessar nýju upplýsingar lutu meðal annars aðstæðum sakborninganna undir rannsókn málsins á sínum tíma. Engum dylst að sakborningar sættu harðræði í margvíslegri mynd.
Þó vissulega megi áfram fjalla um þetta mál frá mörgum sjónarhornum réttarsögunnar, og það verður trúlega gert um ókomna tíð, þá skiptir að mínu mati miklu að horfa einnig til framtíðar enda má margt læra af þessu máli.
Það er mikilvægt að hafa í huga í umræðu um sakborninga, í öllum málum, hvort sem er í fjölmiðlum, á meðal almennings eða í réttarvörslukerfinu að hver einasti sakborningur hefur rétt sem verður að standa vörð um. Menn eru saklausir uns sekt þeirra er sönnuð – þetta er meginregla sem ber að hafa í heiðri í hvívetna. Tímabundin geðshræring á götum úti eða í fjölmiðlum má ekki verða til þess að þessi meginregla verði fyrir borð borin.
Þá er einnig brýnt að það gerist ekki aftur hér á landi að grunaðir menn sem enn eru saklausir þar sem sekt þeirra hefur ekki verið sönnuð sæti einangrunarvist í langan tíma.
Ég hef í þessu skyni þegar kallað eftir upplýsingum um það hvernig þessum málum er háttað í okkar réttarvörslukerfi í dag. Hversu algengt það er að lögreglan fari fram á dómsúrskurð um einangrunarvist, á hvaða forsendum það sé þá gert og hversu algengt það sé að því sé hafnað af dómstólum. Einnig hef ég óskað eftir upplýsingum um það hversu oft ríkið hefur samið um skaðabætur vegna einangrunarvistunar við rannsókn máls.
Þetta er viðamikil upplýsingaöflun en nauðsynleg til að hægt sé að leggja mat á það hvort nauðsynlegt sé að skýra enn frekar lög eða reglur að þessu leyti.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2018.