Óþol hinna umburðarlyndu

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ef til vill voru viðbrögð vinstri manna við skýrslu dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008, fyrirsjáanleg. Af einhverjum ástæðum komast margir vinstrisinnar alltaf úr jafnvægi þegar nafn Hannesar Hólmsteins ber á góma. Líkt og oft áður í sögunni skipta skilaboðin (efni skýrslunnar) litlu en sendiboðinn öllu og á þeim grunni er lagt til atlögu.

Í pistli á mbl.is bendir Sigurður Már Jónsson blaðamaður á að skýrsla Hannesar Hólmsteins setji íslenska bankahrunið í alþjóðlegt samhengi og varpi um leið ljósi á samskipti við erlend stjórnvöld í kringum fall viðskiptabankanna. Við Íslendingar vorum einangraðir og nágrannaþjóðir „snéru við okkur bakinu og fénýttu sér svo aðstæðurnar“. Sigurður Már segir það „furðulegt að fylgjast með því hve margir eru tilbúnir að gagnrýna skýrsluna og játa um leið að hafa ekki lesið hana!“.

Vanlíðan og viðkvæmni

Af einhverjum ástæðum er það viðkvæmt að reynt sé að greina erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Engu er líkara en að þingmenn Samfylkingarinnar fari á taugum þegar dregnar eru fram staðreyndir um hvernig framganga annarra ríkja gagnvart Íslandi á erfiðum tímum, hafi gert efnahagslegu áföllin erfiðari og meiri. Þess vegna er forðast að ræða efni skýrslu Hannesar Hólmsteins (og kannski er hún ekki einu sinni lesin) en þess í stað er ráðist á höfundinn og hann gerður tortryggilegur vegna stjórnmálaskoðana sinna og þátttöku í þjóðmálaumræðu í áratugi.

Það er eftirtektarvert hversu mikilli vanlíðan skýrslan veldur mörgum. Sigurður Már segir að í henni sé gengið „gegn ákveðnum dogmatisma sem hefur verið sterkur í umræðunni hér heima, einkum meðal vinstri manna, einstaka háskólamönnum og ákveðnum starfsmönnum Ríkisútvarpsins“. Getur verið að þetta sé ástæðan fyrir angist þeirra sem vilja kasta rýrð á efni skýrslunnar með því að ráðast á persónu höfundarins?

Það er merkilegt hve þeim sem mest kenna sig við umburðarlyndi og víðsýni, er illa við að til séu fræðimenn og háskólakennarar sem aðhyllast lífsskoðanir sem byggja á einstaklingsfrelsi og frjálsum markaði. Óþol hinna umburðarlyndu gagnvart slíkum skoðunum fer vaxandi. Umburðarlyndið nær aðeins til þeirra sem eru með „réttu“ skoðanirnar og „rétta“ pólitíska bakgrunninn. Þess vegna er það eðlilegt að prófessorar og háskólakennarar, sem sumir hafa tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðunni og jafnvel setið á Alþingi fyrir „rétta“ flokkinn, skrifi bækur og skýrslur og séu fengnir í drottningarviðtöl í ríkisreknum fjölmiðli.

Gegn samkeppni hugmynda

Samkeppni hugmynda er eitur í beinum þeirra sem hæst tala um eigið umburðarlyndi og víðsýni. Í stað rökræðunnar er gripið til þess ráðs að grafa undan þeim sem eru andstæðrar skoðunar – gera viðkomandi tortryggilegan sem talsmann öfgafullra viðhorfa. Reynt er að komast undan því að glíma við andstæðar skoðanir og viðhorf – hlaupið undan rökræðunni. Hægt og bítandi verður pólitísk umræða lítið annað en innihaldslaust hjal, frasar og upphrópanir.

Með skáldlegum tilburðum – sem víðsýnin ein leyfir – er varað við því úr ræðustól Alþingis að „öfgamenn með skrýtnar jaðarskoðanir“ ráði för þegar rætt er um að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Í hugum hinna umburðarlyndu er Ríkisútvarpið heilög stofnun og aðeins öfgamenn vilja jafna stöðu sjálfstæðra fjölmiðla í samkeppni við ríkið á fjölmiðlamarkaði. Og þeir verstu leyfa sér að efast um réttmæti þess að ríkið sé yfir höfuð að reka fjölmiðil með þeim hætti sem gert er. Heitasti draumur víðsýnna stjórnmálamanna er að efla Ríkisútvarpið enn frekar og gera sjálfstæða fjölmiðla að þurfalingum ríkissjóðs með opinberum styrkjum og millifærslusjóðum. Þversögnin sem í því felst truflar ekki þá sem gera þá kröfu um að fá viðurkenningu fyrir frjálslyndi.

Hornsteinn frjálsra samfélaga

Samkeppni hugmynda og skoðana er einn hornsteina frjálsra samfélaga og forsenda framfara. Þessari staðhæfingu hafna hinir umburðarlyndu í óþoli sínu gagnvart þeim sem eru á öndverðum meiði og setja fram aðrar skoðanir en þær sem eru þóknanlegar. Rósemi, skilningur og þolinmæði gagnvart „röngum hugmyndum“ er ekki leyfð. Gagnrýni sem byggist á borgaralegum gildum skal kæfð í fæðingu. Í fyrirmyndaríki umburðarlyndis þurfa skoðanir sérstaka löggildingu og þeim tryggður farvegur í háskólum og á öldum ljósvaka ríkisins.

Ný-frjálslyndi vinstri manna er réttlæting þess að seilast dýpra í vasa launafólks og kalla það samfélagslega ábyrgð að þenja út ríkið og ríkisreksturinn. Aðeins kreddufastir, þröngsýnir og öfgafullir stjórnmálamenn tala fyrir lægri sköttum, athafnafrelsi framtaksmannsins og einfaldara regluverki.

Hægt og bítandi missa sum orð merkingu eða snúast jafnvel upp í andhverfu sína. Frjálslyndi, víðsýni og umburðarlyndi hafa fengið aðra og gjörbreytta merkingu frá því þegar ég var að alast upp.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. október 2018