Traustari álagning veiðigjalds

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Núgildandi aðferð við álagningu veiðigjalds er háð margvíslegum annmörkum. Einn sá veigamesti er sú staðreynd að álagning gjaldsins er ekki í neinum takti við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja enda byggð á um tveggja ára gömlum upplýsingum. Þá hefur réttilega verið á það bent að öll stjórnsýsla með álagningu gjaldsins er bæði flókin og ógegnsæ. Loks má nefna að reiknistofn veiðigjaldsins er verulega háður gengissveiflum sem hefur leitt til óeðlilegra sveiflna á fjárhæð gjaldsins sem samræmast illa rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Það sem veldur því í núverandi fyrirkomulagi er að hreinn hagnaður fiskveiða hefur meðal annars ráðist af endurmati á virði lána þannig að til hefur orðið veruleg tekju- eða gjaldafærsla sem þó er aðeins bókhaldsleg.

Í mínum huga er óboðlegt að búa einni af undirstöðuatvinnugreinum okkar Íslendinga skilyrði sem þessi og hef ég skynjað ríkan vilja til að bæta úr þessum annmörkum, bæði meðal þeirra sem starfa við íslenskan sjávarútveg og einnig á vettvangi stjórnmálanna.

Álagning færð nær í tíma

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er eitt helsta markmið nýs frumvarps um veiðigjald að færa álagningu gjaldsins nær í tíma svo það verði meira í samræmi við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Ákvörðun veiðigjalds verður þannig byggð á árs gömlum gögnum í stað um tveggja ára líkt og nú er. Það sem gerir þetta mögulegt er m.a. sú breyting að færa ábyrgð á úrvinnslu veiðigjaldsins til Ríkisskattstjóra og leggja niður veiðigjaldsnefnd. Jafnframt má nefna þá breytingu í þessu samhengi að veiðigjald verður ákvarðað á grundvelli rekstrarupplýsinga sem sjávarútvegsfyrirtæki skila til RSK í stað þess að notast við hagtölur Hagstofu líkt og nú er. Þannig verður gjaldtakan byggð á haldbærari gögnum og með þessu verður reiknistofn veiðigjalds gegnsærri og auðskiljanlegri en reiknistofn gildandi laga.

Veiðigjald einfaldað

Í frumvarpinu er að finna margvíslegar breytingar sem eru til þess fallnar að einfalda gjaldtökuna og draga úr flækjustigi. Þannig er lagt til að hagnaður fiskvinnslu komi ekki til útreiknings veiðigjalds líkt og nú er en núverandi fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt með vísan til þess að fiskvinnsla sé ekki hluti af auðlindanýtingu. Þá er einnig lagt til að tegundir utan aflamarks verði undanskildar veiðigjaldi (að frátöldum makríl). Með þessu fækkar nytjastofnum sem bera veiðigjald úr 46 í 27. Nytjastofnar sem ekki eru í aflamarki veiðast oftast sem meðafli og gjaldtaka á þessar tegundir getur dregið að nauðsynjalausu úr sókn og aukið hættu á brottkasti. Loks má nefna að útreikningur aflaverðmætis frystiskipa vegna vinnsluþáttar er einfaldaður í frumvarpinu.

Fjárfestingar og minni sveiflur

Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði tillit til fjárfestinga í skipum og tækjabúnaði í sjávarútvegi við útreikning á gjaldstofni veiðigjalds enda felast sameiginlegir hagsmunir ríkisins og útgerðar til langframa í öflugum fjárfestingum. Þannig er tekið tillit til eðlilegs vaxtakostnaður af fjárfestingum á sama tíma og gengisáhrif, sem valdið hafa miklum sveiflum, eru tekin út. Þessar breytingar á forsendum veiðigjaldsins leiða til þess að minni sveiflur verða á álagningu veiðigjalds en það hefur verið ein helsta gagnrýnin á núverandi álagningu. Þannig verður meira samræmi á milli annars vegar afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og hins vegar fjárhæðar veiðigjalds á hverjum tíma.

Óbreytt gjaldhlutfall

Samkvæmt frumvarpinu verður veiðigjald reiknað þannig að það nemi 33% af reiknistofni hvers nytjastofns. Er það óbreytt gjaldhlutfall frá núgildandi lögum. Með því gjaldhlutfalli liggur fyrir að veiðigjöld samkvæmt frumvarpinu hefðu skilað sambærilegri fjárhæð til ríkissjóðs á árunum 2009-2018 ef það kerfi hefði verið í gildi (64,2 mia. kr.) og heildarfjárhæð veiðigjalds var raunverulega á þessu sama tímabili (63,7 mia. kr.). Með þessu gjaldhlutfalli má því segja að byggt sé á ákvörðunum Alþingis um veiðigjald á þessum árum, sem hafa verið umbrotaár í íslensku atvinnu- og stjórnmálalífi, en veiðigjöld hafa verið til umræðu á flestum eða öllum löggjafarþingum þessa tíma.

Forsvarsfólk sjávarútvegsfyrirtækja hefur lýst yfir vonbrigðum með þetta hlutfall. Það sé of langt gengið að ríkið taki til sín 33% af hagnaði við fiskveiðar til viðbótar við 20% tekjuskatt og aðra gjaldtöku. Því sjónarmiði sýni ég fullan skilning. Á sama tíma koma fram stjórnmálamenn sem segja að það ætti að ganga lengra – að ríkið ætti að taka stærri hlut af afkomu sjávarútvegsfyrirtækja en lagt er til í frumvarpinu. Það verður verkefni næsta vikna og mánuða að fara yfir þessi sjónarmið.

Málefnaleg umræða

Ég bind vonir við að umræða um frumvarpið verði með þeim hætti að við stöndum uppi með traust og öflugt kerfi við álagningu veiðigjalds. Við getum þannig stuðlað að meiri sátt um framtíðarfyrirkomulag þessarar gjaldtöku. Þjóðin fái réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar en jafnframt verði gætt að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Þannig tryggjum við hagsmuni þjóðarinnar allrar til lengri tíma.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. september 2018.