Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins:
Langt frameftir öldum voru það álitin óhrekjandi sannindi að á Íslandi gætu ekki nema um fimmtíu þúsund manns þrifist með bærilegu móti. Flestir þyrftu reyndar að sætta sig við að tóra naumlega, því nýting landsins væri þá komin á ystu nöf þess mögulega. Reynslan hafði kennt okkur að fleiri væri ómögulegt að fæða og klæða með þeim nytjum sem okkur voru skammtaðar. Sambærilegir útreikningar hafa verið gerðir víða um heim og dómsdagsspár um offjölgun mannkyns hafa í gegnum tíðina valdið ugg og ótta. En eitt vill gleymast við slíkar spár. Þær gera sjaldnast ráð fyrir að hægt sé að sækja meiri verðmæti úr sömu landkostum. Þær gera semsagt ekki ráð fyrir nýsköpun.
Á Íslandi erum við svo lánsöm að hafa aðgang að ríkulegum náttúruauðlindum. Hafið, orkan, vatnið og náttúrufegurðin eru allt auðlindir sem hver um sig hefur orðið undirstaða mikillar verðmætasköpunar. Oft er sagt að velmegun Íslands sé fyrst og fremst reist á miklum landkostum, en minna gert út hugviti og nýsköpun. Samt voru allar þessar auðlindir til staðar meðan við héldum okkur fullnýta þær til að fæða fimmtíu þúsund manns. Munurinn liggur í nýrri þekkingu, betri nýtingu og opnun nýrra markaða. Allur munurinn er nýsköpun.
Spurningunni um það hvort nýsköpun skipti máli hefur því í raun fyrir löngu verið svarað. En hugtakið líður ef til vill fyrir hughrifin sem orðið ber með sér. Nýsköpun er ekki aðeins krúttleg uppátæki ungs fólks sem fær sniðugar hugmyndir sem skapa vissulega einhver verðmæti en skipta litlu í heildarmyndinni. Nýsköpun er þvert á móti mikil alvara fyrir samfélag sem vill horfa til framtíðar og stuðla að frekari verðmætasköpun.
Efnahagsstoð sem byggir á óþrjótandi auðlind
Hátækni- og hugverkaiðnaðurinn skiptir æ meira máli og myndar nú fjórðu stoð hagkerfisins. Það er helst ólíkt með þessari stoð og hinum þremur; sjávarútvegi, ferðaþjónustu og stóriðju, að hugvitið sem nýsköpun byggir á er óþrjótandi auðlind. Við viljum auðvitað skila góðu búi til komandi kynslóða og ef við ætlum áfram að auka nýtingu og framleiðni án þess að ganga á takmarkaðar auðlindir liggur beinast við að beina ljósi nýsköpunar til allra sviða samfélagsins.
Vinna hafin við mótun nýsköpunarstefnu
Þótt ég sé almennt á því að markaðurinn blómstri best á eigin forsendum þá skiptir stuðningsumhverfi stjórnvalda í þessum málaflokki miklu máli. Umhverfið á alþjóðavísu sýnir þeirri staðreynd skilning. Framsæknustu ríki heims eru einfaldlega að fjárfesta til framtíðar með slíkum stuðningi. Við eigum að gera jafn vel og taka mið af samkeppnisumhverfi þeirra landa sem við berum okkur saman við ef við viljum ekki eiga á hættu að missa fólk, fyrirtæki og lífsgæði frá okkur. Við mótun slíks umhverfis verður samt að horfa vandlega og heildstætt á hvernig kerfið nýtist sem best sem og fjármunirnir sem í það fara.
Þess vegna er kveðið á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að mótuð skuli heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland. Ég hef hrundið af stað þeirri vinnu. Fyrsti fundur stýrihóps var í vikunni með fulltrúum frá atvinnulífinu, vísinda- og háskólasamfélaginu, tækni- og nýsköpunarsamfélaginu, þingflokkum og sprota- og nýsköpunarsamfélaginu. Stýrihópurinn hefur ásamt verkefnastjórn það verkefni að greina þá þætti sem mest áhrif hafa á Ísland sem ákjósanlegan vettvang fyrir nýsköpun og samkeppnishæfni við það besta sem gerist í heiminum. Samhliða munu verkefnahópar leggja til tilögur að aðgerðum sem stuðla að sama marki.
Helsti grundvöllur aukinnar velmegunar okkar Íslendinga er nýsköpun. Á Íslandi er mikill nýsköpunarkraftur og markmið stjórnvalda hlýtur að vera að stuðla að því að hann nýtist sem best og að hér geti þrifist heilbrigt, sanngjarnt og frjósamt umhverfi til nýsköpunar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 22. september.