Thordis Kolbrun

Það verður að vera dýrkeypt að brjóta á fólki

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins:

Þótt virða beri öll lög í landinu jafnt gildir ekki ósvipað um þau og dýrin í Dýrabæ Orwells, sem sum voru jafnari en önnur, að sum lög virða menn frekar en önnur.

Tvennt getur helst stuðlað að því að einstaklingar sem hneigjast til lögbrota haldi aftur af brotavilja sínum: Annars vegar öflugt eftirlit, þannig að erfitt sé að komast upp með lögbrot, og hins vegar þung viðurlög, þannig að dýrkeypt sé að vera gómaður.

Þó að hægrimenn gangist fúslega við andúð á ónauðsynlegum reglum og skrifræði er það mikill misskilningur ef einhver heldur að hægristefna gangi út á frumskógarlögmál þar sem reglur eru hvorki settar né þeim framfylgt. Öðru nær. Í frjálsu samfélagi er bæði óhjákvæmilegt og sjálfsagt að þegnarnir komi sér saman um alls konar leikreglur og fylgi þeim fast eftir.

Ljót dæmi

Við eigum því láni að fagna að hér á Íslandi hefur tekist ágæt málamiðlun um leikreglur á vinnumarkaði, þar sem saman fara annars vegar töluverður sveigjanleiki í þágu fyrirtækja og hins vegar fremur sterk réttindi starfsólks. Það er allra hagur að þeim réttindum sé framfylgt af fyllstu einurð.

Upplýsingar og vísbendingar í nýlegum Kveiksþætti á RÚV um forkastanlega meðferð á erlendu starfsfólki voru sláandi. Ég er að vísu sannfærð um að sú mynd sem dregin var upp í þættinum sé ekki dæmigerð fyrir íslenskan vinnumarkað; ég tel að atvinnurekendur fari almennt ekki á svig við reglur um kaup og kjör þó að til séu undantekningar á því. Einnig ber að hafa í huga að sum fyrirtækjanna sem fjallað var um hafa gert athugasemdir við umfjöllunina og fullyrða að hún hafi ekki verið réttmæt. En þó að aðilar kunni að eiga sér málsbætur er það ekki aðalatriðið hér heldur hitt, að markmiðið verður að vera að uppræta brot á þessu sviði, því að þau vega að mikilvægum grundvallarréttindum fólks.

Það hefur raunar legið fyrir að gera þurfi bragarbót á þessum málum og stjórnvöld hafa þegar stigið slík skref. Síðastliðið vor var lögum breytt til að sporna gegn félagslegum undirboðum og nú í september samþykkti ríkisstjórnin tillögu félagsmálaráðherra um aukið samstarf á milli opinberra aðila í þeim sama tilgangi. Þá mun dómsmálaráðherra einnig í haust kynna aðgerðaáætlun gegn mansali. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um að stjórnvöld taka þessi mál alvarlega.

Nokkrar hugmyndir

Af umræðunni að dæma eru fyrstu viðbrögð flestra á þann veg að herða þurfi eftirlit til að framfylgja betur gildandi reglum. Það er vissulega mikilvægt en ég tel að það þurfi einnig að huga að hinu atriðinu sem nefnt var í upphafi þessarar greinar: hvort nógu dýrkeypt sé að vera gómaður.

Í því sambandi gætu ýmsir aðilar lagt sitt af mörkum. Upp í hugann koma nokkrir möguleikar sem ég ætla að leyfa mér að kasta hér fram til umhugsunar án þess að nein sérstök úttekt eða lögfræðileg skoðun liggi að baki þeim: Að bankar og aðrir fjármögnunaraðilar settu það sem skilyrði fyrir fjármögnun að brot gegn réttindum starfsfólks hefðu í för með sér rétt til að fella niður alla fyrirgreiðslu, án fyrirvara. Að sveitarfélög settu það sem skilyrði fyrir byggingarleyfi að brot á réttindum starfsfólks hefðu í för með sér umsvifalausa ógildingu leyfisins (þannig að framkvæmdir myndu stöðvast). Að aðilar sem gefa út starfsleyfi settu það sem skilyrði að brot á réttindum starfsólks hefðu í för með sér tafarlausa sviptingu starfsleyfis. Að lögum yrði breytt á þann hátt að launagreiðendur sem hlunnfara starfsmenn um lögbundin kjör sín, hvaða nafni sem þau nefnast, yrðu sektaðir um t.d. þrefalda þá fjárhæð. Enn skal áréttað að framangreint eru vangaveltur og eingöngu settar fram til mögulegrar skoðunar og umræðu, en breytingar í þessa veru myndu styrkja keðjuábyrgð fyrirtækja til muna.

Lykilatriði er að þótt opinbert eftirlit sé mikilvægt vega viðurlögin einnig þungt á metunum. Og ef aðilar eiga yfir höfði sér nógu harkaleg viðurlög, á borð við tafarlausa stöðvun á starfsemi og sviptingu leyfa, er ekki ólíklegt að þeir sem fjármagna þá muni í auknum mæli sjá sjálfir um það eftirlit og aðhald sem skattgreiðendur þyrftu annars að borga opinberum stofnunum til að sinna. Það yrði skilvirk niðurstaða í þágu samfélagsábyrgðar og bættra viðskiptahátta.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 06. október.